Störf Davíðs í Seðlabankanum

Eyþór Arnalds athafnamaður ræðir við afmælisbarnið í móttöku Árvakurs. Ljósm. Eggert Jóhannesson.

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, birti grein í Morgunblaðinu á sjötugsafmæli Davíðs Oddssonar 17. janúar 2018, og var hún um ár Davíðs í Seðlabankanum 2005–2009, en sjálfur sat Hannes í bankaráði 2001–2009. Í forsætisráðherratíð Davíðs 1991–2004  jókst atvinnufrelsi á Íslandi verulega, eins og sést á hinni alþjóðlegu vísitölu atvinnufrelsis, sem Fraser stofnunin í Kanada reiknar út ár hvert. Í greininni rifjaði Hannes upp margar viðvaranir Davíðs við útþenslu bankanna, eftir að hann varð seðlabankastjóri, meðal annars í einkasamtölum við Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde haustið 2005, við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur haustið 2007 og við ýmsa ráðamenn á mörgum fundum á öndverðu ári 2008, þar á meðal Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hlutu tillögur Davíðs um að flytja Kaupþing úr landi, selja norskan banka í eigu Glitnis og færa Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi úr útbúi (svo að þeir voru í íslenskri lögsögu) í breskt dótturfélag dræmar undirtektir.

Á morgunfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007 sagði Davíð: „Ódýrt fé lá um hríð hvarvetna á lausu og ýmsir aðilar hér á landi nýttu það tækifæri af djörfung og krafti. Hin hliðin á útrásinni er þó sú og framhjá henni verður ekki horft að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. Á sama tíma og íslenska ríkið hefur greitt skuldir sínar hratt niður og innlendar og erlendar eignir Seðlabankans hafa aukist verulega þá hafa aðrar erlendar skuldbindingar þjóðarbúsins aukist svo mikið að þetta tvennt sem ég áðan nefndi er smáræði í samanburði við það. Allt getur þetta farið vel en við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.“ Árið 2008 reyndi Seðlabankinn undir stjórn Davíðs hvað eftir annað að gera gjaldeyrisskiptasamninga við erlenda seðlabanka, en stór erlend lán voru þá ekki í boði nema á óhagstæðum kjörum. Seðlabankanum var hvarvetna synjað nema á Norðurlöndum, og voru þó samningar við þau gerðir með eftirgangsmunum. En Ingibjörg Sólrún Gísladóttir taldi viðvaranir Davíðs „útaustur eins manns“ og lagði opinberlega til 4. september 2008, að bankarnir héldu áfram innlánasöfnun erlendis.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í móttöku Árvakurs. Ljósm. Eggert Jóhannesson.

Þegar ljóst varð í septemberlok 2008, að bönkunum yrði ekki bjargað, beitti Davíð sér fyrir því, að varnarveggur yrði reistur um Ísland sem fullvalda ríki (ring-fencing) með því að skilja hinn innlenda hluta bankahlutans frá hinum erlenda og taka ekki ábyrgð á skuldbindingum bankanna, en veita þess í stað innstæðueigendum forgangskröfur í bú þeirra. Reyndist það gæfuspor, en það auðveldaði líka leikinn, að ríkissjóður var nú nær skuldlaus. Davíð beitti sér líka gegn því frá byrjun, að ríkissjóður tæki á sig skuldbindingar vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Í grein sinni í Morgunblaðinu lét Hannes í ljós þá skoðun, að aðfinnslur Rannsóknarnefndar Alþingis að störfum Davíðs og starfsbræðra hans tveggja í Seðlabankanum hefðu snúist um smáatriði, sem hefðu engu máli skipt um bankahrunið. Virtist nefndin hafa ætlast til meiri skjalavinnu, þegar þurfti einmitt að taka ákvarðanir fljótt og örugglega. Hannes er að vinna að skýrslu á ensku fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins. Hann kynnti nokkrar helstu niðurstöður hennar á fundi hjá Sagnfræðingafélaginu 17. október 2017.

Davíð hefur frá 2009 verið ritstjóri Morgunblaðsins, og hélt útgáfufélag blaðsins, Árvakur, móttöku síðdegis á afmælisdaginn í húsakynnum sínum, og var hún öllum opin, enda mjög fjölmenn, en um kvöldið bauð Davíð nokkrum vinum sínum og fjölskyldu til samsætis.

Grein Hannesar um Davíð og bankahrunið