All posts by Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Íslandssaga og ævisögur á málstofu í Reykjavík

Plakat_tlo_fb_4RNH er hinn íslenski samstarfsaðili pólska rannsóknarsetursins Minningar og framtíðar í Wroclaw, sem sinnir rannsóknarverkefni um munnlega sögu af tengslum Íslendinga og Pólverja, einkum hin síðari ár. Haldinn var vinnufundur í Reykjavík 17.–27. ágúst 2015, þar sem pólskir fræðimenn og háskólanemar tóku viðtöl við Pólverja á Íslandi, heimsóttu deild munnlegrar sögu á Þjóðarbókhlöðunni og hlustuðu einnig á tvo íslenska fræðimenn skýra annars vegar Íslandssöguna og hins vegar íslenskar ævisögur. Veitti RNH aðstoð við undirbúning vinnufundarins.

Hannes.GissurarsonDr. Hannes H. Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor rakti sögu Íslands frá öndverðu. Kvað hann hana hafa verið stríð þjóðarinnar við eld og ís fram á 20. öld. Þjóðveldið hefði verið forvitnileg tilraun til að leysa úr ágreiningsefnum án ríkisvalds. Á meðan landið var dönsk hjálenda, hefði konungur í raun gert bandalag við fámenna íslenska landeigendastétt um að halda sjávarútvegi niðri. Þetta hefði breyst á 19. öld og þjóðin brotist úr fátækt í bjargálnir í krafti útgerðar og verslunar. Bankahrunið 2008 hefði verið henni mikið áfall, en hún hefði jafnað sig furðufljótt, eins og á fyrri áföllum. Þjóðin hefði fram á síðustu tíma verið mjög einsleit, en það væri að breytast. Pólskir innflytjendur hefðu lagast betur að henni en margir aðrir hópar.

GudniThJohannesson2010svhvJPV (2)_0Dr. Guðni Jóhannesson sagnfræðilektor lýsti íslenskum ævisögum. Sjálfur hefði hann skrifað nokkrar slíkar sögur, meðal annars umdeilda bók um Kára Stefánsson, frumkvöðul og lækni, og ævisögu Gunnars Thoroddsens forsætisráðherra, sem betur hefði verið tekið. Guðni kvaðst nú vera með þrjú slík verk í smíðum, tvær ævisögur íslenskra frammámanna að frumkvæði og með tilstyrk fjölskyldna þeirra og rit um föður sinn, Jóhannes Sæmundsson. Margvísleg vandkvæði væru á því að útvega heimildir í slík verk og meta þær, jafnframt því sem heiðarlegur sagnfræðingur þyrfti að nálgast viðfangsefnið í senn af samúð og þó undanbragðalaust. Hann hefði notað munnlegar heimildir í sumum verkum sínum, en þær þyrfti að meta vandlega eins og aðrar heimildir.

Glærur Hannesar 19. ágúst 2015

„Bankahrunið var angi af alþjóðlegri fjármálakreppu“

Hannes talar við Sirju Rank. Ljósm. Meeli Küttim.
Hannes talar við Sirju Rank. Ljósm. Meeli Küttim.

Á meðan dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, forstöðumaður rannsókna RNH, dvaldist í Eistlandi í apríllok 2015, tók Sirja Rank frá eistneska viðskiptablaðinu Äripäev viðtal við hann. Birtist það 1. maí 2015. Rank spurði Hannes, hvort hann fyndi ekki til einhverrar ábyrgðar á bankahruninu, þar eð hann hefði setið í bankaráði Seðlabankans 2001–2009. „Seðlabankinn gat ekkert gert við þeirri kerfisvillu, sem kom í ljós í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu,“ svaraði Hannes. „Hún var, að rekstrarsvæði bankanna var miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra. Þegar á hólminn kom, studdi enginn íslensku bankana, á  meðan velflestum eða jafnvel öllum öðrum bönkum í Evrópu var bjargað. Bandaríski seðlabankinn gerði til dæmis mjög háa gjaldeyrisskiptasamninga við Sviss, þar sem bankakerfið var nokkurn veginn jafnstórt hlutfallslega og á Íslandi. Ella hefðu svissnesku bankarnir fallið.“

