Category Archives: Uncategorized

Eystrasaltsríkin og íslenskir kommúnistar

Hannes flytur erindi sitt í ráðstefnusal eistneska þingsins. Glæran er af „Rúblunni“, húsi Máls og menningar, en Kremlverjar studdu smíði þess rausnarlega.
Hannes flytur erindi sitt í ráðstefnusal eistneska þingsins. Glæran er af „Rúblunni“, húsi Máls og menningar, en Kremlverjar studdu smíði þess rausnarlega.

Dagana 24.–26. apríl 2015 sótti Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, árlega ráðstefnu í Tallinn í Eistlandi um alþjóðamál, og er hún kennd við Lennart Meri, forseta Eistlands 1992–2001. Á meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru Toomas H. Ilves, forseti Eistlands, Radek Sikorski, fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands og nú forseti pólska þingsins, Ana de Palacio, fyrrverandi utanríkisráðherra Spánar, Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, sænski rithöfundurinn Anders Aslund og margir ráðherrar frá Eystrasaltsríkjunum. Nokkrir fyrirlesaranna hafa komið til Íslands á vegum RNH eða skyldra samtaka, þar á meðal François Heisbourg og Andrei Ilarionov. Helsta umræðuefnið á ráðstefnunni var ástandið í grannríkjum Rússa, jafnt í Úkraínu og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Að kvöldi 24. apríl sat Hannes kvöldverðarboð Ilves Eistlandsforseta ásamt nokkrum öðrum ráðstefnugestum. Einnig heimsótti Hannes dr. Mart Laar, fyrrverandi forsætisráðherra Eistlands og núverandi formann bankaráðs eistneska seðlabankans, á heimili hans.

Hannes flutti síðan fyrirlestur um íslensku kommúnistahreyfinguna og Eystrasaltsríkin í eistneska þinginu 29. apríl, og sóttu hann margir eistneskir áhrifamenn, en sagnfræðingurinn og þingmaðurinn dr. Mart Nutt sá um skipulagningu hans. Í fyrirlestrinum rakti Hannes sögu hreyfingar íslenskra kommúnista og sósíalista, allt frá því að Brynjólfur Bjarnason snerist til kommúnisma í götuóeirðum í Kaupmannahöfn haustið 1918 og fram að því að Svavar Gestsson, Margrét Frímannsdóttir og fleiri í forystusveit Alþýðubandalagsins létu það verða sitt síðasta verk, áður en sá flokkur var lagður niður, að fara í boðsferð kúbverska kommúnistaflokksins haustið 1998. Hannes kvað kommúnistaflokkinn, sem starfaði 1930-1938, og Sósíalistaflokkinn, sem bauð síðast fram í þingkosningum í eigin nafni 1953, en starfaði sem stjórnmálaflokkur til 1968, hafa verið holla Kremlverjum, eins og haldið hefði verið fram frá öndverðu og skjöl í Moskvu staðfest. Þessir flokkar þáðu verulegt fé úr sjóðum Kremlverja, enda tókst þeim að koma upp fjórum stórhýsum í Reykjavík og hafa fjölda manns á launum. Þetta hefði breytt miklu í fámennu landi, en á þeirri tíð voru Íslendingar ekki nema rösklega 100 þúsund talsins. Ekki væri til nema eitt dæmi um, að Sósíalistaflokkurinn hefði óhlýðnast Kremlverjum, en það væri, að hann hefði ekki viljað fordæma kommúnistaflokka Júgóslavíu og Albaníu, þegar þessir flokkar féllu úr náðinni í kastalanum í Kreml.

26. ágúst 1991. Frá v.: Davíð Oddsson, Jón B. Hannibalsson, A. Saudargas, Litháen, J. Jurkans, Lettlandi, og Lennart Meri, Eistlandi.
26. ágúst 1991. Frá v.: Davíð Oddsson, Jón B. Hannibalsson, A. Saudargas, Litháen, J. Jurkans, Lettlandi, og Lennart Meri, Eistlandi.

