Gleymum aldrei fórnarlömbunum

Frá ráðstefnunni í ráðhúsinu í Wroclaw. Hannes H. Gissurarson situr í annarri röð fyrir miðju.

Frá ráðstefnunni í ráðhúsinu í Wroclaw. Hannes H. Gissurarson situr í annarri röð fyrir miðju.

Prófessor Hannes H. Gissurarson flutti erindi á ársfundi Evrópuvettvangs um minningu og samvisku, Platform of European Memory and Conscience, sem haldinn var í ráðhúsinu í Wroclaw í Póllandi 17.–18. nóvember 2015. Lýsti hann samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Einn mikilvægasti liðurinn í því verkefni er að gera bækur, sem komu á sínum tíma út á íslensku gegn alræðisstefnum kommúnista og nasista, aðgengilegar á Netinu, jafnframt því sem prentuð eru nokkur eintök á pappír fyrir söfn og áhugamenn. Árið 2015 komu út þrjú rit í þessari röð, Greinar um kommúnisma eftir breska heimspekinginn Bertrand Russell 17. júní, á sextíu ára afmæli Almenna bókafélagsins, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen 19. júní, á hundrað ára afmæli kosningarréttar kvenna, og Úr álögum (Out of the Night) eftir Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs 23. ágúst, á evrópskum minningardegi fórnarlamba alræðisstefnunnar.

Kapa.Leyniraeda

Árið 2016 er ætlunin að endurútgefa sex bækur á þennan hátt, Leyniræðuna um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov 15. febrúar, sextíu árum eftir flutninginn, El Campesino — Líf og dauða í Ráðstjórnarríkjunum eftir Valentín Gonzalez og Julián Gorkin 17. júlí, áttatíu árum eftir að spænska borgarastríðið hófst, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Eistland — Smáþjóð undir oki erlends valdseftir Andres Küng 26. ágúst, tuttugu og fimm árum eftir að Ísland tók aftur upp stjórnmálasamband við Eystrasaltslöndin, fyrst ríkja, Þjóðbyltinguna í Ungverjalandieftir Erik Rostböll 23. október, sextíu árum eftir að byltingin hófst, og Svartbók kommúnismans undir ritstjórn Stéphane Courtois 25. desember, aldarfjórðungi eftir fall Ráðstjórnarríkjanna. Ritin verða aðgengileg til lesturs og niðurhalds á Google Books og einnig til niðurhals á Kindle.

Ráðstefnugestir sóttu sérstakan hátíðafund í tilefni þess, að hálf öld er liðin frá því, að pólskir biskupar gáfu út yfirlýsingu um, að Pólverjar og Þjóðverjar þyrftu að sættast eftir hildarleiki fyrri tíðar. „Við fyrirgefum og biðjum um, að okkur verði fyrirgefið.“ Voru þar einnig þrír kardínálar, menntamálaráðherra Póllands og borgarstjórinn í Wroclaw. Á ráðstefnunni var talsvert rætt um þá ógn, sem steðjar að Úkraínu, og um tilraunir gamalla kommúnista í ýmsum löndum Mið- og Austur-Evrópu til að takmarka aðgang að skjölum um ódæði í valdatíð þeirra. Í lok ráðstefnunnar kvaddi Hannes sér hljóðs og færði fyrir hönd stuðningsmanna Evrópuvettvangsins dr. Neelu Winkelmann, framkvæmdastjóra vettvangsins, þakkir fyrir vel unnin störf. Fagnaði hann því, að hún heldur áfram í starfi sínu. Göran Lindblad, fyrrverandi þingmaður Hófsama sameiningarflokksins sænska, var endurkjörinn forseti Evrópuvettvangsins. Bandaríski rithöfundurinn Anne Applebaum, Janez Jansa, fyrrverandi forsætisráðherra Slóvakíu, og tékkneski leikarinn Ondrej Vetchý bættust á ráðstefnunni í fulltrúaráð vettvangsins (Board of Trustees). Þrjár stofnanir og samtök gerðust að þessu sinni aðilar að vettvangnum, og eru þeir nú 51 talsins.