Monthly Archives: February 2013

Andlátsfregnin orðum aukin

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, sem situr í rannsóknarráði RNH, flutti fyrirlestur í Hátíðasal Háskóla Íslands 19. febrúar 2013, er hann nefndi „Frjálshyggjan, kreppan og kapítalisminn“. Þar kvað hann andlátsfregnina um kapítalismann eftir lánsfjárkreppuna 2008 orðum aukna. Atvinnufrelsi hefði samkvæmt mælingum ekki minnkað í heiminum. Stærsta fréttin á fyrsta áratug 21. aldar væri, að Kína og Indland hefðu hafið þátttöku í heimskapítalismanum, 2,5 milljarður manna. Hannes vék síðan að fjórum röksemdum gegn frjálshyggju og kapítalisma.

Photo: Haraldur Gudjonsson
Photo: Haraldur Gudjonsson

Hin fyrsta væri, að kapítalisminn væri óstöðugur. Hannes kvað það rétt, en ríkið væri enn óstöðugra. Lánsfjárkreppa síðustu ára stafaði ekki síst af því, að fyrir bankamenn borgaði áhættusækni sig. Þegar vel gengi, græddu þeir. Þegar illa gengi, flyttu þeir tapið á herðar skattgreiðenda. Ný fjármálatækni hefði átt að dreifa áhættu, en í reynd hefði hún frekar falið hana. Einnig væri rangt að flokka fasteignir og ríkisskuldabréf sem áhættulausar eða áhættulitlar fjárfestingar. Hannes nefndi einnig lögboðnar takmarkanir á afskriftum banka sem enn einn þátt í að auka áhættu.

Önnur röksemdin væri, að frjálshyggjutilraunin íslenska hefði mistekist. Hannes kvað enga slíka tilraun hafa verið gerða hér, heldur hefði hagkerfið verið fært í svipað horf og í grannríkjunum. Tímabilið 1991–2004 mætti kenna við markaðskapítalisma, en tímabilið 2004–2009 við klíkukapítalisma, því að þá hefði fámenn auðklíka tekið hér öll völd. Hún hefði hins vegar falið skuldir sínar á bak við mörg nöfn og margar kennitölur. Hún hefði merkt lystisnekkjur sínar og einkaþotur með tölunni 101, því að lánin fyrir þeim hefðu verið slegin á 100 kennitölur, en skuldarinn jafnan verið einn og hinn sami.

Þriðja röksemdin væri, að frjálshyggjan væri ómannúðleg. Hannes kvað fæsta gagnrýnendur hafa kynnt sér verk þeirra Johns Lockes og Adams Smiths. Þeir, sem girntust eitthvað frá náunga sínum, gætu reynt að afla þess með ofbeldi eða kaupum, með verði eða sverði. Kapítalisminn hefði líka reynst öflugasta tæki mannanna til að breyta fátækt í bjargálnir, en við það hyrfi margvíslegt böl.

Photo: Haraldur Gudjonsson
Photo: Haraldur Gudjonsson

Fjórða röksemdin væri, að Íslendingar ættu frekar að taka Evrópuþjóðir sér til fyrirmyndar en Bandaríkjamenn. Hannes kvað Bandaríkin ekkert sérstakt frjálshyggjuríki. Hagkerfið þar væri samkvæmt síðustu mælingum hið 18. frjálsasta í heimi. Sviss kæmist líklega næst því að teljast frjálshyggjuríki, því að þar væri hagkerfið ekki aðeins tiltölulega frjálst, heldur væri kúgun eins hóps á öðrum settar rammar skorður. Hins vegar væri umhugsunarefni, að hagsæld væri miklu meiri í „norrænum“ hagkerfum vestan hafs en austan, í Minnesota, Suður-Dakóta og Manitoba frekar en á Íslandi eða í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi.

Eftir fyrirlesturinn spurði Þórólfur Þórlindsson prófessor, hvernig Íslendingar gætu komist út úr ógöngunum. Hannes kvað brýnast að lækka skatta til að örva atvinnulíf og atvinnusköpun. Gunnlaugur Jónsson spurði, hvað Íslendingar ættu að gera í peningamálum. Hannes svaraði, að verðfall peninga væri vegna óskynsamlegrar hegðunar. Lausnin fælist í að breyta þeirri hegðun, eyða ekki um efni fram, gera ekki óhóflega kjarasamninga. Hefðu Íslendingar nægan sjálfsaga til að gera það í skjóli erlends gjaldmiðils, þá hefðu þeir væntanlega nægan sjálfsaga til að gera það án hans. Hann teldi hins vegar sjálfsagt að skoða alla kosti og nefndi sérstaklega myntslátturáð með enskt pund sem viðmiðun.

