Viðtal við Hannes í Nýja Sjálandi

Prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, birti í júní 2017 grein í The Conservative, sem ECR (European Conservatives and Reformists) gefur út, og var hún um, hvers vegna smáþjóðir væru ríkari og hamingjusamari en stærri þjóðir. Greinin hefur vakið mikla athygli, og hafa jafnvel vinstri sinnaðir menntamenn vitnað í hana, til dæmis Nick Slater í Nýja Sjálandi. Hannes var sunnudaginn 15. desember 2019 í löngu viðtali við Nýsjálenska útvarpið, þar sem hann lýsti röksemdum fyrir smáríkjum: Oftast eru þau samleitari, gagnsærri og friðsamari en stærri ríki og með opnara hagkerfi, en það gerir þeim kleift að nýta kosti alþjóðlegrar verkaskiptingar og viðskipta. Í sumum þeirra, þar á meðal Norðurlöndum og Nýja Sjálandi, er réttarríkið líka öflugt. Aðalveikleiki smáríkja er á hinn bóginn varnarleysi þeirra gagnvart stærri og áleitnari grönnum (eins og Eystrasaltsríkin fundu eftir Griðasáttmála Hitlers og Stalíns árið 1939 og Tíbetar eftir seinni heimsstyrjöld). Berja má í þennan brest með bandalögum við stærri og voldugri ríki (eins og Ísland og Nýja Sjáland gera með bandalagi við Bandaríkin) og með bandalögum smáríkjanna sjálfra undir kjörorðinu: Sameinaðir stöndum við, sundraðir föllum við. Hannes benti á, að margt væri svipað með Íslendingum og Nýsjálendingum. Engilsaxneskar og norrænar stjórnmálahefðir væru náskyldar.