Hannes var spurður, hvort bankahrunið hefði ekki verið sök frjálshyggjunnar, sem hann hefði beitt sér fyrir. „Síður en svo,“ svaraði hann. „Bankarnir lutu sömu lögum og reglum og bankar annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Hitt er annað mál, að hið góða orðspor, sem landið vann sér árin 1991–2004, olli ef til vill einhverju um það, að bankarnir gátu þanist hratt út. Þeir nutu lánstrausts. En gera þarf greinarmun á markaðskapítalismanum 1991–2004 og klíkukapítalismanum 2004–2008. Fámenn klíka auðjöfra var alráð á Íslandi 2004–2008. Hún átti flesta fjölmiðlana og hafði mikil áhrif á álitsgjafa, blaðamenn og jafnvel dómara. Ég er ekki reiðubúinn að verja allar gerðir þessarar klíku, sem var undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.“

Hannes var spurður, hvort bankahrunið hefði breytt skoðunum hans. „Aðalatriðið er, að bankahrunið var angi af hinni alþjóðlegu fjármálakreppu,“ svaraði hann, „og ein aðalorsök hennar var gáleysi banka, og þetta gáleysi banka var meðal annars vegna þess, að þeir trúðu því, að þeim yrði bjargað, ef þeir lentu í vandræðum, en þeir mættu hins vegar hirða allan gróðann, þegar þeim gengi vel. Sú regla er óskynsamleg. Bankar verða að lúta sömu reglu um ábyrgð og önnur fyrirtæki. Almenningur á ekki að þurfa að bera kostnaðinn af fífldirfsku einstakra bankamanna.“

Hannes var spurður, hvers vegna Ísland hefði jafnað sig svo fljótt. „Vegna þess að landið var ekki gjaldþrota, þótt Gordon Brown segði annað,“ svaraði hann. „Íslendingar eru mjög fáir og deila með sér verulegum auðlindum, gjöfulum fiskistofnum, orkugjöfum, stórbrotnu landi, sem ferðamenn sækjast eftir að heimsækja, og síðast, en ekki síst, miklum mannauði. Við vorum felld með einu hnefahöggi, og við vorum ringluð eftir það, en loks stóðum við á fætur aftur, og eftir það hefur okkur gengið bærilega.“

Tekjudreifingin í heiminum orðin jafnari

rich-peoplePrófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna í RNH, hélt erindi um „Áskorun Pikettys“ á málstofu í Setri frjálsrar hagfræðihugsunar í Viðskiptaháskólanum í Tallinn í Eistlandi 30. apríl. Bók Thomasar PikettysFjármagn á 21. öld, hefur vakið mikla athygli, en þar krefst hann hnattrænnar endurdreifingar tekna, þar eð tekjudreifingin sé orðin ójöfn. Hannes kvað mikinn mun á nálgun Pikettys og bandaríska heimspekingins Johns Rawls: Það héldi vöku fyrir Piketty, að sumir væru ríkir, en Rawls hefði haft áhyggjur af því, þegar margir væru fátækir. Vissulega væri kapítalisminn fær um að skapa mikla auðlegð. Við hann hefðu íbúar margra landa brotist úr fátækt til bjargálna, eins og dæmin sönnuðu. Væri fróðlegt að bera saman Ástralíu og Argentínu, Singapúr og Jamaíku, Vestur- og Austur-Þýskaland, Suður- og Norður-Kóreu. Jafnvel mætti bera saman norðlæg fylki Kanada og ríki Bandaríkjanna annars vegar og Norðurlönd hins vegar. Niðurstaðan væri: atvinnufrelsi skapar auðlegð. Það væri rétt, að tekjudreifingin mældist sums staðar ójöfn, en í Bandaríkjunum væri það ekki síst vegna þess, að til landsins streyma sífellt innflytjendur, sem eru fyrst fátækir, en brjótast síðan í bjargálnir. Mælingar á tekjudreifingu með Gini-stuðlum (og líka samanburði á tekjum hinna 1% tekjuhæstu og annarra) væru líka þeim annmörkum háðar, að hún mældist ójafnari, ef fjölgaði hlutfallslega í hópum námsmanna og lífeyrisþegar, til dæmis við lengri skólagöngu og meiri lífslíkur, en hvort tveggja þetta væri auðvitað eftirsóknarvert.

Hannes kvað aðalatriðið, að tekjudreifingin í heiminum sem heild hefði orðið jafnari hin síðari ár, vegna þess að hundruð milljóna Indverja og Kínverja hefðu tekið upp kapítalisma. Hún hefði hins vegar hugsanlega orðið ójafnari á Vesturlöndum vegna þess tvenns, að samkeppni frá Kína og Indlandi hefði haldið niðri launum verkafólks og að menn með einstæða hæfileika, sem ekki væri hægt að fjöldaframleiða, til dæmis kvikmyndastjörnur, skemmtikraftar og frumkvöðlar, gætu nú starfað á heimsmarkaði, en ekki aðeins á staðbundnum markaði. Þegar rætt væri um kjör verkafólks á Vesturlöndum, yrði síðan að taka tillit til þess, að gæði og úrval vöru hefði snarbatnað. Það þyrfti miklu skemmri tíma til að vinna fyrir gæðum en áður. Hannes varpaði síðan fram þeirri spurningu, hvort eitthvað væri athugavert við ójafna tekjudreifingu, væri hún afleiðing af frjálsu vali einstaklinganna. Hann tók einfalt dæmi. Milton Friedman kemur og heldur fyrirlestur og setur upp 10 þús. kr. aðgangseyri á mann. Fyrirlesturinn sækja 500 manns. Friedman fer 5 millj. kr. ríkari, en áheyrendur hans verða hver 10 þús. kr. fátækari. En allir eru ánægðir. Hver er vandinn? Hannes sagði, að menn yrðu að geta sofið, þótt öðrum gengi vel.

Logo-svisléMálstofan í Viðskiptaháskólanum var vel sótt, og var bandaríski hagfræðingurinn dr. Richard Rahn andmælandi. Meelis Kitsing, forstöðumaður seturs um frjálsar hagfræðirannsóknir, var fundarstjóri. Eftir fyrirlesturinn og andmæli voru umræður. Ein spurningin var, hvort athafnamenn þyrftu eins geipilegar upphæðir í tekjur fyrir framlag sitt og raun bæri vitni. Myndu þeir ekki skapa jafnmikið, þótt tekjurnar væru lægri? Hannes svaraði, að ekki ætti aðallega að líta á tekjur manna sem hvatningu, heldur sem upplýsingar. Tekjudreifing á frjálsum markaði veitti ómissandi upplýsingar um, hvar kraftar manna væru best nýttir til að fullnægja eigin þörfum og annarra. Þegar þessari dreifingu væri raskað með opinberum aðgerðum, þar á meðal endurdreifingu tekna, væri slíkum upplýsingum kastað á glæ. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur Hannesar í Viðskiptaháskólanum í Tallinn

Eystrasaltsríkin og íslenskir kommúnistar

Hannes flytur erindi sitt í ráðstefnusal eistneska þingsins. Glæran er af „Rúblunni“, húsi Máls og menningar, en Kremlverjar studdu smíði þess rausnarlega.
Hannes flytur erindi sitt í ráðstefnusal eistneska þingsins. Glæran er af „Rúblunni“, húsi Máls og menningar, en Kremlverjar studdu smíði þess rausnarlega.

Dagana 24.–26. apríl 2015 sótti Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, árlega ráðstefnu í Tallinn í Eistlandi um alþjóðamál, og er hún kennd við Lennart Meri, forseta Eistlands 1992–2001. Á meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru Toomas H. Ilves, forseti Eistlands, Radek Sikorski, fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands og nú forseti pólska þingsins, Ana de Palacio, fyrrverandi utanríkisráðherra Spánar, Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, sænski rithöfundurinn Anders Aslund og margir ráðherrar frá Eystrasaltsríkjunum. Nokkrir fyrirlesaranna hafa komið til Íslands á vegum RNH eða skyldra samtaka, þar á meðal François Heisbourg og Andrei Ilarionov. Helsta umræðuefnið á ráðstefnunni var ástandið í grannríkjum Rússa, jafnt í Úkraínu og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Að kvöldi 24. apríl sat Hannes kvöldverðarboð Ilves Eistlandsforseta ásamt nokkrum öðrum ráðstefnugestum. Einnig heimsótti Hannes dr. Mart Laar, fyrrverandi forsætisráðherra Eistlands og núverandi formann bankaráðs eistneska seðlabankans, á heimili hans.

Hannes flutti síðan fyrirlestur um íslensku kommúnistahreyfinguna og Eystrasaltsríkin í eistneska þinginu 29. apríl, og sóttu hann margir eistneskir áhrifamenn, en sagnfræðingurinn og þingmaðurinn dr. Mart Nutt sá um skipulagningu hans. Í fyrirlestrinum rakti Hannes sögu hreyfingar íslenskra kommúnista og sósíalista, allt frá því að Brynjólfur Bjarnason snerist til kommúnisma í götuóeirðum í Kaupmannahöfn haustið 1918 og fram að því að Svavar Gestsson, Margrét Frímannsdóttir og fleiri í forystusveit Alþýðubandalagsins létu það verða sitt síðasta verk, áður en sá flokkur var lagður niður, að fara í boðsferð kúbverska kommúnistaflokksins haustið 1998. Hannes kvað kommúnistaflokkinn, sem starfaði 1930-1938, og Sósíalistaflokkinn, sem bauð síðast fram í þingkosningum í eigin nafni 1953, en starfaði sem stjórnmálaflokkur til 1968, hafa verið holla Kremlverjum, eins og haldið hefði verið fram frá öndverðu og skjöl í Moskvu staðfest. Þessir flokkar þáðu verulegt fé úr sjóðum Kremlverja, enda tókst þeim að koma upp fjórum stórhýsum í Reykjavík og hafa fjölda manns á launum. Þetta hefði breytt miklu í fámennu landi, en á þeirri tíð voru Íslendingar ekki nema rösklega 100 þúsund talsins. Ekki væri til nema eitt dæmi um, að Sósíalistaflokkurinn hefði óhlýðnast Kremlverjum, en það væri, að hann hefði ekki viljað fordæma kommúnistaflokka Júgóslavíu og Albaníu, þegar þessir flokkar féllu úr náðinni í kastalanum í Kreml.

26. ágúst 1991. Frá v.: Davíð Oddsson, Jón B. Hannibalsson, A. Saudargas, Litháen, J. Jurkans, Lettlandi, og Lennart Meri, Eistlandi.
26. ágúst 1991. Frá v.: Davíð Oddsson, Jón B. Hannibalsson, A. Saudargas, Litháen, J. Jurkans, Lettlandi, og Lennart Meri, Eistlandi.

