Fræðslurit um kommúnisma endurútgefin

Logo-svisléplatform_euPrófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna í RNH, lýsti samstarfsverkefni RNH og AECR, „Evrópu fórnarlambanna“ á ársfundi Evrópuvettvangs minningar og samvisku, Platform of European Memory and Conscience, í Brüssel 4.–5. nóvember 2014, en RNH er aðili að vettvangnum. Meðal fyrirlesara á fundum og ráðstefnum RNH (sem oft hafa verið haldnar í samstarfi við aðra aðila) hafa verið dönsku sagnfræðiprófessorarnir Bent Jensen og Niels Erik Rosenfeldt, ástralski rithöfundurinn Anna Funder, franski sagnfrræðiprófessorinn Stéphane Courtois, ritstjóri Svartbókar kommúnismans, norski sagnfræðiprófessorinn Øystein Sørensen, eistneski þingmaðurinn og sagnfræðingurinn dr. Mart Nutt, pólski stjórnmálafræðingurinn dr. Pawel Ukielski, forstöðumaður safns um uppreisnina í Varsjá 1944, og slóvenski sagnfræðingurinn dr. Andreja Zver. RNH hefur einnig staðið að ljósmyndasýningu í Þjóðarbókhlöðunni um tengsl íslensks kommúnisma við heimshreyfingu kommúnista, bókargjöfum til Þjóðarbókhlöðunnar og útgáfu Kíru Argúnovu, skáldsögu Ayns Rands um lífið eftir byltingu bolsévíka í Rússlandi.

Kravchenko.cover_Næstu viðburðir innan þessa samstarfsverkefnis verða endurútgáfa nokkurra fræðslurita, sem íslenskir lýðræðissinnar gáfu út í baráttunni við kommúnismann, sem var mjög áhrifamikill í íslensku menningarlífi um miðja tuttugustu öld, ekki síst í krafti rausnarlegs fjárstuðnings frá Kremlverjum. Verða þessar bækur aðgengilegar á netinu, en einnig er stefnt að því, að til verði af þeim pappírseintök. Svartbók kommúnismans kemur út í annað sinn 9. nóvember 2014, þegar aldarfjórðungur er frá hruni Berlínarmúrsins og falli kommúnismans.

Russel.cover_Á meðal annarra rita, sem verða endurútgefin, eru Guðinn sem brást eftir Arthur Koestler og fleiri, Konur í einræðisklóm eftir Margarete Buber-NeumannÞjónusta. Þrælkun. Flótti eftir Aatami Kuortti, Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko og Úr álögum eftir Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs. Réðust íslenskir kommúnistar harkalega á höfunda þessara bóka, sem sumir höfðu setið í þrælkunarbúðum Stalíns, en aðrir orðið vitni að harðstjórninni í Rússlandi. Þá er von á tveimur frægum skáldsögum um kommúnismann, Nítján hundruð áttatíu og fjögur eftir George Orwell og Myrkur um miðjan dag eftir Arthur Koestler.

Tibor Navracsics, framkvæmdastjóri ESB í skóla- og menningarmálum, opnar Brüssel-skrifstofu Evrópuvettvangsins. Ljósm. Peter Rendek.
Tibor Navracsics, framkvæmdastjóri ESB í skóla- og menningarmálum, opnar Brüssel-skrifstofu Evrópuvettvangsins. Ljósm. Peter Rendek.

Einnig er ætlunin að gefa út á bókum ýmsar greinar, sem birtust í íslenskum blöðum og tímaritum. Þar á meðal verður greinasafn eftir Bertrand Russell um kommúnisma, greinaflokkar séra Jóhanns Hannessonar, sem var kristniboði í Kína, um kínverskan kommúnisma, ræður nokkurra íslenskra menntamanna gegn kommúnisma, þar á meðal Tómasar Guðmundssonar, Gunnars Gunnarssonar, Guðmundar G. Hagalíns og Kristmanns Guðmundssonar, og greinaflokkur eftir Arthur Koestler um ástandið í Ráðstjórnarríkjunum, en bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík 1946 snerust að miklu leyti um lýsingar Koestlers. Hannes H. Gissurarson er ritstjóri þessarar bókaraðar, en hann segir, að hún þjóni tvenns konar tilgangi, að gera fróðlegt efni um mannskæðustu stjórnmálastefnu tuttugustu aldar aðgengilegt á netinu og heiðra minningu þeirra Íslendinga, sem börðust af alefli gegn henni. Ritar hann formála að bókunum og semur skýringar eftir þörfum. Friðbjörn Orri Ketilsson skannar bækurnar inn, Sigurgeir Orri Sigurgeirsson hannar útlit þeirra, og Hafsteinn Árnason aðstoðar við netvinnsluna.

