Ísland og engilsaxnesku stórveldin

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti fyrirlestur hjá Íslensk-ameríska viðskiptaráðinu í New York 7. apríl. Var hann um Ísland og engil-saxnesku stórveldin. Hannes rakti samskipti Íslendinga og Breta, allt frá því að fyrstu ensku fiskiskipin birtust á Íslandsmiðum 1412 og til þess, er breska Verkamannaflokksstjórnin setti hryðjuverkalög á Íslendinga haustið 2008. Hann sagði frá Bretum, sem hefðu haft veruleg áhrif á þróun mála á Íslandi, þar á meðal Sir Joseph Banks, miklum velgjörðamanni þjóðarinnar, og Eric Cable ræðismanni, og frá tveimur leiðtogum breska Verkamannaflokksins, Gordon Brown og Alistair Darling og aðgerðum þeirra gegn Íslendingum. Hannes lýsti einnig samskiptum Íslendinga og Bandaríkjamanna, herverndarsamningnum 1941 og varnarsamningnum 1951, brottför varnarliðsins 2006 og áhugaleysi bandarískra ráðamanna um örlög Íslands. Niðurstaða hans var, að þrátt fyrir allt ætti Ísland helst að leita samstarfs við grannríkin í Norður-Atlantshafi, Bandaríkin, Kanada, Noreg og Stóra-Bretland.

Eftir fyrirlesturinn sat Hannes kvöldverð með Einari Gunnarssyni, sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Thor Thors og fleiri mönnum. Einar var ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, þegar sem mest gekk á milli Breta og Íslendinga. Fyrirlesturinn var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.