Svæðisþing ESFL, European Students for Liberty, Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta, í Reykjavík 8. október 2016 heppnaðist vonum fram, ekki síst vegna þess að þrír framúrskarandi fyrirlesarar lögðu leið sína til Íslands og tóku þátt í þinginu. Dr. Nigel Ashford frá Institute for Humane Studies í Washington-borg lýsti fimm helstu skólum frjálshyggjumanna: Austurrísku hagfræðingunum Mises og Hayek, Chicago-hagfræðingunum, Friedman og Becker, almannavalsfræðingunum undir forystu James M. Buchanans, náttúruréttarsinnum eins og Robert Nozick og Ayn Rand, og stjórnleysingjum, Murray Rothbard og David Friedman. Stjórnleysingjar hafa oft bent á íslenska þjóðveldið 930–1262 sem dæmi um land, þar sem lögin réðu, en ekki ríkið.
Dr. Barbara Kolm frá Austurríska hagfræðisetrinu, Austrian Economics Center gerði grein fyrir skoðun frjálshyggjumanns á Evrópusambandinu. Hún lagði áherslu á, að óheftur innflutningur fólks rækist á velferðarríkið, ef í því felast félagsleg réttindi allra óháð framlagi. Kolm rifjaði upp, að Evrópusambandið hefði í upphafi verið stofnað til að verja fjórfrelsið, en nú hefði það breyst í eitthvert annað og ógeðfelldara fyrirbæri. Dr. Tom Palmer frá Atlas Network og Cato Institute kvað frelsið ekki aðeins felast í keppni eftir veraldlegum gæðum, heldur í því að axla ábyrgð á eigin lífi og rækta með sér hæfileika og komast til þroska. Hann ræddi um nokkur stef í nýútkominni bók sinni, Sjálfsvald eða ríkisvald: Þitt er að velja (Self-Control or State-Control: You Decide.)
Tveir ungir frambjóðendur, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir frá Sjálfstæðisflokknum og Pawel Bartoszek frá Viðreisn, skiptust á skoðunum um það, sem efst er á baugi. Heiðar Guðjónsson fjárfestir mælti nokkur lokaorð og kvaðst vera bjartsýnn um framtíðina. Stjórnarformaður RNH, Gísli Hauksson, bauð öllum ráðstefnugestum (sem voru um 120) í móttöku í húsakynnum eignastýringarfyrirtækisins Gamma. Þátttaka RNH í svæðisþinginu var liður í samstarfsverkefni með AECR, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.