Hannes: Hvar á Ísland að vera?

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti fyrirlestur á málstofu Chicago Council on Global Affairs í Reykjavík 16. júní 2016. Hann bar heitið „Iceland’s Role in the World“. Hannes benti þar á, að fyrsti milliríkjasamningurinn var gerður 1022, um gagnkvæman rétt Íslendinga og Norðmanna. Ísland var skattland Noregskonungs og síðar Danakonungs frá 1262, en nærri gengið undir Englandskonung á fimmtándu öld. Englandskonungi var boðið landið þrisvar til kaups, 1518, 1524 og 1535, fyrir tæpar sjö milljónir Bandaríkjadala að núvirði, en hann hafði ekki áhuga, enda hafði hann þær spurnir af Íslendingum, að þeir dræpu iðulega sendimenn konunga.

Ísland var að sögn Hannesar að miklu leyti einangrað og lokað land frá 1490, þegar Píningsdómur var settur, og fram til 1855, þegar fullt verslunarfrelsi komst hér á. 1876 var síðasta árið, þegar útflutningur landbúnaðarafurða nam meira fé en sjávarafurða. Eftir það breyttist landið skjótt. Það var óvarið að kalla má, á meðan Danir réðu hér mestu, en í skjóli breska flotans 1814–1914. Bretar tóku í raun við stjórnartaumum hér 1914, en slepptu þeim strax að Norðurlandaófriðnum mikla loknum 1918. Þeir flýttu sér síðan að hernema landið 1940. Þeir vildu ekki áhrif eða ítök annarra stórvelda hér.

Hannes kvað bandarísku öldina í sögu Íslands hafa runnið upp 1941, þegar Bandaríkjamenn tóku að sér varnir landsins. Hún stóð allt til 2006. Þá hafði Ísland misst hernaðarlegt gildi sitt að dómi Bandaríkjamanna. Þegar fjármálakreppa reið yfir heiminn, veittu Bandaríkjamenn Svíum og Svisslendingum, sem aldrei höfðu stutt þá, ómetanlega aðstoð, en neituðu Íslendingum um slíka aðstoð með þeim afleiðingum, að bankarnir féllu. Bretar lokuðu tveimur breskum bönkum, Heritable og KSF, sem voru í eigu Íslendinga, en björguðu öllum öðrum breskum bönkum, sumum með leynilegum fjárframlögum eins og Alliance & Leicester, sumum með opinberri aðstoð, til dæmis RBS, HBOS og Bradford & Bingley. Jafnframt settu Bretar Landsbankann, Seðlabankann og fleiri íslenskar stofnanir á lista yfir hryðjuverkasamtök. Þessar aðgerðir þeirra voru í senn óþarfar og ódrengilegar, og taldi Hannes annarlegar hvatir hafa ráðið.

Hannes leiddi rök að því, að Íslendingar gætu valið um Atlantshafskostinn (samstarf við Noreg, Bretland, Kanada og Bandaríkin) og Evrópusambandskostinn (aðild að Evrópusambandinu). Ef til vill væri þó unnt að sameina þessa tvo kosti frekar en velja annan fram yfir hinn: 1) stunda áfram gagnkvæm viðskipti við lönd Evrópusambandsins, en líka við Bandaríkin, Kanada, Rússland, Kína og önnur lönd, 2) gera samninga við Breta eða Bandaríkjamenn um skiptanleika krónunnar, svo að Íslendingar lentu ekki í sömu sporum og 2008, 3) hafa varnarsamstarf við Noreg, Bretland, Bandaríkin og Kanada.

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, flutti einnig erindi á fundinum, og var það um ný viðhorf í öryggismálum í Norður-Evrópu. Kvað Björn aukna áreitni Rússa áhyggjuefni, ekki síst í Finnlandi, Svíþjóð og Eystrasaltslöndunum: Rússneskar orrustuþotur ryfu lofthelgi hvað eftir annað, og rússneskir kjarnorkukafbátar sigldu iðulega inn í lögsögu annarra ríkja. Daginn fyrir málstofuna sat Hannes kvöldverðarboð bandaríska sendiherrans, Roberts Barbers, með félögum í Chicago Council on Global Affairs. Þátttaka hans í málstofunni var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.