Hannes vék sérstaklega að Eystrasaltsþjóðunum í fyrirlestri sínum. Kona frá Lettlandi, Liba Fridland, hefði flutt fyrirlestra á Íslandi 1923 um rússnesku byltinguna og kúgun kommúnista, en sætt fyrir það árásum íslenskra kommúnista. Flóttamaður frá Litháen, Teodoras Bieliackinas, hefði birt greinaflokk í Morgunblaðinu 1946 um undirokun Eystrasaltslanda, en skriffinnar Þjóðviljans hefðu þá kallað hann „litúvískan fasista“ og hvergi skeytt um, að hann var af gyðingaættum. Fyrsta ritið, sem hið nýstofnaða Almenna bókafélagið hefði gefið út 1955, hefði verið Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir eistneska bókmenntaprófessorinn Ants Oras, en Almenna bókafélagið hefði einmitt verið stofnað til að mynda mótvægi gegn áhrifum kommúnista í íslensku menningarlífi. Forseti Íslands og utanríkisráðherra, Ásgeir Ásgeirsson og Guðmundur Í. Guðmundsson, sem báðir hefðu verið andvígir kommúnisma, hefðu tekið á móti dr. August Rei, forsætisráðherra útlagastjórnar Eistlands, árið 1957 þrátt fyrir mótmæli sendiherra Ráðstjórnarríkjanna. Almenna bókafélagið hefði 1973 gefið út bókina Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir sænsk-eistneska blaðamanninn Anders Küng. Þýðandi þeirrar bókar hefði verið ungur laganemi, Davíð Oddsson, sem hefði látið það verða eitt sitt fyrsta verk, eftir að hann varð forsætisráðherra 1991, að endurnýja viðurkenningu Íslands á sjálfstæði og fullveldi Eystrasaltsríkjanna, en árin 1940–1991 hefðu Íslendingar eins og flestar aðrar vestrænar þjóðir litið á Eystrasaltslöndin sem hernumin svæði.

Logo-svisléHannes gagnrýndi einnig í erindi sínu hinar köldu kveðjur, sem Eystrasaltsþjóðirnar hefðu fengið í kennslubók í mannkynssögu, Nýjum tímum, sem kom út 2006. Hún var eftir tvo sósíalista, Gunnar Karlsson og Sigurð Ragnarsson, og víða notuð í íslenskum skólum. Þeir segðu (bls. 246): „Árið 1940 voru Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, innlimuð í Sovétríkin.“ Hannes benti á, að þetta ár voru Eystrasaltsríkin þrjú ekki „innlimuð“, heldur hernumin, eins og þau hafa jafnan sjálf haldið fram. Þeir Gunnar og Sigurður segðu (bls. 263): „Í Jalta viðurkenndu Vesturveldin í reynd að Eystrasaltslöndin og austurhluti Póllands yrðu áfram hluti Sovétríkjanna og Austur-Evrópa á sovésku áhrifasvæði.“ Hannes kvað þá ekki skýra út, að Stalín lagði allt aðra merkingu í „áhrifasvæði“ en þeir Roosevelt og Churchill, sem aldrei samþykktu hernám Eystrasaltsríkjanna (viðurkenndu til dæmis aldrei inngöngu þeirra í Ráðstjórnarríkin) og því síður kúgunina þar. Þeir Gunnar og Sigurður segðu síðan um afleiðingarnar af auknu málfrelsi í Rússlandi í tíð Míkhaíls Gorbatsjovs (bls. 292): „Hin opna umræða varð hins vegar til að vekja upp gamla þjóðernishyggju í ýmsum lýðveldum. Sterkust varð þessi þjóðernishreyfing í Eystrasaltsríkjunum þremur, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, en hennar gætti einnig annars staðar. Þar kom að Eystrasaltsríkin lýstu yfir sjálfstæði og úrsögn sinni úr Sovétríkjunum eins og þau höfðu raunar heimild til samkvæmt stjórnarskrá ríkisins. Síðan fetaði hvert lýðveldið á fætur öðru í fótspor þeirra.“ En ekki þurfti að vekja upp neina þjóðerniskennd þessara þjóða að sögn Hannesar. Þær hefðu aldrei sætt sig við hernám Kremlverja. Og fráleitt væri að tala um, að þær hefðu haft raunverulega heimild til að segja sig úr Ráðstjórnarríkjunum, sem þær hefðu síðan nýtt. Þær hefðu aldrei ákveðið að ganga í Ráðstjórnarríkin eða að segja sig úr þeim. Þetta væri söguskoðun Kremlverja, en ekki Eystrasaltsþjóðanna sjálfra. Fyrirlestur Hannesar í eistneska þinginu var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Glærur Hannesar í eistneska þinginu 29. apríl 2015