Gestgjafar fundarins í Brüssel voru þrír Evrópuþingmenn, László Tökés frá Rúmeníu, Milan Zver frá Slóveníu og Sandra Kalniete frá Lettlandi. Á fundinum var opnuð skrifstofa Evrópuvettvangsins í Brüssel að Rue Bélliard 197, og sá Tibor Navracsics, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins í skóla- og menningarmálum og fyrrverandi utanríkisráðherra Ungverjalands, um það. Sex stofnanir og samtök fengu aðild að Evrópuvettvangnum, frá Slóveníu, Tékklandi, Slóvakíu, Ungverjalandi og Úkraínu.

Þáttakendur. Dr. Florian Kresse 3. frá v. í fremstu röð og Neela Winkelmann 6. frá v. Dr. Pawel Ukielski fyrir aftan hana t. v. og Göran Lindblad, forseti Evrópuvettvangsins, t. h. Dr. Andreja Zver 4. frá h. í fremstu röð. Dr. Hannes H. Gissurarson í aftari röð nálægt Winkelmann. Ljósm. Peter Rendek.
Þáttakendur. Dr. Florian Kresse 3. frá v. í fremstu röð og Neela Winkelmann 6. frá v. Dr. Pawel Ukielski fyrir aftan hana t. v. og Göran Lindblad, forseti Evrópuvettvangsins, t. h. Dr. Andreja Zver 4. frá h. í fremstu röð. Dr. Hannes H. Gissurarson í aftari röð nálægt Winkelmann. Ljósm. Peter Rendek.

Aðilar að Evrópuvettvangnum lýstu yfir stuðningi við lýðræðisöfl í Rússlandi. Þeir hafa sérstakar áhyggjur af tilraunum stjórnvalda í Kreml til að torvelda starfsemi rússnesku stofnunarinnar Memorial, sem helguð er minningum og mannréttindum. Memorial sinnir mikilvægum rannsóknum á örlögum fórnarlamba alræðisins í Ráðstjórnarríkjunum. „Herma ber,“ sögðu aðilar að Evrópuvettvangnum, „að hinir ofríkisfullu valdhafar, sem nú sitja í Kreml, skuli reyna að þagga niður í þessum röddum. Evrópuvettvangurinn varar við því, að hættulegt sé friði, farsæld, mannréttindum, lýðræði og réttarríki, að Evrópuþjóðirnar glati sögulegum minningum sínum. Hann skorar á alla Evrópumenn að læra af alræði liðinnar tíðar og stöðva framrás andlýðræðislegra afla í álfunni.“

Glærur Hannesar í Brüssel 4. 11. 2014

Gleymum aldrei fórnarlömbunum

Frá ráðstefnunni í ráðhúsinu í Wroclaw. Hannes H. Gissurarson situr í annarri röð fyrir miðju.
Frá ráðstefnunni í ráðhúsinu í Wroclaw. Hannes H. Gissurarson situr í annarri röð fyrir miðju.

Prófessor Hannes H. Gissurarson flutti erindi á ársfundi Evrópuvettvangs um minningu og samvisku, Platform of European Memory and Conscience, sem haldinn var í ráðhúsinu í Wroclaw í Póllandi 17.–18. nóvember 2015. Lýsti hann samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Einn mikilvægasti liðurinn í því verkefni er að gera bækur, sem komu á sínum tíma út á íslensku gegn alræðisstefnum kommúnista og nasista, aðgengilegar á Netinu, jafnframt því sem prentuð eru nokkur eintök á pappír fyrir söfn og áhugamenn. Árið 2015 komu út þrjú rit í þessari röð, Greinar um kommúnisma eftir breska heimspekinginn Bertrand Russell 17. júní, á sextíu ára afmæli Almenna bókafélagsins, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen 19. júní, á hundrað ára afmæli kosningarréttar kvenna, og Úr álögum (Out of the Night) eftir Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs 23. ágúst, á evrópskum minningardegi fórnarlamba alræðisstefnunnar.

