Category Archives: Uncategorized

Frelsi á Íslandi 930-2015

Frá miðborg Sofia.
Frá miðborg Sofia.

Hannes H. Gissurarson prófessor heldur fyrirlestur á svæðisráðstefnu Evrópusamtaka frjálshyggjustúdenta, European Students for Liberty, í Sofia í Búlgaríu laugardaginn 17. október kl. 12–13. Nefnist fyrirlesturinn „Frelsi á Íslandi 930–2015“. Þar heldur Hannes því fram, að lögmál hagfræðinnar hljóti að gilda í litlum löndum alveg eins og stórum, ella séu þau ekki gild lögmál. Nota megi hagfræðina til að skýra, hvers vegna réttarvarsla í höndum einstaklinga eins og tíðkaðist í íslenska þjóðveldinu 930–1262 geti verið skilvirk. Einnig hafi Forn-Íslendingar komið sér upp tiltölulega hagkvæmri aðferð til að samnýta beitarland á fjöllum, ítölu, og þannig forðast „samnýtingarbölið“ (the tragedy of the commons). Hannes ræðir líka þá spurningu, hvers vegna Íslendingar sultu hálfu og heilu hungri öldum saman, þótt gjöful fiskimið væru skammt undan landi, og vísar í svarinu til þess bandalags konungs og fámennrar landeigendastéttar, sem stóð allt frá lokum fimmtándu aldar og fram að Móðuharðindum, þegar það féll um sjálft sig. Hannes greinir kvótakerfið, sem skilað hefur góðum árangri í fiskveiðum á Íslandsmiðum, en þær eru í senn sjálfbærar og arðbærar. Þar hafi Íslendingum aftur tekist að forðast samnýtingarbölið.

Logo-svisléHannes ber markaðskapítalismann á Íslandi 1991–2004 saman við klíkukapítalismann 2004–2008, en þá notaði fámenn klíka auðjöfra hið góða orðspor Íslands, sem myndast hafði hálfan annan áratug á undan, til óhóflegrar skuldasöfnunar erlendis. Hannes telur hins vegar ekki, að sú skuldasöfnun sé meginskýringin á bankahruninu, heldur sú staðreynd, að Bandaríkjamenn og Bretar skildu Ísland eftir úti í kuldanum, þegar mörg önnur ríki fengu mikilvæga aðstoð, aðallega með gjaldeyrisskiptasamningum við bandaríska seðlabankann. Bretar gengu lengra, lokuðu breskum bönkum í eigu Íslendinga á sama tíma og þeir veittu öllum öðrum breskum bönkum stórkostlega fjárhagsaðstoð, jafnframt því sem þeir beittu hryðjuverkalögum á Íslendinga. Hannes kveður meginskýringuna á uppgangi Íslands síðustu árin hins vegar vera, að landið var aldrei gjaldþrota eins og Gordon Brown hafði fullyrt. Íslenska hagkerfið standi á fjórum traustum stoðum, hagkvæmu fyrirkomulagi fiskveiða, orkuvinnslu, ferðamannaþjónustu og miklum mannauð.

Fjörugar umræður urðu að erindi Hannesar loknu. Hann var spurður: Hvað um nýliðun í sjávarútvegi? Svar hans var, að vandinn var ótakmarkaður aðgangur og allt of margir að veiðum. Nýliðun væri ekki markmiðið við þær aðstæður. Komið var á því kerfi, að menn kæmust ekki á veiðar, nema þeir hefðu kvóta. Þetta væri sama lögmál og í landbúnaði. Menn gætu ekki hafið búskap, nema þeir keyptu sér land og bústofn. Eini rétturinn, sem væri tekinn af öðrum við það, að kvótum hefði veirð úthlutað til þeirra, sem stundað hefðu veiðar, væri rétturinn til að gera út með engum ábata, og sá réttur væri samkvæmt skilgreiningu einskis virði. Einnig var Hannes spurður: Hvað um arðinn af fiskveiðum? Af hverju átti hann að renna óskiptur til útgerðarmanna? Svar hans var, að það væri skömminni skárra en að hann rynni til ríkisins, sem notaði fé sitt sjaldnast skynsamlega. „Ríkið er ekki við; ríkið er þeir,“ sagði Hannes. Auk þess væri úthlutun aflakvóta samkvæmt veiðireynslu eina leiðin til að loka fiskimiðunum eða girða þau af, sem vænleg væri til árangurs, því að þá væri högum manna lítt raskað: Þeir, sem vildu halda áfram veiðum, gætu þá keypt út hina, sem vildu hætta veiðum. Fyrirlestur Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.