Margvísleg áhrif Kremlverja á íslenska kommúnista

Prof. Gissurarson at the Tartu seminar.
Prof. Gissurarson at the Tartu seminar.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti erindi um áhrif ráðstjórnarinnar í Moskvu á hreyfingu íslenskra kommúnista og sósíalista á málstofu í Háskólanum í Tartu í Eistlandi 28. apríl 2015. Stóð stjórnmálafræðideild skólans að málstofunni, og hitti Hannes deildarforsetann, prófessor Vello Pettai, að máli fyrir hana. Bað Pettai fyrir kveðjur til íslenskra vina sinna, en hann kom hingað á ráðstefnu 2011. Í erindi sínu rifjaði Hannes upp helstu þættina í sögu hinnar róttæku vinstrihreyfingar á Íslandi, undirbúninginn að stofnun kommúnistaflokks 1918–1930, starfsemi kommúnistaflokksins 1930–1938, en hann var deild í Komintern, Alþjóðasambandi kommúnista; klofning Alþýðuflokksins 1938, stofnun Sósíalistaflokksins og starfsemi 1938–1956 og klofning Alþýðuflokksins 1956, stofnun Alþýðubandalagsins og starfsemi, fyrst sem kosningabandalags 1956–1968 og síðan sem stjórnmálaflokks 1968–1998.

Logo-svisléFyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, „Evrópu fórnarlambanna,“ og benti Hannes þar á, að leiðir skildi upphaflega með kommúnistum og jafnaðarmönnum, af því að kommúnistar vildu ekki vinna eingöngu innan lýðræðisskipulagsins, heldur áskildu sér rétt til að beita ofbeldi, þegar þeir teldu þess þurfa með. Íslenski kommúnistaflokkurinn studdi ofbeldi í orði og beitti ofbeldi í verki, til dæmis í kjaradeilum á fjórða áratug. Síðar beittu sósíalistar ofbeldi í stjórnmálabaráttunni, til dæmis í umsátri um Sjálfstæðishúsið gamla við Austurvöll 1946 og í árásinni á Alþingishúsið 1949. Jafnframt vörðu kommúnistar og síðar sósíalistar ofbeldisríki kommúnista með ráðum og dáð. Þeir þáðu fjárhagsaðstoð frá þessum ríkjum og fóru jafnan eftir fyrirmælum þaðan, ef og þegar þau bárust. Tengsl íslenskra sósíalista og Kremlverja rofnuðu ekki fyrr en eftir innrás Rauða hersins í Tékkóslóvakíu 1968. Eftir það hélt Alþýðubandalagið þó tengslum við kommúnistaflokka Rúmeníu og Kúbu, og raunar var síðasta verk Alþýðubandalagsins að senda nefnd forystumanna í boðsferð til kúbverska kommúnistaflokksins haustið 1998.

kommunistar_x1_fors_large-175x246Hannes rakti ágreining um eðli íslensku kommúnistahreyfingarinnar milli sín og sagnfræðinganna Þórs Whiteheads og Snorra G. Bergssonar annars vegar og ýmissa vinstri sinnaðra menntamanna, aðallega þó Jóns Ólafssonar, hins vegar. Til dæmis héldi Jón Ólafsson því fram, að hinir fjölmörgu íslensku kommúnistar, sem þjálfaðir voru í skólum Kominterns í Moskvu 1929–1938, hefðu ekki fengið tilsögn í vopnaburði, en það stangaðist á við allar heimildir um þessa skóla. Einnig fullyrti Jón, að Komintern hefði verið andvígt stofnun Sósíalistaflokksins vegna eins minnisblaðs, sem starfsmaður Kominterns hefði samið, en það væri ótrúlegt, enda hefði samband Sósíalistaflokksins og Kremlverja verið hið besta eftir það, auk þess sem ýmsir erlendir kommúnistaflokkar hefðu sent Sósíalistaflokknum heillaóskir við stofnunina 1938. Hannes kvaðst hafa lagt áherslu á það í bók sinni um íslensku kommúnistahreyfinguna, sem kom út 2011, að sýna fram á, að nægileg vitneskja hefði frá öndverðu verið til um kúgunina og eymdina í kommúnistaríkjunum. Morgunblaðið hefði til dæmis ekki þreyst á því áratugum saman að birta lýsingar fórnarlamba kommúnismans á ástandinu í þessum ríkjum, og hefði þar flest reynst satt og rétt, þótt íslenskir kommúnistar og sósíalistar hefðu sagt það „Moggalygi“.

Glærur Hannesar í Tartu

270 milljarða tap af glópsku og fólsku

Frá fjölmennri málstofu Viðskiptafræðistofnunar. Ljósm. Árni Sæberg.
Frá fjölmennri málstofu Viðskiptafræðistofnunar. Ljósm. Árni Sæberg.

