Fundur Mont Pelerin samtakanna í Stanford, janúar 2020

Frá v.: Ragnar, Birgir Þór og Hannes Hólmsteinn.

Þrír Íslendingar, prófessorarnir Ragnar Árnason, Birgir Þór Runólfsson og Hannes H. Gissurarson, sem allir sitja í Rannsóknaráði RNH, sóttu svæðisþing Mont Pelerin samtakanna í Stanford 15.–17. janúar, en forseti samtakanna, prófessor John Taylor, sá um þingið ásamt starfsliði Hoover-stofnunarinnar.

Guedes flytur ávarp sitt.

Í fyrsta kvöldverði fundarins spjallaði George Shultz, sem er 99 ára og hinn ernasti, um ástand og horfur í heimsmálum. Shultz var hagfræðiprófessor í Chicago og fjármálaráðherra og utanríkisráðherra Bandaríkjanna í forsetatíð Ronalds Reagans. Í öðrum kvöldverðinum sagði Paulo Guedes, fjárálaráðherra Brasilíu, frá metnaðarfullri umbótaáætlun sinni, en Guedes nam hagfræði í Chicago undir handleiðslu Miltons Friedmans. Í þriðja og síðasta kvöldverðinum talaði frumkvöðullinn Peter Thiel um atvinnulíf og stjórnmál á 21. öld.

Alejandro Chafuen og Hannes Hólmsteinn sóttu báðir sitt fyrsta þing Mont Pelerin samtakanna í Stanford 1980.

Á meðal annarra fyrirlesara voru Bruce Caldwell (ævisöguritari Hayeks), sem sagði frá stofnfundi samtakanna 1947, en hann var haldinn að frumkvæði Hayeks; David Henderson, sem rifjaði upp fund samtakanna í Stanford 1980; Skidelsky lávarður (ævisöguritari Keynes), sem sagði sína skoðun á helstu ágreiningsmálum hagfræðinga um þessar mundir; Niall Ferguson, sem harmaði úrættun réttarríkisins; John Cogan, sem varpaði fram hugmyndum um, hvernig greiða mætti upp skuldir hins opinbera í Bandaríkjunum; Samuel Gregg, sem taldi nauðsynlegt að dýpka skilning á siðferðilegum undirstöðum kapítalismans; Bridgett Wagner, sem greindi frá viðhorfum og verkefnum hinnar áhrifamiklu hugsmiðju Heritage Foundation í Washington-borg; og Borwick lávarður, fimmti barón Borwick, sem varði útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Í hádegisverði 17. janúar töluðu Axel Kaiser og Ernesto Silva um hið alvarlega ástand í Síle. Þar hafa vinstri-öfgamenn skipulagt götuóeirðir í því skyni að leggja að velli hið frjálsa hagkerfi landsins, sem myndaðist á áttunda og níunda tug síðustu aldar og hefur skilað betri árangri en önnur hagkerfi Rómönsku Ameríku. Virðast þeir vilja gera Síle að öðru Venesúela.

Thiel ræðir við Peter Robinson.