Monthly Archives: April 2015

270 milljarða tap af glópsku og fólsku

Frá fjölmennri málstofu Viðskiptafræðistofnunar. Ljósm. Árni Sæberg.
Frá fjölmennri málstofu Viðskiptafræðistofnunar. Ljósm. Árni Sæberg.

Sex skýr dæmi má nefna um óþarft stórtap hinna föllnu íslensku banka, sagði dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor í fyrirlestri á vorráðstefnu Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands þriðjudaginn 21. apríl 2015. Tvö þeirra voru í Noregi og Finnlandi, en seðlabankar beggja landa neituðu dótturfélögum íslenskra banka um fyrirgreiðslu ólíkt seðlabanka Svíþjóðar, jafnvel þótt um norsk og finnsk fyrirtæki væri að ræða. Tapið af skyndisölu þessara þriggja fyrirtækja, sem öll höfðu verið í eigu Glitnis, nam að sögn Hannesar samtals um sextíu milljörðum króna.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri
Már Guðmundsson seðlabankastjóri

Hannes kvað svipað hafa gerst í Danmörku tveimur árum síðar. Danski seðlabankinn hafði í upphafi veitt FIH banka, sem var í eigu Kaupþings, sömu fyrirgreiðslu og öðrum dönskum bönkum, en hann breytti um stefnu haustið 2010 og krafðist þess, að bankinn yrði seldur. Íslenski seðlabankinn hafði tekið veð í bankanum fyrir neyðarláni til Kaupþings haustið 2008 og fór með veðið. Davíð Oddsson seðlabankastjóri hafði tryggt, að veðið var allsherjarveð (svo að það gæti gengið upp í allar skuldir Kaupþings, ekki aðeins neyðarlánið) og fengið staðfestingu danskra stjórnvalda á því, að það væri traust. En Már Guðmundsson lét undan dönskum stjórnvöldum og seldi bankann haustið 2010 með þeim skilmála, að aðeins væri greiddur út hluti kaupverðsins, en um eftirstöðvarnar færi eftir tapi bankans á ákveðnum tíma. Hannes gagnrýndi Má fyrir að reyna ekki að breyta ákvörðun danskra stjórnvalda, fyrir að selja í raun kaupendum sjálfdæmi um, hversu mikið af eftirstöðvunum þeir greiddu, og fyrir að leysa ekki til sín hluta bankans eða hann allan, eins og hægt hefði verið.

Gordon_Brown_portrait
Gordon Brown, forsætisráðherra Breta.

Hannes sneri sér loks að skyndilegri lokun tveggja breskra banka haustið 2008, á sama tíma og Verkamannaflokksstjórnin breska veitti öllum öðrum breskum bönkum, sem sumir voru mjög illa staddir, lausafjárfyrirgreiðslu, Heritable Bank og KSF. Hefði ráðherrar Verkamannaflokksins sakað bankana um margvísleg lögbrot í símtölum við íslenska ráðamenn og beitt mikilli fólsku með því að loka ekki aðeins bönkunum, heldur setja hryðjuverkalög á Íslendinga og gera með því að engu alla von um að bjarga einhverjum bankanna. Nú væri uppgjöri bankanna tveggja að mestu lokið, og komið væri í ljós, að þeir hefðu alls ekki verið gjaldþrota. Endurheimtur væru nánast algerar, þótt kostnaður af skiptunum og lögfræði- og sérfræðikostnaður hefði verið feikilegar. Ekkert misjafnt og þaðan af síður ólöglegt hefði fundist í rekstri þeirra þrátt fyrir rækilegar rannsóknir, sem bresk stjórnvöld hefðu haft allan hag af, að bæru árangur. Léti nærri, að tapið af þessum óþörfu aðgerðum Breta næmi um 150 milljörðum íslenskra króna. Samtals næmi óþarft tap af glópsku og fólsku í þessum sex gernum um 270 milljörðum króna.