Sex skýr dæmi má nefna um óþarft stórtap hinna föllnu íslensku banka, sagði dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor í fyrirlestri á vorráðstefnu Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands þriðjudaginn 21. apríl 2015. Tvö þeirra voru í Noregi og Finnlandi, en seðlabankar beggja landa neituðu dótturfélögum íslenskra banka um fyrirgreiðslu ólíkt seðlabanka Svíþjóðar, jafnvel þótt um norsk og finnsk fyrirtæki væri að ræða. Tapið af skyndisölu þessara þriggja fyrirtækja, sem öll höfðu verið í eigu Glitnis, nam að sögn Hannesar samtals um sextíu milljörðum króna.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri
Már Guðmundsson seðlabankastjóri

Hannes kvað svipað hafa gerst í Danmörku tveimur árum síðar. Danski seðlabankinn hafði í upphafi veitt FIH banka, sem var í eigu Kaupþings, sömu fyrirgreiðslu og öðrum dönskum bönkum, en hann breytti um stefnu haustið 2010 og krafðist þess, að bankinn yrði seldur. Íslenski seðlabankinn hafði tekið veð í bankanum fyrir neyðarláni til Kaupþings haustið 2008 og fór með veðið. Davíð Oddsson seðlabankastjóri hafði tryggt, að veðið var allsherjarveð (svo að það gæti gengið upp í allar skuldir Kaupþings, ekki aðeins neyðarlánið) og fengið staðfestingu danskra stjórnvalda á því, að það væri traust. En Már Guðmundsson lét undan dönskum stjórnvöldum og seldi bankann haustið 2010 með þeim skilmála, að aðeins væri greiddur út hluti kaupverðsins, en um eftirstöðvarnar færi eftir tapi bankans á ákveðnum tíma. Hannes gagnrýndi Má fyrir að reyna ekki að breyta ákvörðun danskra stjórnvalda, fyrir að selja í raun kaupendum sjálfdæmi um, hversu mikið af eftirstöðvunum þeir greiddu, og fyrir að leysa ekki til sín hluta bankans eða hann allan, eins og hægt hefði verið.

Gordon_Brown_portrait
Gordon Brown, forsætisráðherra Breta.

Hannes sneri sér loks að skyndilegri lokun tveggja breskra banka haustið 2008, á sama tíma og Verkamannaflokksstjórnin breska veitti öllum öðrum breskum bönkum, sem sumir voru mjög illa staddir, lausafjárfyrirgreiðslu, Heritable Bank og KSF. Hefði ráðherrar Verkamannaflokksins sakað bankana um margvísleg lögbrot í símtölum við íslenska ráðamenn og beitt mikilli fólsku með því að loka ekki aðeins bönkunum, heldur setja hryðjuverkalög á Íslendinga og gera með því að engu alla von um að bjarga einhverjum bankanna. Nú væri uppgjöri bankanna tveggja að mestu lokið, og komið væri í ljós, að þeir hefðu alls ekki verið gjaldþrota. Endurheimtur væru nánast algerar, þótt kostnaður af skiptunum og lögfræði- og sérfræðikostnaður hefði verið feikilegar. Ekkert misjafnt og þaðan af síður ólöglegt hefði fundist í rekstri þeirra þrátt fyrir rækilegar rannsóknir, sem bresk stjórnvöld hefðu haft allan hag af, að bæru árangur. Léti nærri, að tapið af þessum óþörfu aðgerðum Breta næmi um 150 milljörðum íslenskra króna. Samtals næmi óþarft tap af glópsku og fólsku í þessum sex gernum um 270 milljörðum króna.

Logo-svisléBoðskapur Hannesar vakti mikla athygli, og birti Morgunblaðið forsíðufrétt um hann 21. apríl. Einnig fluttu Ríkisútvarpið, Kjarninn og Stundin fréttir af henni. Hannes skrifaði einnig grein fyrir vefútgáfu Viðskiptablaðsins um málið. Seðlabankinn svaraði því til um FIH banka, að bókfært eigið fé fyrirtækis gæti ekki verið viðmiðið í kreppu. Hannes sagði þá, að það væri rétt, en gagnrýni sín hefði beinst að því, að Seðlabankinn hefði látið kúga sig og ekki gert neinar ráðstafanir til að halda uppi verðmæti veðsins. Nú væri komið á daginn, að veðið væri líklega orðið 112 milljarða virði og dönsku kaupendurnir hefðu stórgrætt á kaupunum, en Seðlabankinn tapað sínu, helmingi andvirðis neyðarlánsins til Kaupþings 2008. Erindi Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur Hannesar hjá Viðskiptafræðistofnun

Margt að læra af þremur meisturum liðinnar aldar

Hannes heldur ræðu sína. Ljósm. Marek Tatala.
Hannes heldur ræðu sína. Ljósm. Marek Tatala.

