Ragnar Árnason prófessor, formaður rannsóknaráðs RNH, var aðalfyrirlesari (keynote speaker) á ráðstefnu Fiskihagfræðingafélags Norður-Ameríku, North American Association of Fisheries Economists, sem haldin var í La Paz í Baja California í Mexíkó 22.–24. mars 2017. Erindi hans nefndist „Catch Shares: Potential for Optimal Use of Marine Resources“, Aflahlutdeild: Möguleikar á hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávarins. Sífellt fleiri þjóðir taka upp kerfi aflahlutdeildar í fiskveiðum, en íslenska kvótakerfið er eitt dæmi þess.
Ragnar verður einnig aðalfyrirlesari á ráðstefnuFiskihagfræðingafélags Evrópu, European Association of Fisheries Economists, sem haldin verður í kastalanum í Dyflinni á Írlandi 25.–27. apríl 2017, en þar talar hann um „Fishing rights“, einkaafnota- eða eignarréttindi til fiskveiða. Skýrsla, sem Ragnar birti árið 2009 ásamt tveimur öðrum höfundum á vegum Alþjóðabankans og FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, The Sunken Billions, Milljörðum sökkt, um sóun í sjávarútvegi, hefur vakið athygli og umræður um heim allan. Óhætt er að segja, að Ragnar sé ásamt Þráni Eggertssyni kunnasti hagfræðingur Íslendinga á alþjóðavettvangi.