Bók um skatta og lífskjör á Netinu

RNH og AB (Almenna bókafélagið) hafa hafið endurútgáfu ýmissa rita, sem varða einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi, á Netinu í samstarfi við Atlas Network og ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna. Í ársbyrjun 2016 kom út bókin The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable eftir Hannes H. Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor, rannsóknastjóra RNH. Í janúar 2017 kom út eftir Hannes bókin Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör. Þar ræðir Hannes tvær helstu heimspekikenningarnar til varnar farsældarríkinu (eða velferðarríkinu, eins og það er kallað á verri íslensku), hugmyndir Hegels um almenna þátttöku borgaranna án útskúfunar einhvers hluta þeirra og áhyggjur Rawls af hinum verst settu. Hannes rökstyður, að „íslenska leiðin“, sem farin var á Íslandi undir forystu Davíðs Oddssonar 1991–2004, hafi fallið prýðilega að kenningum Hegels og Rawls. Útskúfun hafi verið minni en í flestum öðrum löndum vegna þess, að atvinnuleysi var hverfandi, fátækt óveruleg, lífeyrissjóðir öflugir og starfsaldur tiltölulega langur. Fátækasti hópurinn á Íslandi hafi notið betri kjara en í flestum öðrum löndum og átt þess kost að bæta kjör sín. Raunar hafi tekjur hinna tekjulægstu aukist hraðar á Íslandi á þessu tímabili en í öllum öðrum Evrópulöndum að hinum olíuauðga Noregi undanteknum. Hannes vekur athygli á gögnum frá Fraser stofnuninni í Kanada um alþjóðlegan samanburð á atvinnufrelsi, sem veita afdráttarlausa vísbendingu um, að hinir verst settu séu skár settir í frjálsum hagkerfum en öðrum. Þess vegna eigi jafnaðarmaður af ætt Rawls að vera hlynntur frjálsu markaðskerfi, alþjóðlegu viðskiptafrelsi og réttarríkinu. Hannes lýsir einnig árangrinum af verulegum og almennum skattalækkunum árin 1991–2004 og varar við skattahækkunum.