Glærur Hannesar í Sofia 17. október 2015

Íslandssaga og ævisögur á málstofu í Reykjavík

Plakat_tlo_fb_4RNH er hinn íslenski samstarfsaðili pólska rannsóknarsetursins Minningar og framtíðar í Wroclaw, sem sinnir rannsóknarverkefni um munnlega sögu af tengslum Íslendinga og Pólverja, einkum hin síðari ár. Haldinn var vinnufundur í Reykjavík 17.–27. ágúst 2015, þar sem pólskir fræðimenn og háskólanemar tóku viðtöl við Pólverja á Íslandi, heimsóttu deild munnlegrar sögu á Þjóðarbókhlöðunni og hlustuðu einnig á tvo íslenska fræðimenn skýra annars vegar Íslandssöguna og hins vegar íslenskar ævisögur. Veitti RNH aðstoð við undirbúning vinnufundarins.

Hannes.GissurarsonDr. Hannes H. Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor rakti sögu Íslands frá öndverðu. Kvað hann hana hafa verið stríð þjóðarinnar við eld og ís fram á 20. öld. Þjóðveldið hefði verið forvitnileg tilraun til að leysa úr ágreiningsefnum án ríkisvalds. Á meðan landið var dönsk hjálenda, hefði konungur í raun gert bandalag við fámenna íslenska landeigendastétt um að halda sjávarútvegi niðri. Þetta hefði breyst á 19. öld og þjóðin brotist úr fátækt í bjargálnir í krafti útgerðar og verslunar. Bankahrunið 2008 hefði verið henni mikið áfall, en hún hefði jafnað sig furðufljótt, eins og á fyrri áföllum. Þjóðin hefði fram á síðustu tíma verið mjög einsleit, en það væri að breytast. Pólskir innflytjendur hefðu lagast betur að henni en margir aðrir hópar.

GudniThJohannesson2010svhvJPV (2)_0Dr. Guðni Jóhannesson sagnfræðilektor lýsti íslenskum ævisögum. Sjálfur hefði hann skrifað nokkrar slíkar sögur, meðal annars umdeilda bók um Kára Stefánsson, frumkvöðul og lækni, og ævisögu Gunnars Thoroddsens forsætisráðherra, sem betur hefði verið tekið. Guðni kvaðst nú vera með þrjú slík verk í smíðum, tvær ævisögur íslenskra frammámanna að frumkvæði og með tilstyrk fjölskyldna þeirra og rit um föður sinn, Jóhannes Sæmundsson. Margvísleg vandkvæði væru á því að útvega heimildir í slík verk og meta þær, jafnframt því sem heiðarlegur sagnfræðingur þyrfti að nálgast viðfangsefnið í senn af samúð og þó undanbragðalaust. Hann hefði notað munnlegar heimildir í sumum verkum sínum, en þær þyrfti að meta vandlega eins og aðrar heimildir.

Glærur Hannesar 19. ágúst 2015

„Bankahrunið var angi af alþjóðlegri fjármálakreppu“

Hannes talar við Sirju Rank. Ljósm. Meeli Küttim.
Hannes talar við Sirju Rank. Ljósm. Meeli Küttim.

Á meðan dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, forstöðumaður rannsókna RNH, dvaldist í Eistlandi í apríllok 2015, tók Sirja Rank frá eistneska viðskiptablaðinu Äripäev viðtal við hann. Birtist það 1. maí 2015. Rank spurði Hannes, hvort hann fyndi ekki til einhverrar ábyrgðar á bankahruninu, þar eð hann hefði setið í bankaráði Seðlabankans 2001–2009. „Seðlabankinn gat ekkert gert við þeirri kerfisvillu, sem kom í ljós í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu,“ svaraði Hannes. „Hún var, að rekstrarsvæði bankanna var miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra. Þegar á hólminn kom, studdi enginn íslensku bankana, á  meðan velflestum eða jafnvel öllum öðrum bönkum í Evrópu var bjargað. Bandaríski seðlabankinn gerði til dæmis mjög háa gjaldeyrisskiptasamninga við Sviss, þar sem bankakerfið var nokkurn veginn jafnstórt hlutfallslega og á Íslandi. Ella hefðu svissnesku bankarnir fallið.“

Hannes var spurður, hvort bankahrunið hefði ekki verið sök frjálshyggjunnar, sem hann hefði beitt sér fyrir. „Síður en svo,“ svaraði hann. „Bankarnir lutu sömu lögum og reglum og bankar annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Hitt er annað mál, að hið góða orðspor, sem landið vann sér árin 1991–2004, olli ef til vill einhverju um það, að bankarnir gátu þanist hratt út. Þeir nutu lánstrausts. En gera þarf greinarmun á markaðskapítalismanum 1991–2004 og klíkukapítalismanum 2004–2008. Fámenn klíka auðjöfra var alráð á Íslandi 2004–2008. Hún átti flesta fjölmiðlana og hafði mikil áhrif á álitsgjafa, blaðamenn og jafnvel dómara. Ég er ekki reiðubúinn að verja allar gerðir þessarar klíku, sem var undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.“

Hannes var spurður, hvort bankahrunið hefði breytt skoðunum hans. „Aðalatriðið er, að bankahrunið var angi af hinni alþjóðlegu fjármálakreppu,“ svaraði hann, „og ein aðalorsök hennar var gáleysi banka, og þetta gáleysi banka var meðal annars vegna þess, að þeir trúðu því, að þeim yrði bjargað, ef þeir lentu í vandræðum, en þeir mættu hins vegar hirða allan gróðann, þegar þeim gengi vel. Sú regla er óskynsamleg. Bankar verða að lúta sömu reglu um ábyrgð og önnur fyrirtæki. Almenningur á ekki að þurfa að bera kostnaðinn af fífldirfsku einstakra bankamanna.“

Hannes var spurður, hvers vegna Ísland hefði jafnað sig svo fljótt. „Vegna þess að landið var ekki gjaldþrota, þótt Gordon Brown segði annað,“ svaraði hann. „Íslendingar eru mjög fáir og deila með sér verulegum auðlindum, gjöfulum fiskistofnum, orkugjöfum, stórbrotnu landi, sem ferðamenn sækjast eftir að heimsækja, og síðast, en ekki síst, miklum mannauði. Við vorum felld með einu hnefahöggi, og við vorum ringluð eftir það, en loks stóðum við á fætur aftur, og eftir það hefur okkur gengið bærilega.“