Kapa.LeyniraedaÁrið 2016 er ætlunin að endurútgefa sex bækur á þennan hátt, Leyniræðuna um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov 15. febrúar, sextíu árum eftir flutninginn, El Campesino — Líf og dauða í Ráðstjórnarríkjunum eftir Valentín Gonzalez og Julián Gorkin 17. júlí, áttatíu árum eftir að spænska borgarastríðið hófst, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Eistland — Smáþjóð undir oki erlends valdseftir Andres Küng 26. ágúst, tuttugu og fimm árum eftir að Ísland tók aftur upp stjórnmálasamband við Eystrasaltslöndin, fyrst ríkja, Þjóðbyltinguna í Ungverjalandieftir Erik Rostböll 23. október, sextíu árum eftir að byltingin hófst, og Svartbók kommúnismans undir ritstjórn Stéphane Courtois 25. desember, aldarfjórðungi eftir fall Ráðstjórnarríkjanna. Ritin verða aðgengileg til lesturs og niðurhalds á Google Books og einnig til niðurhals á Kindle.

Ráðstefnugestir sóttu sérstakan hátíðafund í tilefni þess, að hálf öld er liðin frá því, að pólskir biskupar gáfu út yfirlýsingu um, að Pólverjar og Þjóðverjar þyrftu að sættast eftir hildarleiki fyrri tíðar. „Við fyrirgefum og biðjum um, að okkur verði fyrirgefið.“ Voru þar einnig þrír kardínálar, menntamálaráðherra Póllands og borgarstjórinn í Wroclaw. Á ráðstefnunni var talsvert rætt um þá ógn, sem steðjar að Úkraínu, og um tilraunir gamalla kommúnista í ýmsum löndum Mið- og Austur-Evrópu til að takmarka aðgang að skjölum um ódæði í valdatíð þeirra. Í lok ráðstefnunnar kvaddi Hannes sér hljóðs og færði fyrir hönd stuðningsmanna Evrópuvettvangsins dr. Neelu Winkelmann, framkvæmdastjóra vettvangsins, þakkir fyrir vel unnin störf. Fagnaði hann því, að hún heldur áfram í starfi sínu. Göran Lindblad, fyrrverandi þingmaður Hófsama sameiningarflokksins sænska, var endurkjörinn forseti Evrópuvettvangsins. Bandaríski rithöfundurinn Anne Applebaum, Janez Jansa, fyrrverandi forsætisráðherra Slóvakíu, og tékkneski leikarinn Ondrej Vetchý bættust á ráðstefnunni í fulltrúaráð vettvangsins (Board of Trustees). Þrjár stofnanir og samtök gerðust að þessu sinni aðilar að vettvangnum, og eru þeir nú 51 talsins.

Fjörugur fundur um valdatíð Davíðs

Hannes hefur orðið.
Hannes hefur orðið.

Þeir Hannes H. Gissurarson prófessor, Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra Vinstri-grænna, og Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skiptust á skoðunum um valdatíð Davíðs Oddssonar á fundi Politica, félags stjórnmálafræðinema í Háskóla Íslands, fimmtudagskvöldið 12. nóvember. Troðfullt var í stórum fundarsal, og komust færri að en vildu. Hannes benti á, að Davíð hefði verið óvenju sigursæll stjórnmálamaður: Hann hefði aukið fylgi sitt sem borgarstjóri upp í rösk 60% árið 1990 og síðan verið lengst allra manna samtals og samfleytt forsætisráðherra. Tímamót hefðu orðið, þegar hann varð forsætisráðherra 1991. Sjóðasukki hefði verið hætt, stöðugleika komið á í peningamálum og ríkisfjármálum, lífeyrissjóðir efldir, réttindi fólks tryggð með stjórnsýslulögum og upplýsingalögum og landið verið opnað með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Þegar Davíð hefði vikið sem forsætisráðherra 2004, hefði skuldasöfnun bankanna ekki verið hafin. Ísland árið 2004 hefði verið gott land.