Á ársfundi Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta í Berlín 10.–12. apríl 2015 var Hannes H. Gissurarson prófessor, forstöðumaður rannsókna RNH, einn fyrirlesara. Bar fyrirlestur hans titilinn „Minningabrot um þrjá meistara okkar daga: Hayek, Popper og Hayek“. Hannes rifjaði upp, að hann hitti fyrst ensk-austurríska hagfræðinginn Friedrich von Hayek í apríl 1980, þegar hinn aldni Nóbelsverðlaunhafi heimsótti Ísland. Næstu árin hitti hann Hayek oft, jaft á fundum Mont Pelerin samtakanna og í Oxford, þar sem Hannes vann að doktorsritgerð um stjórnmálakenningar Hayeks. Hayek var austurrískur aðalsmaður og fræðimaður í eðli sínu, sem aldrei sakaði andstæðinga sína um annarlegar hvatir, heldur reyndi ætíð að svara rökum þeirra efnislega. Hann sagði Hannesi, að hann væri auðvitað mjög ánægður með, að ungt fólk hefði áhuga á hugmyndum sínum, en það skyldi ekki gerast hayeksinnar, heldur varðveita gagnrýna hugsun sína.

Á árum sínum í Oxford heimsótti Hannes líka ensk-austurríska heimspekinginn Karl F. Popper á heimili hans í Penn í Buckingham-skíri og ræddi við hann um heimspeki og stjórnmál. Þeir ræddu meðal um, hvort Popper hefði verið sanngjarn í dómum sínum um Hegel og Marx í hinu mikla riti, The Open Society and Its Enemies. Hannes hitti fyrst Milton Friedman haustið 1980 og margsinnis eftir það, jafnt á fundum Mont Pelerin samtakanna og í Stanford-háskóla, þar sem Friedman var rannsóknarfélagi í Hoover-stofnun háskólans og Hannes var gistifræðimaður. Friedman heimsótti einnig Ísland haustið 1984 og tók þátt í sögulegum sjónvarpsþætti með þremur íslenskum jafnaðarmönnum. Hér er brot úr þeim þætti:

Hannes bar saman þessa þrjá öndvegishugsuði. Hann sagði, að Hayek hefði verið djúpsæjastur. Hugmynd hans um, að dreifing þekkingarinnar krefðist dreifingar valds og að menn gætu aðeins sigrast á óumflýjanlegri vanþekkingu sinni með því að nýta sér þekkingarmiðlun hins frjálsa markaðar og siða og venju, væri mjög mikilvæg. Popper hefði ef til vill verið raunsæjastur eða hófsamastur. Hann hefði viljað bæta úr áþreifanlegu böli, sem allir væru sammála um, hvert væri, til dæmis fátækt og sjúkdómar,, frekar en reyna að skapa hamingju, sem ágreiningur væri um, hvernig ætti að skilgreina. Friedman hefði verið skarpastur, eldfljótur að hugsa og eftir því mælskur, en um leið alvörugefinn og vandvirkur fræðimaður.

Logo-svisléÁ meðal annarra fyrirlesara á ráðstefnunni voru Sam Bowman frá Adam Smith stofnuninni í Lundúnum, sem lýsti kostum opinna landamæra, prófessor Pierre Garello frá Frakklandi, sem ræddi um hnattvæðingu og gagnrýna á hana, danski blaðamaðurinn Flemming Rose, sem varði prentfrelsi, dr. Tom G. Palmer, sem reifaði ýmis rök í væntanlegri bók sinni um frelsi, og enski Evrópusambandsþingmaðurinn Daniel Hannan, ritari AECR, Evópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, sem hélt því fram, að frjálslyndir menn ættu að ala með sér efasemdir um Evrópusambandið. Fimm íslenskir æskumenn sóttu ráðstefnuna, Ásgeir Ingvarsson blaðamaður, Þorsteinn Friðrik Halldórsson, hagfræðistúdent og formaður Frjálshyggjufélagsins, Ingvar Smári Birgisson, laganemi og formaður Heimdallar, Markús Árni Vernharðsson laganemi og Jón Axel Ólafsson viðskiptafræðinemi. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Hér er upptaka af fyrirlestri hans, en smella þarf í vinstra hornið á myndspilaranum og velja fyrirlestur númer átta, og afrit af glærum hans:

Glærur Hannesar í Berlín