Hannes: Menntun fyrir frjálsar þjóðir

Menntun er ekki hið sama og skólaganga, og skólar þurfa ekki að vera ríkisreknir, sagði prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, í málstofu um skóla- og menntamál á ráðstefnu ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, í Bakú í Aserbaídsjan 9. júní 2018. Hvað sem því liði, mættu engir skólar missa sjónar á aðaltilgangi sínum. Hann væri að kenna nemendum þau vinnubrögð og gildi, sem þeir þyrftu á að halda úti í lífinu, til dæmis lestur, skrift og reikning. Ekki mætti heldur vanrækja almenna menntun, sem Þjóðverjar kölluðu „Bildung“ og fælist í þekkingu á öðrum tímum og öðrum stöðum. Menntun væri í raun miðlun menningarlegra gilda, og með litlum og samleitum þjóðum hlyti eitt gildið að vera þjóðleg reisn, virðing fyrir hinni þjóðlegu arfleifð. Hins vegar hefði Burke auðvitað rétt fyrir sér um það, að til þess að elska ættjörð sína yrði hún að vera elskuleg. Það væri hlutverk stjórnmálaleiðtoga að gera lönd sín elskuleg, og það gerðu þeir með því að auka frelsi og auðvelda verðmætasköpun.

Hannes lagði áherslu á, að þekking væri eftirsóknarverð í sjálfri sér, en ekki aðeins vegna notagildis síns. Vísindi væri eðlilegast að skilgreina sem frjálsa samkeppni hugmynda, eins og Karl R. Popper hefði gert. Það væri athyglisvert, að í OECD-rannsókn hefðu komið í ljós sterk tengsl milli fjárfestinga einkafyrirtækja í rannsóknum og þróun og aukningar vísindalegrar og tæknilegrar þekkingar, en engin slík tengsl, þegar opinberir aðilar ættu í hlut. Bókvitið yrði aðeins í askana látið, þegar hendur einstaklinga héldu á þeim, ekki krumlur ríkisins. Á okkar dögum virtust vinstri sinnaðir menntamenn hafa náð ofurvaldi á skólum og fjölmiðlum og stundum reyna að beina þeim í aðra átt en að því að leita þekkingar og miðla henni. Í stað frjálsrar samkeppni hugmynda stefndu vinstri sinnaðir menntamenn að baráttu við kapítalismann, reyndu að breyta öllum í fórnarlömb og hópmenni, sem nota ætti annarra manna fé til að halda uppi. Jafnframt græfu þessir menntamenn undan siðferðilegum stoðum borgaralegs skipulags, svo sem eignarréttinum og fjölskyldunni. Auðvitað ætti að virða málfrelsi þessara manna, en óþarfi væri að kosta baráttu þeirra með almannafé.

Hannes kvað hægri menn jafnan vera í minni hluta í fjölmiðlum og félagsvísindadeildum vegna innvals: Þeir legðu frekar fyrir sig læknislist, verkfræði, lögfræði og kaupsýslu. Þeir hægri menn, sem sjálfir hefðu ekki tíma til að verja hagsmuni sína og um leið almannahagsmuni, yrðu því að aðstoða þann fámenna hóp menntamanna, sem hefðu ekki andúð á auðsköpun. Koma þyrfti til skila tveimur snjöllustu hugmyndum Adams Smiths: að gróði eins þyrfti ekki að vera tap annars og að atvinnulífið gæti verið skipulegt án þess að vera skipulagt. Gera þyrfti ósýnilega höndina sýnilega. Hannes minntist þess, að Friedrich A. Hayek hefði einu sinni sagt sér, að í rauninni væri eina verkefni hagfræðingsins að skýra út, hvers vegna enga hagfræðinga þyrfti til að stýra hagkerfinu. Það gæti verið sjálfstýrt.

Aðrir þátttakendur í málstofunni um skóla- og menntamál voru Firudin Gurbanov, aðstoðarmenntamálaráðherra Aserbaídsjans, Prófessor Asif Ahmed, deildarforseti læknadeildar Aston-háskóla, og Sebastian Keciek, sem sér um að koma netinu inn í pólska skóla. Á meðal annarra ræðumanna á mótinu voru Jorge Quiroga, fyrrverandi forseti Bólivíu, Jan Zahradil, forseti ACRE og Evrópuþingmaður, og Nosheena Mobarik, barónessa og Evrópuþingmaður, og margir aðrir Evrópuþingmenn. Mótinu stjórnaði breski blaðamaðurinn og útgefandinn Iaian Dale, en Richard Milsom, framkvæmdastjóri ACRE, og starfslið hans sáu um skipulagningu.