Hannes vék sérstaklega að Eystrasaltsþjóðunum í fyrirlestri sínum. Kona frá Lettlandi, Liba Fridland, hefði flutt fyrirlestra á Íslandi 1923 um rússnesku byltinguna og kúgun kommúnista, en sætt fyrir það árásum íslenskra kommúnista. Flóttamaður frá Litháen, Teodoras Bieliackinas, hefði birt greinaflokk í Morgunblaðinu 1946 um undirokun Eystrasaltslanda, en skriffinnar Þjóðviljans hefðu þá kallað hann „litúvískan fasista“ og hvergi skeytt um, að hann var af gyðingaættum. Fyrsta ritið, sem hið nýstofnaða Almenna bókafélagið hefði gefið út 1955, hefði verið Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir eistneska bókmenntaprófessorinn Ants Oras, en Almenna bókafélagið hefði einmitt verið stofnað til að mynda mótvægi gegn áhrifum kommúnista í íslensku menningarlífi. Forseti Íslands og utanríkisráðherra, Ásgeir Ásgeirsson og Guðmundur Í. Guðmundsson, sem báðir hefðu verið andvígir kommúnisma, hefðu tekið á móti dr. August Rei, forsætisráðherra útlagastjórnar Eistlands, árið 1957 þrátt fyrir mótmæli sendiherra Ráðstjórnarríkjanna. Almenna bókafélagið hefði 1973 gefið út bókina Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir sænsk-eistneska blaðamanninn Anders Küng. Þýðandi þeirrar bókar hefði verið ungur laganemi, Davíð Oddsson, sem hefði látið það verða eitt sitt fyrsta verk, eftir að hann varð forsætisráðherra 1991, að endurnýja viðurkenningu Íslands á sjálfstæði og fullveldi Eystrasaltsríkjanna, en árin 1940–1991 hefðu Íslendingar eins og flestar aðrar vestrænar þjóðir litið á Eystrasaltslöndin sem hernumin svæði.

Logo-svisléHannes gagnrýndi einnig í erindi sínu hinar köldu kveðjur, sem Eystrasaltsþjóðirnar hefðu fengið í kennslubók í mannkynssögu, Nýjum tímum, sem kom út 2006. Hún var eftir tvo sósíalista, Gunnar Karlsson og Sigurð Ragnarsson, og víða notuð í íslenskum skólum. Þeir segðu (bls. 246): „Árið 1940 voru Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, innlimuð í Sovétríkin.“ Hannes benti á, að þetta ár voru Eystrasaltsríkin þrjú ekki „innlimuð“, heldur hernumin, eins og þau hafa jafnan sjálf haldið fram. Þeir Gunnar og Sigurður segðu (bls. 263): „Í Jalta viðurkenndu Vesturveldin í reynd að Eystrasaltslöndin og austurhluti Póllands yrðu áfram hluti Sovétríkjanna og Austur-Evrópa á sovésku áhrifasvæði.“ Hannes kvað þá ekki skýra út, að Stalín lagði allt aðra merkingu í „áhrifasvæði“ en þeir Roosevelt og Churchill, sem aldrei samþykktu hernám Eystrasaltsríkjanna (viðurkenndu til dæmis aldrei inngöngu þeirra í Ráðstjórnarríkin) og því síður kúgunina þar. Þeir Gunnar og Sigurður segðu síðan um afleiðingarnar af auknu málfrelsi í Rússlandi í tíð Míkhaíls Gorbatsjovs (bls. 292): „Hin opna umræða varð hins vegar til að vekja upp gamla þjóðernishyggju í ýmsum lýðveldum. Sterkust varð þessi þjóðernishreyfing í Eystrasaltsríkjunum þremur, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, en hennar gætti einnig annars staðar. Þar kom að Eystrasaltsríkin lýstu yfir sjálfstæði og úrsögn sinni úr Sovétríkjunum eins og þau höfðu raunar heimild til samkvæmt stjórnarskrá ríkisins. Síðan fetaði hvert lýðveldið á fætur öðru í fótspor þeirra.“ En ekki þurfti að vekja upp neina þjóðerniskennd þessara þjóða að sögn Hannesar. Þær hefðu aldrei sætt sig við hernám Kremlverja. Og fráleitt væri að tala um, að þær hefðu haft raunverulega heimild til að segja sig úr Ráðstjórnarríkjunum, sem þær hefðu síðan nýtt. Þær hefðu aldrei ákveðið að ganga í Ráðstjórnarríkin eða að segja sig úr þeim. Þetta væri söguskoðun Kremlverja, en ekki Eystrasaltsþjóðanna sjálfra. Fyrirlestur Hannesar í eistneska þinginu var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Glærur Hannesar í eistneska þinginu 29. apríl 2015