Logo-svislé

Hannes kvað Davíð Oddsson hafa verið gagnrýndan fyrir stuðning Íslands við Íraksstríðið, en þar hefði verið um að ræða stuðningsyfirlýsingu við ákvörðun, sem aðrir hefðu tekið og Ísland ekki getað breytt neinu um. Hins vegar hefði Ísland getað stöðvað loftárásir Atlantshafsbandalagsins á Líbíu 2011, því að öll aðildarríki bandalagsins hefðu neitunarvald um slíkar aðgerðir, en það hefði vinstri stjórn þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar ekki gert. Hannes benti einnig á, að sala banka hefði hafist í tíð vinstri stjórnarinnar 1988–1991, þegar Íslandsbanki var stofnaður. Erindi Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna.

Ogmundur.12.11.2015
Ögmundur talar.

Ögmundur Jónasson sagðist vera af sömu kynslóð í stjórnmálum og Davíð, enda væru aðeins nokkrir mánuðir á milli þeirra í aldri. Þegar þeir hefðu hafið afskipti af stjórnmálum um og eftir 1970, hefði verið gróska á vinstri vængnum, en ládeyða hægra megin. Þetta hefði snúist við, þegar Davíð og félagar hans í Eimreiðarhópnum hefðu komið til sögu. Þeir hefðu flutt inn nýjar hugmyndir, skírskotað til Reagans og Thatchers, vitnað í Hayek, Friedman og Buchanan, á meðan vinstri menn hefðu staðnað. Davíð og félagar hans hefðu rofið þá samstöðu um frumgildi eins og velferð og samkennd, sem hefði verið almenn á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldar. Þeir hefðu stuðlað að ójafnari tekjudreifingu og tekið efnisleg gæði fram yfir andleg. Vilhjálmur Egilsson rifjaði upp, hvernig ástandið var, á meðan verðbólga geisaði á Íslandi fram undir lok níunda áratugarins og atvinnulífið var reyrt í viðjar. Ein ástæðan til þess, að nauðsynlegt hefði verið að selja ríkisbankana tvo upp úr aldamótum 2000 hefði einmitt verið, að hallað hefði á þá í samkeppni við hinn spræka ríkisbanka, sem myndaður hefði verið 1990. Enginn vafi væri á því, að rekstur margra fyrirtækja væri miklu betur kominn í höndum einkaaðila en embættismanna ríkisins. Vilhjálmur kvað hafa verið þægilegt að vinna með Davíð Oddssyni á þingi. Hann hefði verið afskiptalítill um störf þingmanna, en fljótur til ákvarðana og menn treyst orðum hans.

Eftir framsöguerindin voru umræður, og tóku ýmsir til máls. Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og ráðherra, kvaddi sér hljóðs og sagðist geta borið um það, að lítilmagninn hefði ætíð átt málsvara og stuðningsmann í Davíð Oddssyni. Guðni kvað þá Davíð hafa verið prýðilega samstarfsmenn í ríkisstjórn og þeir hefðu með tímanum orðið góðir vinir, en hann skildi ekki, hvers vegna Davíð hefði horfið frá stefnu Sjálfstæðisflokksins um tvíhliða viðræður við Evrópusambandið í stað aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu og frá hugmyndum sínum um dreifða eignaraðild bankanna að sölu þeirra til „kjölfestufjárfesta“. Hann teldi hins vegar, að Davíð hefði með forgöngu sinni í Seðlabankanum bjargað því, sem bjargað varð í bankahruninu. Hann hefði beitt sér fyrir þeirri lausn, sem varð ofan á og reyndist farsæl, að skilja á milli hins innlenda hluta bankakerfisins og hins erlenda. Af þessu tilefni lét Vilhjálmur Egilsson í ljós mikla undrun á því, að Davíð hefði verið flæmdur úr Seðlabankanum. Þótt hann hefði ekki alltaf verið sammála Davíð um vaxtastefnu bankans, hefði hann reynst vel sem seðlabankastjóri.

Fundurinn var tekinn upp, og hefur eitthvað á annað þúsund manns horft á hann á Youtube, en hann verður líka sýndur á sjónvarpsstöðinni ÍNN:

Frelsi á Íslandi 930-2015

Frá miðborg Sofia.
Frá miðborg Sofia.