Logo-svisléBoðskapur Hannesar vakti mikla athygli, og birti Morgunblaðið forsíðufrétt um hann 21. apríl. Einnig fluttu Ríkisútvarpið, Kjarninn og Stundin fréttir af henni. Hannes skrifaði einnig grein fyrir vefútgáfu Viðskiptablaðsins um málið. Seðlabankinn svaraði því til um FIH banka, að bókfært eigið fé fyrirtækis gæti ekki verið viðmiðið í kreppu. Hannes sagði þá, að það væri rétt, en gagnrýni sín hefði beinst að því, að Seðlabankinn hefði látið kúga sig og ekki gert neinar ráðstafanir til að halda uppi verðmæti veðsins. Nú væri komið á daginn, að veðið væri líklega orðið 112 milljarða virði og dönsku kaupendurnir hefðu stórgrætt á kaupunum, en Seðlabankinn tapað sínu, helmingi andvirðis neyðarlánsins til Kaupþings 2008. Erindi Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur Hannesar hjá Viðskiptafræðistofnun

Margt að læra af þremur meisturum liðinnar aldar

Hannes heldur ræðu sína. Ljósm. Marek Tatala.
Hannes heldur ræðu sína. Ljósm. Marek Tatala.

Á ársfundi Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta í Berlín 10.–12. apríl 2015 var Hannes H. Gissurarson prófessor, forstöðumaður rannsókna RNH, einn fyrirlesara. Bar fyrirlestur hans titilinn „Minningabrot um þrjá meistara okkar daga: Hayek, Popper og Hayek“. Hannes rifjaði upp, að hann hitti fyrst ensk-austurríska hagfræðinginn Friedrich von Hayek í apríl 1980, þegar hinn aldni Nóbelsverðlaunhafi heimsótti Ísland. Næstu árin hitti hann Hayek oft, jaft á fundum Mont Pelerin samtakanna og í Oxford, þar sem Hannes vann að doktorsritgerð um stjórnmálakenningar Hayeks. Hayek var austurrískur aðalsmaður og fræðimaður í eðli sínu, sem aldrei sakaði andstæðinga sína um annarlegar hvatir, heldur reyndi ætíð að svara rökum þeirra efnislega. Hann sagði Hannesi, að hann væri auðvitað mjög ánægður með, að ungt fólk hefði áhuga á hugmyndum sínum, en það skyldi ekki gerast hayeksinnar, heldur varðveita gagnrýna hugsun sína.

Á árum sínum í Oxford heimsótti Hannes líka ensk-austurríska heimspekinginn Karl F. Popper á heimili hans í Penn í Buckingham-skíri og ræddi við hann um heimspeki og stjórnmál. Þeir ræddu meðal um, hvort Popper hefði verið sanngjarn í dómum sínum um Hegel og Marx í hinu mikla riti, The Open Society and Its Enemies. Hannes hitti fyrst Milton Friedman haustið 1980 og margsinnis eftir það, jafnt á fundum Mont Pelerin samtakanna og í Stanford-háskóla, þar sem Friedman var rannsóknarfélagi í Hoover-stofnun háskólans og Hannes var gistifræðimaður. Friedman heimsótti einnig Ísland haustið 1984 og tók þátt í sögulegum sjónvarpsþætti með þremur íslenskum jafnaðarmönnum. Hér er brot úr þeim þætti:

Hannes bar saman þessa þrjá öndvegishugsuði. Hann sagði, að Hayek hefði verið djúpsæjastur. Hugmynd hans um, að dreifing þekkingarinnar krefðist dreifingar valds og að menn gætu aðeins sigrast á óumflýjanlegri vanþekkingu sinni með því að nýta sér þekkingarmiðlun hins frjálsa markaðar og siða og venju, væri mjög mikilvæg. Popper hefði ef til vill verið raunsæjastur eða hófsamastur. Hann hefði viljað bæta úr áþreifanlegu böli, sem allir væru sammála um, hvert væri, til dæmis fátækt og sjúkdómar,, frekar en reyna að skapa hamingju, sem ágreiningur væri um, hvernig ætti að skilgreina. Friedman hefði verið skarpastur, eldfljótur að hugsa og eftir því mælskur, en um leið alvörugefinn og vandvirkur fræðimaður.

