Monthly Archives: November 2015

Gleymum aldrei fórnarlömbunum

Frá ráðstefnunni í ráðhúsinu í Wroclaw. Hannes H. Gissurarson situr í annarri röð fyrir miðju.
Frá ráðstefnunni í ráðhúsinu í Wroclaw. Hannes H. Gissurarson situr í annarri röð fyrir miðju.

Prófessor Hannes H. Gissurarson flutti erindi á ársfundi Evrópuvettvangs um minningu og samvisku, Platform of European Memory and Conscience, sem haldinn var í ráðhúsinu í Wroclaw í Póllandi 17.–18. nóvember 2015. Lýsti hann samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Einn mikilvægasti liðurinn í því verkefni er að gera bækur, sem komu á sínum tíma út á íslensku gegn alræðisstefnum kommúnista og nasista, aðgengilegar á Netinu, jafnframt því sem prentuð eru nokkur eintök á pappír fyrir söfn og áhugamenn. Árið 2015 komu út þrjú rit í þessari röð, Greinar um kommúnisma eftir breska heimspekinginn Bertrand Russell 17. júní, á sextíu ára afmæli Almenna bókafélagsins, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen 19. júní, á hundrað ára afmæli kosningarréttar kvenna, og Úr álögum (Out of the Night) eftir Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs 23. ágúst, á evrópskum minningardegi fórnarlamba alræðisstefnunnar.

Kapa.LeyniraedaÁrið 2016 er ætlunin að endurútgefa sex bækur á þennan hátt, Leyniræðuna um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov 15. febrúar, sextíu árum eftir flutninginn, El Campesino — Líf og dauða í Ráðstjórnarríkjunum eftir Valentín Gonzalez og Julián Gorkin 17. júlí, áttatíu árum eftir að spænska borgarastríðið hófst, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Eistland — Smáþjóð undir oki erlends valdseftir Andres Küng 26. ágúst, tuttugu og fimm árum eftir að Ísland tók aftur upp stjórnmálasamband við Eystrasaltslöndin, fyrst ríkja, Þjóðbyltinguna í Ungverjalandieftir Erik Rostböll 23. október, sextíu árum eftir að byltingin hófst, og Svartbók kommúnismans undir ritstjórn Stéphane Courtois 25. desember, aldarfjórðungi eftir fall Ráðstjórnarríkjanna. Ritin verða aðgengileg til lesturs og niðurhalds á Google Books og einnig til niðurhals á Kindle.

Ráðstefnugestir sóttu sérstakan hátíðafund í tilefni þess, að hálf öld er liðin frá því, að pólskir biskupar gáfu út yfirlýsingu um, að Pólverjar og Þjóðverjar þyrftu að sættast eftir hildarleiki fyrri tíðar. „Við fyrirgefum og biðjum um, að okkur verði fyrirgefið.“ Voru þar einnig þrír kardínálar, menntamálaráðherra Póllands og borgarstjórinn í Wroclaw. Á ráðstefnunni var talsvert rætt um þá ógn, sem steðjar að Úkraínu, og um tilraunir gamalla kommúnista í ýmsum löndum Mið- og Austur-Evrópu til að takmarka aðgang að skjölum um ódæði í valdatíð þeirra. Í lok ráðstefnunnar kvaddi Hannes sér hljóðs og færði fyrir hönd stuðningsmanna Evrópuvettvangsins dr. Neelu Winkelmann, framkvæmdastjóra vettvangsins, þakkir fyrir vel unnin störf. Fagnaði hann því, að hún heldur áfram í starfi sínu. Göran Lindblad, fyrrverandi þingmaður Hófsama sameiningarflokksins sænska, var endurkjörinn forseti Evrópuvettvangsins. Bandaríski rithöfundurinn Anne Applebaum, Janez Jansa, fyrrverandi forsætisráðherra Slóvakíu, og tékkneski leikarinn Ondrej Vetchý bættust á ráðstefnunni í fulltrúaráð vettvangsins (Board of Trustees). Þrjár stofnanir og samtök gerðust að þessu sinni aðilar að vettvangnum, og eru þeir nú 51 talsins.

Fjörugur fundur um valdatíð Davíðs

Hannes hefur orðið.
Hannes hefur orðið.

