Hannes: Ísland ekki of lítið

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti erindi í stjórnmálaskóla ungra Vinstri grænna í Reykjavík 5. mars 2016 um það, hvort Ísland væri of lítið til að standast sem sjálfstætt ríki eins og haldið hefur verið fram eftir bankahrunið íslenska. Rakti Hannes marga kosti smáríkja, enda hefur þeim fjölgað mjög frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Þau gætu í krafti frjálsra alþjóðaviðskipta nýtt sér kosti sérhæfingar og opins markaðar, án þess að stjórnkerfi þeirra yrðu stirð, þunglamaleg og ógegnsæ eins og stjórnkerfi stærri ríkja. Smáríki þyrftu ekki skjól, sem gætu orðið gildrur, heldur frjáls viðskipti við önnur ríki, öflug gagnkvæm samskipti og varnarsamstarf við sér öflugri ríki, til dæmis Ísland við Bandaríkin, Bretland, Kanada og Noreg.

Ásamt Hannesi var Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, framsögumaður á fundinum, en að erindum þeirra loknum voru fjörugar umræður, ekki síst um réttlæti í tekjudreifingu og aukið val neytenda í heilsugæslu. Þátttaka Hannesar í stjórnmálaskólanum var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur HHG á fundi Vinstri grænna 5. mars 2016