Uppboðsleiðin óskynsamleg

Gary Libecap flytur fyrirlestur sinn.

Uppboðsleið í sjávarútvegi er óþörf og óskynsamleg, enda búa Íslendingar nú þegar við hagkvæmt kerfi. Þetta var sameiginleg niðurstaða tveggja heimskunnra sérfræðinga, sem töluðu á ráðstefnu hagfræðideildar Háskóla Íslands, RNH og RSE um uppboð og aflareynslu 29. ágúst 2016. Gary Libecap, prófessor í hagfræði í Kaliforníuháskóla í Santa Barbara og einn þekktasti auðlindahagfræðingur heims, rakti í erindi sínu samnýtingarbölið (tragedy of the commons) í fiskveiðum: Við óheftan aðgang að fiskimiðum eykst sókn, uns allur arður er uppurinn. Takmarka þarf aðganginn, og það er eðlilegast að gera með því að úthluta eftir aflareynslu veiðiréttindum til þeirra, sem þegar stunda veiðar. Þá fer hin nauðsynlega breyting, sem felst í takmörkun aðgangs og minnkun sóknar, fram tiltölulega friðsamlega. Kvótakerfið íslenska hefði verið raunveruleg markaðslausn, en uppboð á veiðiréttindum hefði ekki gefist vel, þar sem það hefði verið reynt. Charles Plott, prófessor í California Institute of Technology, sem er sérfræðingur í tilraunahagfræði og hefur einkum skoðað uppboð, benti á það í pallborðsumræðum, að þegar væri til skilvirkt kerfi í íslenskum sjávarútvegi, kerfi framseljanlegra og ótímabundinna aflakvóta, og óþarfi að raska því. Uppboð á knöppum gæðum ættu stundum rétt á sér, en ekki í þessu dæmi.

Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði í Háskóla Íslands, andmælti í fyrirlestri sínum þremur villum, sem eru að sögn hans á kreiki í umræðum um fiskveiðimál: 1) að auðlindarentan þar fáist aðeins af auðlindinni einni saman, en sé ekki sköpuð að neinu leyti af útgerðarfyrirtækjunum; 2) að handhafar aflaheimilda njóti einir auðlindarentunnar í sjávarútvegi; og 3) að auðlindaskattur, hvort sem hann sé innheimtur beint eða á reglubundnum opinberum uppboðum á aflaheimildum, hafi engin áhrif á stærð auðlindarentunnar. Auk prófessors Plotts tóku þátt í pallborðsumræðum þeir dr. Tryggvi Þór Herbertsson, Helgi Áss Grétarsson, dósent í auðlindarétti, og Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, en Háskólaútgáfan gaf nýlega út bók eftir hann um málið, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem einnig er aðgengileg á Netinu.

Ráðstefnan var fjölsótt og vakti mikla athygli. Rækileg frásögn var af fyrirlestrum þeirra Libecaps og Ragnars Árnasonar í Morgunblaðinu 30. ágúst og viðtal við Charles Plott í sama blaði 15. september. „Ég skil ekki hvatann á bak við að trufla iðnað, sem gengur upp,“ sagði Plott. „Uppboð myndi vera mjög truflandi fyrir sjávarútveginn. Það skemmir fyrir hvötum fólks til að sækja sjóinn, það skemmir fyrir stofnunum í útvegi. Ef það er hægt að kaupa og selja kvóta á opnum markaði, verður á þeim markaði eðlileg þróun, þar sem hann færist frá þeim óskilvirku til þeirra skilvirku.“ Plott rakti einnig dæmi, þar sem uppboð væru skynsamleg. Þátttaka RNH í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

 

Glærur Garys Libecaps

Glærur Ragnars Árnasonar