Íslandssaga og ævisögur á málstofu í Reykjavík

Plakat_tlo_fb_4

RNH er hinn íslenski samstarfsaðili pólska rannsóknarsetursins Minningar og framtíðar í Wroclaw, sem sinnir rannsóknarverkefni um munnlega sögu af tengslum Íslendinga og Pólverja, einkum hin síðari ár. Haldinn var vinnufundur í Reykjavík 17.–27. ágúst 2015, þar sem pólskir fræðimenn og háskólanemar tóku viðtöl við Pólverja á Íslandi, heimsóttu deild munnlegrar sögu á Þjóðarbókhlöðunni og hlustuðu einnig á tvo íslenska fræðimenn skýra annars vegar Íslandssöguna og hins vegar íslenskar ævisögur. Veitti RNH aðstoð við undirbúning vinnufundarins.

Hannes.Gissurarson

Dr. Hannes H. Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor rakti sögu Íslands frá öndverðu. Kvað hann hana hafa verið stríð þjóðarinnar við eld og ís fram á 20. öld. Þjóðveldið hefði verið forvitnileg tilraun til að leysa úr ágreiningsefnum án ríkisvalds. Á meðan landið var dönsk hjálenda, hefði konungur í raun gert bandalag við fámenna íslenska landeigendastétt um að halda sjávarútvegi niðri. Þetta hefði breyst á 19. öld og þjóðin brotist úr fátækt í bjargálnir í krafti útgerðar og verslunar. Bankahrunið 2008 hefði verið henni mikið áfall, en hún hefði jafnað sig furðufljótt, eins og á fyrri áföllum. Þjóðin hefði fram á síðustu tíma verið mjög einsleit, en það væri að breytast. Pólskir innflytjendur hefðu lagast betur að henni en margir aðrir hópar.

GudniThJohannesson2010svhvJPV (2)_0

Dr. Guðni Jóhannesson sagnfræðilektor lýsti íslenskum ævisögum. Sjálfur hefði hann skrifað nokkrar slíkar sögur, meðal annars umdeilda bók um Kára Stefánsson, frumkvöðul og lækni, og ævisögu Gunnars Thoroddsens forsætisráðherra, sem betur hefði verið tekið. Guðni kvaðst nú vera með þrjú slík verk í smíðum, tvær ævisögur íslenskra frammámanna að frumkvæði og með tilstyrk fjölskyldna þeirra og rit um föður sinn, Jóhannes Sæmundsson. Margvísleg vandkvæði væru á því að útvega heimildir í slík verk og meta þær, jafnframt því sem heiðarlegur sagnfræðingur þyrfti að nálgast viðfangsefnið í senn af samúð og þó undanbragðalaust. Hann hefði notað munnlegar heimildir í sumum verkum sínum, en þær þyrfti að meta vandlega eins og aðrar heimildir.