Tekjudreifingin í heiminum orðin jafnari

rich-peoplePrófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna í RNH, hélt erindi um „Áskorun Pikettys“ á málstofu í Setri frjálsrar hagfræðihugsunar í Viðskiptaháskólanum í Tallinn í Eistlandi 30. apríl. Bók Thomasar PikettysFjármagn á 21. öld, hefur vakið mikla athygli, en þar krefst hann hnattrænnar endurdreifingar tekna, þar eð tekjudreifingin sé orðin ójöfn. Hannes kvað mikinn mun á nálgun Pikettys og bandaríska heimspekingins Johns Rawls: Það héldi vöku fyrir Piketty, að sumir væru ríkir, en Rawls hefði haft áhyggjur af því, þegar margir væru fátækir. Vissulega væri kapítalisminn fær um að skapa mikla auðlegð. Við hann hefðu íbúar margra landa brotist úr fátækt til bjargálna, eins og dæmin sönnuðu. Væri fróðlegt að bera saman Ástralíu og Argentínu, Singapúr og Jamaíku, Vestur- og Austur-Þýskaland, Suður- og Norður-Kóreu. Jafnvel mætti bera saman norðlæg fylki Kanada og ríki Bandaríkjanna annars vegar og Norðurlönd hins vegar. Niðurstaðan væri: atvinnufrelsi skapar auðlegð. Það væri rétt, að tekjudreifingin mældist sums staðar ójöfn, en í Bandaríkjunum væri það ekki síst vegna þess, að til landsins streyma sífellt innflytjendur, sem eru fyrst fátækir, en brjótast síðan í bjargálnir. Mælingar á tekjudreifingu með Gini-stuðlum (og líka samanburði á tekjum hinna 1% tekjuhæstu og annarra) væru líka þeim annmörkum háðar, að hún mældist ójafnari, ef fjölgaði hlutfallslega í hópum námsmanna og lífeyrisþegar, til dæmis við lengri skólagöngu og meiri lífslíkur, en hvort tveggja þetta væri auðvitað eftirsóknarvert.

Hannes kvað aðalatriðið, að tekjudreifingin í heiminum sem heild hefði orðið jafnari hin síðari ár, vegna þess að hundruð milljóna Indverja og Kínverja hefðu tekið upp kapítalisma. Hún hefði hins vegar hugsanlega orðið ójafnari á Vesturlöndum vegna þess tvenns, að samkeppni frá Kína og Indlandi hefði haldið niðri launum verkafólks og að menn með einstæða hæfileika, sem ekki væri hægt að fjöldaframleiða, til dæmis kvikmyndastjörnur, skemmtikraftar og frumkvöðlar, gætu nú starfað á heimsmarkaði, en ekki aðeins á staðbundnum markaði. Þegar rætt væri um kjör verkafólks á Vesturlöndum, yrði síðan að taka tillit til þess, að gæði og úrval vöru hefði snarbatnað. Það þyrfti miklu skemmri tíma til að vinna fyrir gæðum en áður. Hannes varpaði síðan fram þeirri spurningu, hvort eitthvað væri athugavert við ójafna tekjudreifingu, væri hún afleiðing af frjálsu vali einstaklinganna. Hann tók einfalt dæmi. Milton Friedman kemur og heldur fyrirlestur og setur upp 10 þús. kr. aðgangseyri á mann. Fyrirlesturinn sækja 500 manns. Friedman fer 5 millj. kr. ríkari, en áheyrendur hans verða hver 10 þús. kr. fátækari. En allir eru ánægðir. Hver er vandinn? Hannes sagði, að menn yrðu að geta sofið, þótt öðrum gengi vel.

Logo-svisléMálstofan í Viðskiptaháskólanum var vel sótt, og var bandaríski hagfræðingurinn dr. Richard Rahn andmælandi. Meelis Kitsing, forstöðumaður seturs um frjálsar hagfræðirannsóknir, var fundarstjóri. Eftir fyrirlesturinn og andmæli voru umræður. Ein spurningin var, hvort athafnamenn þyrftu eins geipilegar upphæðir í tekjur fyrir framlag sitt og raun bæri vitni. Myndu þeir ekki skapa jafnmikið, þótt tekjurnar væru lægri? Hannes svaraði, að ekki ætti aðallega að líta á tekjur manna sem hvatningu, heldur sem upplýsingar. Tekjudreifing á frjálsum markaði veitti ómissandi upplýsingar um, hvar kraftar manna væru best nýttir til að fullnægja eigin þörfum og annarra. Þegar þessari dreifingu væri raskað með opinberum aðgerðum, þar á meðal endurdreifingu tekna, væri slíkum upplýsingum kastað á glæ. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur Hannesar í Viðskiptaháskólanum í Tallinn