Leiðtoganámskeið frjálslyndra framhaldsskólanema

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, flutti erindi um frjálshyggju á leiðtoganámskeiði Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta, European Students for Liberty, fyrir nemendur í íslenskum framhaldsskólum og háskólum laugardaginn 13. janúar 2018 í Kópavogi. Sáu þeir Sigurvin Jarl Ármannsson og Magnús Örn Gunnarsson um að skipuleggja námskeiðið, en þar leiðbeindu einnig Gísli Freyr Valdórsson almannatengill og Gunnlaugur Jónsson fjárfestir. Hannes kvað frjálshyggjurnar jafnmargar frjálshyggjumönnunum. Að sumu leyti fælist frjálshyggja í gamalli og góðri alþýðuspeki, eins og þeirri athugasemd Einars Þveræings forðum, að konungar væru misjafnir, sumir góðir og aðrir vondir, og væri því best að hafa engan konung. Hann rifjaði líka upp hnyttin orð Lofts Bjarnasonar útgerðarmanns: „Ég get sofið á næturnar, þótt öðrum gangi vel.“

Hannes bætti við, að sígild frjálshyggja fælist í kröfu Johns Lockes um takmörkun valdsins og kenningu Adams Smiths um kostinn á sjálfsprottnu skipulagi. Fræðileg frjálshyggja á okkar dögum væri einkum fimmþætt. Austurrísku hagfræðingarnir, Hayek og Mises, hefðu bent á, að dreifing þekkingar krefist dreifingar valds og samkeppnin væri þrotlaus þekkingarleit. Chicago-hagfræðingarnir, Friedman, Stigler, Becker og Coase, hefðu leitt út, að verðlagning væri oft skynsamlegri til lausnar málum en skattlagning. Virginíu-hagfræðingarnir, Buchanan og Tullock, hefðu minnt á þá gömlu vinnutilgátu, að menn kepptu aðallega að eigin hagsmunum, og ætti það ekki síður við um valdsmenn en kaupsýslumenn. Í fjórða lagi væri um að ræða heimspekilega frjálshyggju. Karl R. Popper hefði fært rök fyrir „neikvæðri nytjastefnu“, sem fælist í að lágmarka böl (sem menn hefðu tiltölulega skýrar hugmyndir) frekar en hámarka hamingjuna (sem væri miklu óskýrara hugtak). Robert Nozick hefði mælt fyrir lágmarksríki og tekjudreifingu samkvæmt frjálsu vali. Í fimmta lagi hefði Ayn Rand í skáldsögum sínum komið orðum að róttækri einstaklingshyggju, en þrjár þeirra hefðu komið út á íslensku, Undirstaðan (Atlas Shrugged), Uppsprettan (The Fountainhead) og Kíra Argúnova (We the Living).

Erindi Hannesar á leiðtoganámskeiðinu í Kópavogi var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur Hannesar 13. janúar 2018