Evrópuþingið styður Evrópuvettvanginn

RNH er aðili að Evrópuvettvangi minningar og samvisku, sem heldur á lofti minningunni um fórnarlömb alræðisstefnunnar, kommúnisma og nasisma, og hefur rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, haldið nokkra fyrirlestra á ráðstefnum vettvangsins og birt ritgerðir í útgáfuverkum hans. Evrópuþingið samþykkti 19. september 2019 ályktun um það, hversu mikilvægt væri fyrir framtíð Evrópu að minnast fórnarlamba alræðisstefnunnar, og skoraði á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að veita Evrópuvettvangnum stuðning. Evrópuþingið lagði í ályktuninni áherslu á minningardag fórnarlamba alræðisstefnunnar, 23. ágúst, en þann dag árið 1939 reyndu kommúnistar og nasistar að skipta með sér miklum hluta Evrópu með svokölluðum griðasáttmála Hitlers og Stalíns, sem undirritaður var í Moskvu og hleypti af stað heimsstyrjöldinni síðari.