All posts by Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Var Snorri Sturluson frumherji norrænnar frjálshyggju?

Sænska tímaritið Svensk Tidskrift birti 1. nóvember ritgerð eftir dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóra RNH, og er hún fyrri hlutinn í verki um frumherja norrænnar frjálshyggju. Var ritgerðin um Snorra Sturluson sagnritara, höfund Eddu, Heimskringlu og Egils sögu. Hannes kvað margar stjórnmálahugmyndir, sem John Locke og fleiri frjálshyggjuhugsuðir áttu síðar eftir að færa í kerfisbundinn búning, vera að finna í Heimskringlu og Egils sögu: Lögin ættu ekki að vera fyrirmæli að ofan, heldur sammæli alþýðu manna; konungar stjórnuðu með samþykki þegna sinna, en ekki af guðlegri náð; þannig hefði orðið til eins konar sáttmáli konungs og þegna, sem væru lausir mála, ryfi hann konungur. Þessar hugmyndir væru settar skýrt fram í tveimur frægum ræðum Heimskringlu, sem sænski lögmaðurinn Þórgnýr og íslenski bóndinn Einar Þveræingur fluttu, en þar segði Snorri hug sinn. Ályktun Einars Þveræings hefði síðan verið, þar eð konungar væru misjafnir, sumir góðir og aðrir vondir, að best væri að hafa engan konung. Þetta hefði Adam frá Brimum orðað svo, að Íslendingar hefðu ekki annan konung en lögin.

Hannes varpaði einnig fram þeirri hugmynd, að Íslendinga sögur hefðu verið færðar í letur sem eins konar viðbragð við ásælni Noregskonungs, sem tók að gæta um og upp úr 1220. Hefðu Íslendingar viljað marka sérstöðu sína gagnvart Norðmönnum. Egils saga væri til dæmis um deilur norsku konungsættarinnar við Egil Skallagrímsson, föður hans og afa. Sigurður Nordal hefði réttilega bent á, að Egill hefði verið „fyrsti einstaklingurinn“, með sérstakt svipmót og ekki skilgreinanlegur einvörðungu af uppruna sínum. Ritgerð Hannesar vakti mikla athygli í Svíþjóð, og mælti Svenska Dagbladet með henni 9. nóvember á leiðarasíðu sinni. Seinni hlutinn í verki Hannesar er um Anders Chydenius og birtist eftir viku.

Evrópuþingið styður Evrópuvettvanginn

RNH er aðili að Evrópuvettvangi minningar og samvisku, sem heldur á lofti minningunni um fórnarlömb alræðisstefnunnar, kommúnisma og nasisma, og hefur rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, haldið nokkra fyrirlestra á ráðstefnum vettvangsins og birt ritgerðir í útgáfuverkum hans. Evrópuþingið samþykkti 19. september 2019 ályktun um það, hversu mikilvægt væri fyrir framtíð Evrópu að minnast fórnarlamba alræðisstefnunnar, og skoraði á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að veita Evrópuvettvangnum stuðning. Evrópuþingið lagði í ályktuninni áherslu á minningardag fórnarlamba alræðisstefnunnar, 23. ágúst, en þann dag árið 1939 reyndu kommúnistar og nasistar að skipta með sér miklum hluta Evrópu með svokölluðum griðasáttmála Hitlers og Stalíns, sem undirritaður var í Moskvu og hleypti af stað heimsstyrjöldinni síðari.

Hannan tók málstað Íslendinga 2008

RNH studdi ráðstefnu frjálshyggjustúdenta, Students for Liberty Iceland, sem haldin var í Kópavogi 6. september 2019. Aðalræðumaður ráðstefnunnar var Daniel Hannan, ritari ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, og leiðtogi íhaldsmanna á Evrópuþinginu. Morgunblaðiðbirti viðtal við Hannan 12. september. Hann ræddi þar aðallega um fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, en hann var einn forystumaður útgönguhreyfingarinnar. Hann taldi Evrópusambandið bjóða Bretum afarkosti til að halda þeim inni. „Ímyndaðu þér að Ísland leitaði til ESB um fríverslunarsamning en sambandið setti í staðinn tvö skilyrði; annars vegar að þið þyrftuð að segja upp öllum fríverslunarsamningum ykkar við önnur ríki, því sambandið sæi um þá, og hins vegar að Evrópusambandið hefði hér eftir full yfirráð yfir Kópavogi!“ sagði Hannan og vísaði með því til deilunnar um Norður-Írland. „Ég er hins vegar fyrsti breski stjórnmálamaðurinn, og er mjög stoltur af því, sem tók málstað Íslands í Icesave-deilunni. Ég var alltaf viss um að nást myndi upp í skuldirnar, og var því mjög ósáttur við að bresk stjórnvöld fældu frá sér traustan vin og bandamann með notkun hryðjuverkalaganna,“ sagði Hannan enn fremur.

Gullfót eða rafmynt?

Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema hélt umræðufund um æskilega nýskipan peningamála með prófessor Edward Stringham og Peter C. Earle fjármálafræðingi sunnudaginn 8. september kl. 20–22 að Hlíðarsmára 19 í Kópavogi. Báðir töldu þeir óheppilegt, að ríkið framleiddi gjaldmiðla, enda félli það iðulega á þá freistni að framleiða of mikið af þeim, og afleiðingin yrði verðbólga, sem skekkti verð og truflaði viðskipti. Earle bar saman kosti gullfótar, þar sem framleiðsla gjaldmiðils ræðst af gullforða útgefandans (sem oftast yrði seðlabanki), og rafmyntar. Kosturinn við gullfótinn væri, hversu stöðugur hann væri, en rafmyntir hefðu verið fremur óstöðugar, og væri þær þó að verða stöðugri. Kvaðst hann þess vegna ekki geta gert upp á milli þessara tveggja tegunda peninga.

Júlíus Viggó Ólafsson framhaldsskólanemi stjórnaði fundinum. Þeir Stringham og Earle, sem starfa báðir í Hagfræðirannsóknarstofnun Bandaríkjanna, American Institute of Economic Research,  voru staddir á Íslandi í tengslum við ráðstefnu frjálshyggjustúdenta 6. september um framtíð og frelsi. Þátttaka RNH í þessum viðburðum er liður í samstarfsverkefni við Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe.