Fiskveiðar: Íslenska kvótakerfið gott fordæmi

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH,  flutti erindi á málstofu í atvinnumálaráðuneyti Perú í Lima 25. janúar 2016 um hagnýt úrlausnarefni um stjórn fiskveiða og hvað aðrar þjóðir gætu lært af reynslu Íslendinga. Kvað hann lykilinn að hagkvæmni íslenska kvótakerfis felast í því tvennu, að aflakvótarnir væru framseljanlegir, svo að þeir lentu í frjálsum viðskiptum í höndum þeirra, sem best gætu nýtt þá, og varanlegir, svo að útgerðarmenn hefðu hag af því að hámarka arðinn af auðlindinni til langs tíma.

Hannes flytur erindi sitt í atvinnumálaráðuneyti Perú.

Hannes ræddi líka hugtakið þjóðareign og sagði, að eðlilegast væri að skýra það svo, að fara mætti með auðlindir með langtímahag þjóðarinnar í huga, og það væri ekki gert með því að þjóðnýta auðlindir heldur með því að leyfa einkafyrirtækjum að nýta þær á sem hagkvæmastan hátt. Arðurinn dreifðist síðan á eðlilegan hátt um atvinnulífið. Húsfyllir var á málstofunni.

Hannes hefur nýlega gefið út bók á ensku hjá Háskólaútgáfunni um íslenska kvótakerfið frá siðferðilegu og stjórnmálalegu sjónarmiði, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable. Sú bók og erindi Hannesar í Lima eru hvort tveggja liðir í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur HHG í Lima 25. janúar 2016