Hannes H. Gissurarson prófessor heldur fyrirlestur á svæðisráðstefnu Evrópusamtaka frjálshyggjustúdenta, European Students for Liberty, í Sofia í Búlgaríu laugardaginn 17. október kl. 12–13. Nefnist fyrirlesturinn „Frelsi á Íslandi 930–2015“. Þar heldur Hannes því fram, að lögmál hagfræðinnar hljóti að gilda í litlum löndum alveg eins og stórum, ella séu þau ekki gild lögmál. Nota megi hagfræðina til að skýra, hvers vegna réttarvarsla í höndum einstaklinga eins og tíðkaðist í íslenska þjóðveldinu 930–1262 geti verið skilvirk. Einnig hafi Forn-Íslendingar komið sér upp tiltölulega hagkvæmri aðferð til að samnýta beitarland á fjöllum, ítölu, og þannig forðast „samnýtingarbölið“ (the tragedy of the commons). Hannes ræðir líka þá spurningu, hvers vegna Íslendingar sultu hálfu og heilu hungri öldum saman, þótt gjöful fiskimið væru skammt undan landi, og vísar í svarinu til þess bandalags konungs og fámennrar landeigendastéttar, sem stóð allt frá lokum fimmtándu aldar og fram að Móðuharðindum, þegar það féll um sjálft sig. Hannes greinir kvótakerfið, sem skilað hefur góðum árangri í fiskveiðum á Íslandsmiðum, en þær eru í senn sjálfbærar og arðbærar. Þar hafi Íslendingum aftur tekist að forðast samnýtingarbölið.

Logo-svisléHannes ber markaðskapítalismann á Íslandi 1991–2004 saman við klíkukapítalismann 2004–2008, en þá notaði fámenn klíka auðjöfra hið góða orðspor Íslands, sem myndast hafði hálfan annan áratug á undan, til óhóflegrar skuldasöfnunar erlendis. Hannes telur hins vegar ekki, að sú skuldasöfnun sé meginskýringin á bankahruninu, heldur sú staðreynd, að Bandaríkjamenn og Bretar skildu Ísland eftir úti í kuldanum, þegar mörg önnur ríki fengu mikilvæga aðstoð, aðallega með gjaldeyrisskiptasamningum við bandaríska seðlabankann. Bretar gengu lengra, lokuðu breskum bönkum í eigu Íslendinga á sama tíma og þeir veittu öllum öðrum breskum bönkum stórkostlega fjárhagsaðstoð, jafnframt því sem þeir beittu hryðjuverkalögum á Íslendinga. Hannes kveður meginskýringuna á uppgangi Íslands síðustu árin hins vegar vera, að landið var aldrei gjaldþrota eins og Gordon Brown hafði fullyrt. Íslenska hagkerfið standi á fjórum traustum stoðum, hagkvæmu fyrirkomulagi fiskveiða, orkuvinnslu, ferðamannaþjónustu og miklum mannauð.

Fjörugar umræður urðu að erindi Hannesar loknu. Hann var spurður: Hvað um nýliðun í sjávarútvegi? Svar hans var, að vandinn var ótakmarkaður aðgangur og allt of margir að veiðum. Nýliðun væri ekki markmiðið við þær aðstæður. Komið var á því kerfi, að menn kæmust ekki á veiðar, nema þeir hefðu kvóta. Þetta væri sama lögmál og í landbúnaði. Menn gætu ekki hafið búskap, nema þeir keyptu sér land og bústofn. Eini rétturinn, sem væri tekinn af öðrum við það, að kvótum hefði veirð úthlutað til þeirra, sem stundað hefðu veiðar, væri rétturinn til að gera út með engum ábata, og sá réttur væri samkvæmt skilgreiningu einskis virði. Einnig var Hannes spurður: Hvað um arðinn af fiskveiðum? Af hverju átti hann að renna óskiptur til útgerðarmanna? Svar hans var, að það væri skömminni skárra en að hann rynni til ríkisins, sem notaði fé sitt sjaldnast skynsamlega. „Ríkið er ekki við; ríkið er þeir,“ sagði Hannes. Auk þess væri úthlutun aflakvóta samkvæmt veiðireynslu eina leiðin til að loka fiskimiðunum eða girða þau af, sem vænleg væri til árangurs, því að þá væri högum manna lítt raskað: Þeir, sem vildu halda áfram veiðum, gætu þá keypt út hina, sem vildu hætta veiðum. Fyrirlestur Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.


Glærur Hannesar í Sofia 17. október 2015