Logo-svisléÁ meðal annarra fyrirlesara á ráðstefnunni voru Sam Bowman frá Adam Smith stofnuninni í Lundúnum, sem lýsti kostum opinna landamæra, prófessor Pierre Garello frá Frakklandi, sem ræddi um hnattvæðingu og gagnrýna á hana, danski blaðamaðurinn Flemming Rose, sem varði prentfrelsi, dr. Tom G. Palmer, sem reifaði ýmis rök í væntanlegri bók sinni um frelsi, og enski Evrópusambandsþingmaðurinn Daniel Hannan, ritari AECR, Evópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, sem hélt því fram, að frjálslyndir menn ættu að ala með sér efasemdir um Evrópusambandið. Fimm íslenskir æskumenn sóttu ráðstefnuna, Ásgeir Ingvarsson blaðamaður, Þorsteinn Friðrik Halldórsson, hagfræðistúdent og formaður Frjálshyggjufélagsins, Ingvar Smári Birgisson, laganemi og formaður Heimdallar, Markús Árni Vernharðsson laganemi og Jón Axel Ólafsson viðskiptafræðinemi. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Hér er upptaka af fyrirlestri hans, en smella þarf í vinstra hornið á myndspilaranum og velja fyrirlestur númer átta, og afrit af glærum hans:

Glærur Hannesar í Berlín

Svíum fórst best við Íslendinga

Hannes heldur erindi sitt. Ljósm. Ann-Kari Edenius.
Hannes heldur erindi sitt. Ljósm. Ann-Kari Edenius.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti erindi á málstofu að morgni fimmtudagsins 9. apríl hjá Ratio-stofnuninni í Stokkhólmi. Var erindið um samskipti Svía og Íslendinga frá öndverðu, en sérstaklega í bankahruninu 2008. Hannes rifjaði upp, að Ísland var í konungssambandi við Svíþjóð, en hvorki Noreg eða Danmörku, árin 1355–1364, í tíð Magnúsar smeks, sem hrakinn hafði verið frá Noregi, en hafði haldið konungstign í Svíþjóð. Þegar Svíþjóð fékk Noreg eftir Napóleonsstríðin í sárabætur fyrir missi Finnlands, höfðu sænskir ráðamenn ekki áhuga á að eignast um leið hin fornu norsku skattlönd í Norður-Atlantshafi, Færeyjar, Ísland og Grænland. Hannes benti á, að fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, Jón Þorláksson, var undir áhrifum frá sænska hagfræðingnum Gustav Cassel. Kvað Hannes sögu norrænnar frjálshyggju um margt ósagða. Velgengni Norðurlanda væri miklu frekar að þakka víðtæku atvinnufrelsi í lok 19. aldar og á öndverðri 20. öld og traustum arfi réttarríkisins en þeirri endurdreifingu tekna, sem jafnaðarmenn hefðu síðan beitt sér fyrir.

Hannes ræddi líka um bankahrunið 2008, þegar Svíar komu miklu betur fram við Íslendinga en aðrar Norðurlandaþjóðir. Sænski seðlabankinn veitti sænskum fyrirtækjum í eigu Íslendinga sömu lausafjárfyrirgreiðslu og öðrum sænskum fyrirtækjum, en norsk og finnsk yfirvöld neyddu hins vegar fyrirtæki í eigu Íslendinga til skyndisölu eigna, sem innlendir kaupsýslumenn hefðu hagnast drjúgum á. Svíar hefðu hins vegar því miður stutt Breta í Icesave-deilunni 2008–2013. Þetta sýndi líklega, að smærri ríki Evrópusambandsins eins og Svíþjóð hefðu ekki verulegt svigrúm til sjálfstæðrar stefnumörkunar. Þau yrðu að fylgja stærri ríkjum sambandsins, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi.

Logo-svisléÞví mætti halda fram, sagði Hannes, að Svíar hefðu komist að skynsamlegri niðurstöðu 1814, þegar þeir hefðu litið svo á, að Ísland ætti ekki heima með löndum meginlandsins. Þótt Íslendingar ættu að rækta vináttu sína við Svía, Þjóðverja og aðrar þjóðir meginlandsins, ættu þeir aðallega að styrkja sambandið við grannana á Norður-Atlantshafi, Noreg, Stóra-Bretland, Kanada og Bandaríkin. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur Hannesar í Stokkhólmi 2015