Erindi í Brüssel um fórnarlömb alræðisstefnunnar

Dr. Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði og rannsóknastjóri RNH, flytur erindi á málstofu Evrópuvettvangs um minningu og samvisku í Evrópuþinginu í Brüssel miðvikudaginn 26. apríl um, hvers vegna þurfi að minnast fórnarlamba alræðisstefnunnar í Evrópu, nasisma, fasisma og kommúnisma. Í formála Svartbókar kommúnismans, sem Hannes þýddi á íslensku 2009, giskar prófessor Stéphane Courtois á, að fórnarlömb nasismans hafi verið um 25 milljónir manns, en kommúnismans um 100 milljónir manns. Courtois bendir á, að nasisminn tapaði stríði, en kommúnisminn féll frekar um sjálfan sig. Þótt kommúnistar hafi gerst sekir um glæpi gegn mannkyni og glæpi gegn friði, hafa engin Nürnberg-réttarhöld verið háð yfir kommúnismanum og engar kvikmyndir eða ljósmyndir teknar í þrælabúðum kommúnista. Þess vegna hefur kommúnisminn ekki verið lagður á minni mannkyns í sama mæli og nasisminn. Hannes tók saman fyrir Evrópuvettvanginn yfirlit yfir ýmsar bækur og kvikmyndir um alræðisstefnuna, sérstaklega kommúnismann. Síðar á árinu ætlar RNH í samstarfi við Almenna bókafélagið að minnast aldarafmælis bolsévíkabyltingarinnar í Rússlandi, sem gerð var undir forystu hins blóðþyrsta Vladímírs Leníns 7. nóvember 1917, meðal annars með endurútgáfu Ég kaus frelsiðeftir Víktor Kravtsjenko, Nytsamur sakleysingi og fleiri bóka. Allt eru þetta liðir í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.