Þeir Hannes H. Gissurarson prófessor, Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra Vinstri-grænna, og Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skiptust á skoðunum um valdatíð Davíðs Oddssonar á fundi Politica, félags stjórnmálafræðinema í Háskóla Íslands, fimmtudagskvöldið 12. nóvember. Troðfullt var í stórum fundarsal, og komust færri að en vildu. Hannes benti á, að Davíð hefði verið óvenju sigursæll stjórnmálamaður: Hann hefði aukið fylgi sitt sem borgarstjóri upp í rösk 60% árið 1990 og síðan verið lengst allra manna samtals og samfleytt forsætisráðherra. Tímamót hefðu orðið, þegar hann varð forsætisráðherra 1991. Sjóðasukki hefði verið hætt, stöðugleika komið á í peningamálum og ríkisfjármálum, lífeyrissjóðir efldir, réttindi fólks tryggð með stjórnsýslulögum og upplýsingalögum og landið verið opnað með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Þegar Davíð hefði vikið sem forsætisráðherra 2004, hefði skuldasöfnun bankanna ekki verið hafin. Ísland árið 2004 hefði verið gott land.

Logo-svislé

Hannes kvað Davíð Oddsson hafa verið gagnrýndan fyrir stuðning Íslands við Íraksstríðið, en þar hefði verið um að ræða stuðningsyfirlýsingu við ákvörðun, sem aðrir hefðu tekið og Ísland ekki getað breytt neinu um. Hins vegar hefði Ísland getað stöðvað loftárásir Atlantshafsbandalagsins á Líbíu 2011, því að öll aðildarríki bandalagsins hefðu neitunarvald um slíkar aðgerðir, en það hefði vinstri stjórn þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar ekki gert. Hannes benti einnig á, að sala banka hefði hafist í tíð vinstri stjórnarinnar 1988–1991, þegar Íslandsbanki var stofnaður. Erindi Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna.

Ogmundur.12.11.2015
Ögmundur talar.

Ögmundur Jónasson sagðist vera af sömu kynslóð í stjórnmálum og Davíð, enda væru aðeins nokkrir mánuðir á milli þeirra í aldri. Þegar þeir hefðu hafið afskipti af stjórnmálum um og eftir 1970, hefði verið gróska á vinstri vængnum, en ládeyða hægra megin. Þetta hefði snúist við, þegar Davíð og félagar hans í Eimreiðarhópnum hefðu komið til sögu. Þeir hefðu flutt inn nýjar hugmyndir, skírskotað til Reagans og Thatchers, vitnað í Hayek, Friedman og Buchanan, á meðan vinstri menn hefðu staðnað. Davíð og félagar hans hefðu rofið þá samstöðu um frumgildi eins og velferð og samkennd, sem hefði verið almenn á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldar. Þeir hefðu stuðlað að ójafnari tekjudreifingu og tekið efnisleg gæði fram yfir andleg. Vilhjálmur Egilsson rifjaði upp, hvernig ástandið var, á meðan verðbólga geisaði á Íslandi fram undir lok níunda áratugarins og atvinnulífið var reyrt í viðjar. Ein ástæðan til þess, að nauðsynlegt hefði verið að selja ríkisbankana tvo upp úr aldamótum 2000 hefði einmitt verið, að hallað hefði á þá í samkeppni við hinn spræka ríkisbanka, sem myndaður hefði verið 1990. Enginn vafi væri á því, að rekstur margra fyrirtækja væri miklu betur kominn í höndum einkaaðila en embættismanna ríkisins. Vilhjálmur kvað hafa verið þægilegt að vinna með Davíð Oddssyni á þingi. Hann hefði verið afskiptalítill um störf þingmanna, en fljótur til ákvarðana og menn treyst orðum hans.

Eftir framsöguerindin voru umræður, og tóku ýmsir til máls. Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og ráðherra, kvaddi sér hljóðs og sagðist geta borið um það, að lítilmagninn hefði ætíð átt málsvara og stuðningsmann í Davíð Oddssyni. Guðni kvað þá Davíð hafa verið prýðilega samstarfsmenn í ríkisstjórn og þeir hefðu með tímanum orðið góðir vinir, en hann skildi ekki, hvers vegna Davíð hefði horfið frá stefnu Sjálfstæðisflokksins um tvíhliða viðræður við Evrópusambandið í stað aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu og frá hugmyndum sínum um dreifða eignaraðild bankanna að sölu þeirra til „kjölfestufjárfesta“. Hann teldi hins vegar, að Davíð hefði með forgöngu sinni í Seðlabankanum bjargað því, sem bjargað varð í bankahruninu. Hann hefði beitt sér fyrir þeirri lausn, sem varð ofan á og reyndist farsæl, að skilja á milli hins innlenda hluta bankakerfisins og hins erlenda. Af þessu tilefni lét Vilhjálmur Egilsson í ljós mikla undrun á því, að Davíð hefði verið flæmdur úr Seðlabankanum. Þótt hann hefði ekki alltaf verið sammála Davíð um vaxtastefnu bankans, hefði hann reynst vel sem seðlabankastjóri.

Fundurinn var tekinn upp, og hefur eitthvað á annað þúsund manns horft á hann á Youtube, en hann verður líka sýndur á sjónvarpsstöðinni ÍNN: