Frá v.: Grétar Þór Eyþórsson prófessor, Hannes, Stuart Wheeler, sendiherra Kanada, og Guðni Th. Jóhannesson dósent.
Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, tók 19. mars 2016 þátt í ráðstefnu á Akureyrium alþjóðamál, sem Háskólinn á Akureyri hélt. Þar sagði Hannes, að Ísland hefði aðeins um tiltölulega stutt skeið vakið áhuga annarra þjóða, þótt auðvitað hefðu aðrar þjóðir nýtt Íslandsmið og kostað hefði ærna rekistefnu að reka þær út þaðan. Ísland hefði verið hernaðarlega mikilvægt vegna nýrrar tækni, kafbáta, flugvéla og veðurfarslýsinga í seinni heimsstyrjöld og í Kalda stríðinu. Þetta hefði breyst eftir hrun heimskommúnismans. Berlega hefði komið í ljós í fjármálakreppunni 2008, að engilsaxnesku stórveldin hefðu misst áhuga á Íslandi. En þrátt fyrir það væri staður Íslands á Norður-Atlantshafinu og eðlilegustu bandamenn þess Norðmenn, Bretar, Kanadamenn og Bandaríkjamenn.
Á ráðstefnunni töluðu margir aðrir, þ. á m. Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði, um samskipti Íslendinga og Bandaríkjamanna 1976–1991, Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, um Icesave-deilu Íslendinga og Breta, og Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, um leitina að nýju jafnvægi í Norður-Evrópu. Þátttaka Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.