Logo-svisléFyrirlesturinn, sem var á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála og einnig þáttur í fyrirlestraröð RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“, var fjölsóttur. Fundarstjóri var dr. Ómar Kristmundsson, forseti stjórnmálafræðideildar. Að fundinum loknum bauð Hannes Hólmsteinn til móttöku í Hámu, mötuneyti Háskólans, í tilefni sextugsafmælis síns þennan sama dag. Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi var veislustjóri, en tríó Péturs Emils Júlíusar Gunnlaugssonar lék jasstónlist. Þar fluttu ávörp þeir Ómar og Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra. Um kvöldið héldu nokkrir vinir og samverkamenn Hannesar kvöldverð honum til heiðurs, og hafði um hann forgöngu stjórn RNH, Gísli Hauksson, Jónmundur Guðmarsson og Jónas Sigurgeirsson. Kjartan Gunnarsson var þar veislustjóri, en hátíðarræðuna flutti Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra.

Fyrirlestur Hannesar vakti mikla athygli. Morgunblaðið sagði frá honum 20. janúar 2013. Vefmiðill stúdenta, student.is, sagði einnig frá honum sama dag. Styrmir Gunnarsson skrifaði í vikulegum dálki sínum í Morgunblaðinu 23. febrúar, að með honum hefði þögn háskólaheimsins um hrunið, orsakir þess og afleiðingar, verið rofin. Hannes Hólmsteinn ræddi um efni fyrirlestursins við Björn Bjarnason á sjónvarpsstöðinni ÍNN 27. febrúar. Morgunblaðið sagði frá ættum Hannesar og uppruna 19. febrúar í tilefni sextugsafmælis hans. Einnig birti blaðið viðtal við Hannes 17. febrúar. Viðskiptablaðið flutti einnig viðtal við Hannes 16. febrúar og myndir úr sextugsafmæli hans. Einnig birti vefsjónvarp Viðskiptablaðsins viðtal við Hannes á afmælisdaginn. Hið vikulega myndablað Séð og heyrt birti einnig viðtal við Hannes og myndir úr afmæli hans.

Glærur Hannesar 19.02.2013

Minningar um fjóra meistara

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, flutti erindi fyrir Skólabæjarhópinn svokallaða, sem er félag fyrrverandi starfsmanna Háskóla Íslands, í safnaðarheimili Neskirkju miðvikudaginn 13. febrúar 2013. Kallaði hann erindið „Minningar um fjóra meistara“. Þar sagði hann frá kynnum sínum af þeim Friedrich A. von HayekKarli PopperMilton Friedman og James M. Buchanan. Þrír þeirra, Nóbelsverðlaunahafarnir Hayek, Friedman og Buchanan, komu á sínum tíma til Íslands og héldu fyrirlestra, en Hannes Hólmsteinn heimsótti Popper á heimili hans í Penn, Buckinghamshire, í janúar 1985 og ræddi lengi dags við hann um menn og málefni. Allir voru þessir hugsuðir mjög áhrifamiklir á tuttugustu öld. Óhætt er að segja, að hagfræðingar og stjórnmálamenn hafi á tuttugustu öld ýmist hallast á sveif með Hayek eða John Maynard Keynes um skilning á hagkerfinu og gangverki þess. Heimspekingar hafa á sama hátt skipað sér ýmist á bekk með Popper eða öðrum austurrískum heimspekingi, Ludwig Wittgenstein, sem var raunar frændi von Hayeks.

Hannes Hólmsteinn og Hayek í Lundúnum vorið 1985.

 

Eftir að Félag frjálshyggjumanna hafði verið stofnað á áttræðisafmæli Hayeks 8. maí 1979, þáði Hayek boð um að koma til Íslands. Hann hélt hér tvo fyrirlestra, annan um skipulag peningamála í Háskóla Íslands, hinn um „Miðju-moðið“ á fundi Félags frjálshyggjumanna. Hann bauð einnig Hannesi Hólmsteini að sækja þing Mont Pelerin Society í Stanford haustið 1980, og árið 1984 var Hannes Hólmsteinn kjörinn félagi í samtökunum. Sótti hann meðal annars samkvæmi, sem Richard von Weizsäcker, þá borgarstjóri í Berlín og síðar forseti Þýskalands, hélt til heiðurs Hayek í Charlottenburg-höll 1982 og annað samkvæmi, sem Jacques Chirac, þá borgarstjóri í París og síðar forseti Frakklands, hélt til heiðurs Hayek í Hotel de Ville 1984. Sýndi Hannes Hólmsteinn myndir frá þessum og mörgum öðrum viðburðum. Í Oxford skrifaði Hannes Hólmsteinn doktorsritgerð um kenningu Hayeks, og hann og nokkrir félagar hans stofnuðu þar Hayek Society. Í erindi sínu sagði Hannes Hólmsteinn frá eftirminnilegum kvöldverði með Hayek í Lundúnum vorið 1985, þar sem hinn aldni Austurríkismaður lék á als oddi, 86 ára að aldri, tók undir með hljómlistarmönnum, þegar lagið „Borg drauma minna“ (um Vín) var leikið, sagði frá því, hvernig Margrét Thatcher hefði afvopnað sig í rökræðum, ræddi um muninn á frelsi og frelsun, gagnrýndi aðferðafræði Chicago-skólans í hagfræði, bar saman John F. Kennedy og Ronald Reagan, sem hann hafði báða hitt, og tók loforð af ungu mönnunum um, í hvaða anda þeir myndu stunda rannsóknir sínar.

Milton og Rose Friedman og Hannes Hólmsteinn í Tókíó haustið 1988.

Hannes Hólmsteinn kvaðst fyrst hafa hitt Milton Friedman á þingi Mont Pelerin Society í Stanford 1980. Hann hefði sagt Friedman, að hann stæði í ströngu við að verja hann á Íslandi. Friedman hefði sagt: „Þú átt ekki að verja mig. Þú átt að verja sameiginlega sannfæringu okkar.“ Friedman hefði kunnað vel að meta, þegar Hannes Hólmsteinn hefði 1984 skrifað tölfræðiprófessor einum í Oxford, sem vitnað hefði verið til um skekkjur og brellur í tölfræðivinnslu í verkum Friedmans, og fengið hjá honum staðfestingu á því, að ekki væri um neinar skekkjur eða brellur að ræða, heldur aðeins ólíkar úrvinnsluaðferðir. Friedman hefði heimsótt Ísland haustið 1984 til að halda fyrirlestur, en komið fram í frægum sjónvarpsþætti kvöldið fyrir fyrirlesturinn með Stefáni Ólafssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni. Þegar Stefán hefði gagnrýnt, að krafist væri aðgangseyris að fyrirlestri Friedmans, en opinberir fyrirlestrar erlendra fræðimanna hefðu fram að þessu verið ókeypis í Háskóla Íslands, hefði Friedman svarað því til, að slíkir fyrirlestrar hefðu auðvitað ekki verið ókeypis. Munurinn hefði verið sá, að þeir, sem ekki sóttu þá, hefðu orðið að greiða fyrir þá, en ekki aðeins áheyrendurnir. Hannes Hólmsteinn sagði frá hádegisverði, sem Matthías Á. Mathiesen viðskiptaráðherra hefði boðið til. Friedman hefði sem kunnugt er viljað leggja niður seðlabanka. Hannes Hólmsteinn hefði kynnt Davíð Ólafsson seðlabankastjóra fyrir Friedman með þessum orðum: „Hér er maður, prófessor Friedman, sem yrði atvinnulaus, væru þínar kenningar framkvæmdar á Íslandi.“ Friedman hefði þá sagt með bros á vör: „Ekki atvinnulaus: Hann yrði aðeins að færa sig í arðbærara starf.“

Logo-svisléHannes Hólmsteinn sagði í erindi sínu margar fleiri sögur af þeim Hayek og Friedman, en einnig af Karli Popper og James M. Buchanan. Þeir Poppper hefðu til dæmis talað lengi um, hvort Popper hefði verið of vægur við Karl Marx í hinu mikla riti sínu, Opnu skipulagi og óvinum þess (The Open Society and Its Enemies). Popper sagðist hafa orðið fyrir miklum áhrifum af lýsingum bresku skáldkonunnar Elísabetar Gaskells á eymdinni meðal vinnandi fólks á Bretlandseyjum á nítjándu öld. Popper hefði einnig bent á, að Ísland væri eina dæmið um raunverulegt þjóðríki — þar sem þjóð og ríki fara saman — sem hann þekkti. Fyrirlestur Hannesar Hólmsteins var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, undir yfirskriftinni „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur Hannesar 13.2.2013