RNH og AB (Almenna bókafélagið) hafa hafið endurútgáfu ýmissa rita, sem varða einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi, á Netinu í samstarfi við Atlas Network og ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna. Í ársbyrjun 2016 kom út bókin The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable eftir Hannes H. Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor, rannsóknastjóra RNH. Í janúar 2017 kom út eftir Hannes bókin Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör. Í febrúar 2017 kom út greinasafn frá 2014, Tekjudreifing og skattar, sem þeir Ragnar Árnason hagfræðiprófessor og Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent ritstýra. Aðrir höfundar eru Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur, Axel Hall hagfræðingur, Hannes H. Gissurarson og Helgi Tómasson tölfræðidósent. Höfundar ræða um vandkvæðin á að mæla tekjudreifingu (til dæmis með svonefndum Gini-stuðlum) og skilgreina fátækt skynsamlega. Til dæmis kann lengri meðalaldur, lægri lífeyrisaldur og lengri skólaganga allt að valda því, að tekjudreifing mælist ójafnari og hlutfallsleg fátækt meiri. Hvað sem því líður, reynist fátækt, jafnt töluleg (absolute) og tiltöluleg (relative) samkvæmt mælingum vera svipuð á Íslandi og á öðrum Norðurlöndum (þar sem hún er einna minnst í heimi) og tekjudreifing í svipuðu horfi líka. Ragnar Árnason vekur athygli á, að reikna verði út hreinan tekjuskatt (greiðslur að frádreginni opinberri þjónustu og bótum), en hann sé miklu fremur stighækkandi á Íslandi en hinn vergi. Birgir Þór Runólfsson ræðir hinar afdráttarlausu niðurstöður, þegar atvinnufrelsi er borið saman í ýmsum löndum: Allir, jafnt ríkir sem fátækir, eru betur komnir í hinum frjálsu hagkerfum. Nokkrir höfunda benda á, þar eð bætur séu tekjutengdar á Íslandi, að þá verði til skattagildrur, þar sem ekki borgi sig fyrir einstaklinga að auka við sig vinnu, því að þá missi þeir bætur. Þessar gildrur þurfi að fjarlægja án þess að greiða þeim bætur, sem þurfi ekki á þeim að halda.