Tvær skýrslur eftir Hannes

Hugveitan New Direction í Brüssel gaf í árslok 2016 út tvær rækilegar skýrslur á ensku eftir Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði. Önnur nefnist In Defence of Small States og er 82 bls. Þar svarar Hannes þeim fræðimönnum, sem telja Ísland of lítið til að standa eitt sér, svo að það þurfi skjól frá stórveldum eða ríkjabandalögum. Hann rifjar upp, að Marx og Engels og fleiri, þar á meðal sagnfræðingarnir Alfred Cobban og Eric Hobsbawn, létu svipaðar skoðanir í ljós, en bendir síðan á, að rekstrarkostnaður smáríkja þurfi alls ekki að vera meiri á mann en stórra ríkja, meðal annars vegna þess að löggæsla sé ódýr í samleitum og friðsælum löndum og hernaðarumsvif minni. Hann leiðir einnig rök að því, að Íslendingar hafi ekki sótt neitt skjól í Noreg og Danmörku, heldur fest sig í gildru, þegar konungur gerði samkomulag við landeigendastéttina íslensku um að halda sjávarútvegi niðri og einoka utanríkisverslun. Hannes telur rök Jóns Sigurðssonar fyrir sjálfstæði Íslands í fullu gildi. Aðal veikleiki smáríkja sé hins vegar varnarleysi þeirra, en það þurfi að leysa með bandalögum við stærri ríki, ekki með því að afsala sér sjálfstæði. Mörg sömu stefin endurtekur Hannes í ritgerð á íslensku, sem birtist í vetrarhefti Þjóðmála 2016.

Hin skýrslan nefnist The Nordic Models og er 107 bls. Þar heldur Hannes því fram, að norrænu leiðirnar séu ekki aðeins jafnaðarstefna, eins og stundum sé sagt. Velgengni Norðurlanda kunni að vera þrátt fyrir, en ekki vegna hárra skatta og víðtækrar tekjujöfnunar. Hannes rekur hinar öflugu frjálshygguhefðir á Norðurlöndum allt frá átjándu öld og hið mikla framfaraskeið í Svíþjóð 1870–1970, en þá var hagvöxtur hvergi örari. Þetta skeið og sambærileg á öðrum Norðurlöndum áttu rætur í auknu atvinnufrelsi. Hannes telur velgengni Norðurlanda aðallega stafa af rammgerðu réttarríki, óheftum alþjóðaviðskiptum og samleitni þjóðanna. Hann lýsir einnig frjálshyggjuhefðinni á Íslandi, en höfundar tveggja fyrstu hagfræðirita á íslensku, Arnljótur Ólafsson guðfræðingur og Jón Þorláksson verkfræðingur, skrifuðu báðir í anda frjálshyggju. Hannes andmælir einnig ýmsum túlkunum á umbótaskeiðinu 1991–2004 og íslenska bankahruninu 2008. Við samningu skýrslunnar studdist Hannes meðal annars við rannsóknir Johans Norbergs á sænskri frjálshyggju, prófessors Peters Kurrild-Klitgaards á danskri og prófessors Øysteins Sørensens á norskri, en einnig við nýlegt rit Nima Samandaji um Norðurlönd. Hannes mun kynna helstu niðurstöður skýrslunnar á þingi APEE, Association of Private Enterprise Education, í aprílbyrjun á Maui, einni af eyjum Havaí.