Monthly Archives: November 2014

Fræðslurit um kommúnisma endurútgefin

platform_euLogo-svisléPrófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna í RNH, lýsti samstarfsverkefni RNH og AECR, „Evrópu fórnarlambanna“ á ársfundi Evrópuvettvangs minningar og samvisku, Platform of European Memory and Conscience, í Brüssel 4.–5. nóvember 2014, en RNH er aðili að vettvangnum. Meðal fyrirlesara á fundum og ráðstefnum RNH (sem oft hafa verið haldnar í samstarfi við aðra aðila) hafa verið dönsku sagnfræðiprófessorarnir Bent Jensen og Niels Erik Rosenfeldt, ástralski rithöfundurinn Anna Funder, franski sagnfræðiprófessorinn Stéphane Courtois, ritstjóri Svartbókar kommúnismans, norski sagnfræðiprófessorinn Øystein Sørensen, eistneski þingmaðurinn og sagnfræðingurinn dr. Mart Nutt, pólski stjórnmálafræðingurinn dr. Pawel Ukielski, forstöðumaður safns um uppreisnina í Varsjá 1944, og slóvenski sagnfræðingurinn dr. Andreja Zver. RNH hefur einnig staðið að ljósmyndasýningu í Þjóðarbókhlöðunni um tengsl íslensks kommúnisma við heimshreyfingu kommúnista, bókargjöfum til Þjóðarbókhlöðunnar og útgáfu Kíru Argúnovu, skáldsögu Ayns Rands um lífið eftir byltingu bolsévíka í Rússlandi.

Næstu viðburðir innan þessa samstarfsverkefnis verða endurútgáfa nokkurra fræðslurita, sem íslenskir lýðræðissinnar gáfu út í baráttunni við kommúnismann, sem var mjög áhrifamikill í íslensku menningarlífi um miðja tuttugustu öld, ekki síst í krafti rausnarlegs fjárstuðnings frá Kremlverjum. Verða þessar bækur aðgengilegar á netinu, en einnig er stefnt að því, að til verði af þeim pappírseintök. Svartbók kommúnismans kemur út í annað sinn 9. nóvember 2014, þegar aldarfjórðungur er frá hruni Berlínarmúrsins og falli kommúnismans.

Á meðal annarra rita, sem verða endurútgefin, eru Guðinn sem brást eftir Arthur Koestler og fleiri, Konur í einræðisklóm eftir Margarete Buber-NeumannÞjónusta. Þrælkun. Flótti eftir Aatami Kuortti, Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko og Úr álögum eftir Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs. Réðust íslenskir kommúnistar harkalega á höfunda þessara bóka, sem sumir höfðu setið í þrælkunarbúðum Stalíns, en aðrir orðið vitni að harðstjórninni í Rússlandi. Þá er von á tveimur frægum skáldsögum um kommúnismann, Nítján hundruð áttatíu og fjögureftir George Orwell og Myrkur um miðjan dag eftir Arthur Koestler.

Tibor Navracsics, framkvæmdastjóri ESB í skóla- og menningarmálum, opnar Brüssel-skrifstofu Evrópuvettvangsins. Ljósm. Peter Rendek.
Tibor Navracsics, framkvæmdastjóri ESB í skóla- og menningarmálum, opnar Brüssel-skrifstofu Evrópuvettvangsins. Ljósm. Peter Rendek.

Einnig er ætlunin að gefa út á bókum ýmsar greinar, sem birtust í íslenskum blöðum og tímaritum. Þar á meðal verður greinasafn eftir Bertrand Russell um kommúnisma, greinaflokkar séra Jóhanns Hannessonar, sem var kristniboði í Kína, um kínverskan kommúnisma, ræður nokkurra íslenskra menntamanna gegn kommúnisma, þar á meðal Tómasar Guðmundssonar, Gunnars Gunnarssonar, Guðmundar G. Hagalíns og Kristmanns Guðmundssonar, og greinaflokkur eftir Arthur Koestler um ástandið í Ráðstjórnarríkjunum, en bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík 1946 snerust að miklu leyti um lýsingar Koestlers. Hannes H. Gissurarson er ritstjóri þessarar bókaraðar, en hann segir, að hún þjóni tvenns konar tilgangi, að gera fróðlegt efni um mannskæðustu stjórnmálastefnu tuttugustu aldar aðgengilegt á netinu og heiðra minningu þeirra Íslendinga, sem börðust af alefli gegn henni. Ritar hann formála að bókunum og semur skýringar eftir þörfum. Friðbjörn Orri Ketilsson skannar bækurnar inn, Sigurgeir Orri Sigurgeirsson hannar útlit þeirra, og Hafsteinn Árnason aðstoðar við netvinnsluna.

Gestgjafar fundarins í Brüssel voru þrír Evrópuþingmenn, László Tökés frá Rúmeníu, Milan Zver frá Slóveníu og Sandra Kalniete frá Lettlandi. Á fundinum var opnuð skrifstofa Evrópuvettvangsins í Brüssel að Rue Bélliard 197, og sá Tibor Navracsics, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins í skóla- og menningarmálum og fyrrverandi utanríkisráðherra Ungverjalands, um það. Sex stofnanir og samtök fengu aðild að Evrópuvettvangnum, frá Slóveníu, Tékklandi, Slóvakíu, Ungverjalandi og Úkraínu.

Þáttakendur. Dr. Florian Kresse 3. frá v. í fremstu röð og Neela Winkelmann 6. frá v. Dr. Pawel Ukielski fyrir aftan hana t. v. og Göran Lindblad, forseti Evrópuvettvangsins, t. h. Dr. Andreja Zver 4. frá h. í fremstu röð. Dr. Hannes H. Gissurarson í aftari röð nálægt Winkelmann. Ljósm. Peter Rendek.
Þáttakendur. Dr. Florian Kresse 3. frá v. í fremstu röð og Neela Winkelmann 6. frá v. Dr. Pawel Ukielski fyrir aftan hana t. v. og Göran Lindblad, forseti Evrópuvettvangsins, t. h. Dr. Andreja Zver 4. frá h. í fremstu röð. Dr. Hannes H. Gissurarson í aftari röð nálægt Winkelmann. Ljósm. Peter Rendek.

Aðilar að Evrópuvettvangnum lýstu yfir stuðningi við lýðræðisöfl í Rússlandi. Þeir hafa sérstakar áhyggjur af tilraunum stjórnvalda í Kreml til að torvelda starfsemi rússnesku stofnunarinnar Memorial, sem helguð er minningum og mannréttindum. Memorial sinnir mikilvægum rannsóknum á örlögum fórnarlamba alræðisins í Ráðstjórnarríkjunum. „Herma ber,“ sögðu aðilar að Evrópuvettvangnum, „að hinir ofríkisfullu valdhafar, sem nú sitja í Kreml, skuli reyna að þagga niður í þessum röddum. Evrópuvettvangurinn varar við því, að hættulegt sé friði, farsæld, mannréttindum, lýðræði og réttarríki, að Evrópuþjóðirnar glati sögulegum minningum sínum. Hann skorar á alla Evrópumenn að læra af alræði liðinnar tíðar og stöðva framrás andlýðræðislegra afla í álfunni.“

Glærur Hannesar í Brüssel 4. 11. 2014

Hvað skýrir fjandskap Darlings?

BaugsbólaRannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu greindi réttilega tvær orsakir bankahrunsins: öran vöxt bankanna annars vegar og dulinn áhættuþátt inni í bankakerfinu hins vegar, en sá þáttur fólst aðallega í krosseignatengslum og uppblásnu eigið fé helstu skuldunauta bankanna, sem voru um leið helstu eigendur þeirra. Þó sást af tölum rannsóknarnefndarinnar, að Baugshópurinn var þar í sérflokki. Þetta sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor í fyrirlestri í Þjóðarspeglinum, ráðstefnu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, föstudaginn 31. október 2014. Hannes kvað rannsóknarnefndina þó ekki hafa gefið erlendum áhrifaþáttum hrunsins nægan gaum. Hún hefði lýst viðkvæmu ástandi, en kreppa þyrfti ekki alltaf að verða að hruni. Þrjár ákvarðanir, sem teknar hefðu verið erlendis, hefðu þar skipt miklu máli: sú ákvörðun bandaríska seðlabankans að neita hinum íslenska um gjaldeyrisskiptasamninga, á meðan gerðir voru slíkir samningar við seðlabanka allra annarra ríkja Vestur-Evrópu; sú ákvörðun ríkisstjórnar breska Verkamannaflokksins að neita breskum bönkum í eigu Íslendinga um lausafjárfyrirgreiðslu, á meðan allir aðrir breskir bankar fengu slíka fyrirgreiðslu; og sú ákvörðun Verkamannaflokksstjórnarinnar að setja hryðjuverkalög á íslensk fyrirtæki og stofnanir, en það gerði að engu allar vonir um endurreisn bankakerfisins í líkingu við það, sem varð í Svíþjóð eftir bankakreppuna 1991–1992.

Alistair Darling
Alistair Darling

Hannes kvað fróðlegt að lesa bók þá, sem Alistair Darling, þáverandi fjármálaráðherra Breta, hefði samið um hlut sinn í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu, Back from the Brink, sem kom út 2011. Þar minntist Darling nokkrum sinnum á Íslendinga, en mjög óvinsamlega. Hann héldi því til dæmis ranglega fram, að íslenskir ráðamenn hefðu ferðast um í risaþotum og að íslenskir fjármálamenn hefðu styrkt Íhaldsflokkinn breska. Enn fremur segði hann ónákvæmlega frá samtölum við íslenska ráðamenn, þar á meðal við Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, Geir H. Haarde forsætisráðherra og Árna Mathiesen fjármálaráðherra. Hann segði, að íslenskir ráðamenn hefðu annaðhvort leynt sig upplýsingum eða ekki vitað, hvað væri að gerast. Sjálfur hefði Darling hins vegar ekki vitað neitt um, hvað væri að gerast í skosku bönkunum, RBS, Royal Bank of Scotland, og HBOS, Halifax Bank of Scotland, sem orðið hefði að bjarga með stórum fúlgum af almannafé. Hannes benti á, að bresk þingnefnd hefði þegar árið 2009 komist að þeirri niðurstöðu, að Darling hefði skýrt rangt frá samtali sínu við Árna Mathiesen, skömmu áður en hryðjuverkalögin voru sett á Íslendinga, enda segði hann öðru vísi frá því í bókinni en hann hefði gert í fréttaviðtölum áður.

Logo-svisléHannes kvað þurfa að skýra augljósan fjandskap Darlings í garð Íslendinga. Ein skýring gæti verið, að íslensku bankarnir væru orðnir of stórir að hans mati. En hið sama ætti við um skoska banka, sem hefði vaxið ört og verið hlutfallslega mjög stórir miðað við Skotland. Önnur skýring gæti verið, að íslensku bankarnir hefðu í harðri samkeppni laðað að sér viðskiptavini og bakað sér óvild í breska bankaheiminum. Þriðja skýringin væri, að Darling hefði viljað sýna Skotum, að það borgaði sig ekki fyrir smáríki að standa eitt og óstutt í heiminum, en Darling var leiðtogi þeirra Skota, sem vildu halda fast í sambandið við England. Fyrirlestur Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur Hannesar 31. október 2014