Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, flutti fyrirlestur á málstofu um alþjóðamál á þingi NOPSA, Norrænu stjórnmálafræðingasamtakanna, í Óðinsvéum 8.–12. ágúst 2017. Fyrirlesturinn bar heitið Til varnar smáríkjum, „In Defence of Small States,“ þar sem Hannes reyndi að hrekja efasemdir, sem prófessorarnir Anne Sibert og Baldur Þórhallsson létu í ljós eftir bankahrunið íslenska 2008, um að Ísland fengi vegna smæðar sinnar staðist sem ríki. Hannes rifjaði upp, að þeir Rousseau, Marx og Engels og prófessor Alfred Cobban hefðu látið í ljós svipaðar efasemdir, og sneri sér síðan að þeirri röksemd Siberts, að kostnaðarsamara væri að reka lítil ríki en stór. Hannes benti á, að þetta væri ekki alltaf rétt. Útgjöld á mann til framleiðslu samgæða eins og löggæslu og landvarna væru lægri á Íslandi og öðrum Norðurlöndum en í mörgum fjölmennari ríkjum, til dæmis Bandaríkjunum og Bretlandi. Ástæðan væri, að smáríki væru iðulega samleit, samheldin, gagnsæ og friðsöm og nytu rótgróinna siða. Gagnsæið í smáríkjum minnkaði einnig líkurnar á „harðri“ spillingu eins og fjárkúgun og mútum, þótt eflaust yrðu eftir tækifæri til klíkuskapar og flokkshygli (en slíkrar „mildrar“ spillingar gætti líka í stórum ríkjum eins og Kína, Indlandi og Brasilíu). Sannleikurinn væri sá, að smáríki væru oft auðugri en stór ríki, ekki síst vegna þess að þau stunduðu frjálsa verslun. Samrunaþróunin í alþjóðaviðskiptum síðustu hálfa öldina hefði bætt hag smáríkja, jafnframt því sem hún hefði minnkað þörfina á samrunaþróun í stjórnmálum.
Hannes ræddi um skjólkenningu samkennara síns, Baldurs Þórhallssonar, fyrrverandi varaþingmanns Samfylkingarinnar og eins helsta talsmann ESB-aðildar á Íslandi. Baldur taldi Ísland þurfa skjól í Evrópusambandinu, ekki síst eftir að Bandaríkjamenn sneru við landinu baki. Hannes kvað Íslandssöguna sýna hið gagnstæða. Íslendingar hefðu komist að því, þegar þeir héldu sig komna í skjól norsku og síðar dönsku krúnunnar, að þeir hefðu í raun lent í gildru. Krúnan hefði einangrað þá, neytt upp á þá verslunareinokun og unnið með innlendum landeigendum að því að stöðva þróun sjávarútvegs. Afleiðingin hefði verið, að Íslendingar hefðu soltið, þótt allt væri fullt af fiski á hinum gjöfulu miðum í kringum landið. Krúnan hefði lítt skeytt um Ísland og þrisvar reynt að selja Hinrik VIII. Englandskóngi landið og einu sinni þýskum Hansakaupmönnum. Á 19. öld hefðu Danir velt því fyrir sér í fullri alvöru að bjóða Prússum Ísland í skiptum fyrir Norður-Slésvík. Þegar Svíar hefðu fengið Noreg í sárabætur fyrir Finnland, sem Rússar hefðu lagt undir sig, hefðu þeir ekki hirt um að krefjast Íslands með, jafnvel þótt það væri gamalt norskt skattland.
Hannes benti á, að orðið „skjól“ merkti venjulega var eða afdrep undan vondu veðri eða hættu. Þess vegna ætti það illa við um gagnkvæm og frjósöm menningartengsl þjóða, jafnt stórra og smárra. Það ætti ekki heldur við um gagnkvæm og ábatasöm viðskipti einstaklinga og fyrirtækja yfir landamæri. Sannleikskjarninn í skjólkenningunni væri hins vegar, að smáríki væru vegna takmarkaðs hernaðarstyrks veikburða og þyrftu því bandamenn og jafnvel verndara. Bandalag Íslands og Bandaríkjanna 1941–2006 um það, að Bandaríkin tækju að sér hervernd landsins gegn aðstöðu í landinu, hefði tekist vonum framar. Ísland ætti að reyna að endurvekja þetta bandalag og treysta um leið böndin við önnur grannríki í Norður-Atlantshafi, Noreg, Bretland og Kanada. Þetta þyrfti ekki að fela í sér, að tengslin við Evrópusambandið veiktust, enda væru lönd þess góðir viðskiptavinir. En því færi fjarri, að ESB hefði sama hernaðarmátt og Bandaríkin, og líklega færi samrunaþróunin innan þess í stjórnmálum ekki lengra. Hannes rifjaði upp, að Jón Sigurðsson, leiðtogi sjálfstæðisbaráttunnar, hefði viljað versla við marga aðila og ekki aðeins einn.
Fjörugar umræður urðu eftir fyrirlestur Hannesar, og stýrði þeim prófessor Anders Wivel frá Danmörku. Andmælandinn, prófessor Gunnar Fermann, lét í ljós ánægju með það, að þetta mikilvæga mál væri rætt á Íslandi. Hann kvaðst sjálfur taka undir margt í gagnrýni Hannesar á Evrópusambandið. Sverrir Steinsson, sem stundar framhaldsnám í stjórnmálafræði og hefur birt ritgerðir með Baldri Þórhallssyni um skjólkenninguna, lagði áherslu á, að kenningin væri óháð skoðunum manna á Íslandi um ESB. Hann taldi einnig, að Hannes hefði stundum sérvalið dæmi máli sínu til stuðnings. Aðrir þátttakendur í umræðunum veltu því fyrir, hvernig skilgreina bæri smáríki, hvort stór ríki, sem veittu smáríkjum skjól, krefðust ekki einhvers endurgjalds og hvort eðlilegasta skjólið eða vettvangurinn fyrir Ísland væri ekki með öðrum Norðurlöndum.
Hannes notaði tækifærið í Danmörku til að heimsækja 11. ágúst hinn kunna og virta sagnfræðing prófessor Bent Jensen, sem býr skammt frá Óðinsvéum. Árið 2012 var Jensen fyrsti fyrirlesari hins nýstofnaða Rannsóknarseturs, RNH. Hann hefur gefið út fjölda bóka um Stalín, Ráðstjórnarríkin og erindreka þeirra á Vesturlöndum og sögu Kalda stríðsins í Danmörku. Þeir Hannes og Jensen ræddu um, hvernig minnast bæri 100 ára afmælis bolsévíkabyltingarinnar rússnesku. Kommúnisminn hefði kostað um hundrað milljón mannslíf á 20. öld, og enn tórði hann í Norður-Kóreu og á Kúbu. Hannes fór frá Danmörku til Englands og heimsótti þar 14. ágúst Mervyn King lávarð, fyrrverandi seðlabankastjóra Breta. Hannes tók viðtal við King lávarð um hina alþjóðlegu fjármálakreppu 2007–9 og um íslenska bankahrunið, sem hann er að semja um skýrslu fyrir fjármálaráðuneytið. Fyrirlestur Hannesar á ráðstefnunni í Óðinsvéum og fundurinn með King lávarði voru þættir í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“, en fundurinn með prófessor Jensen var þáttur í öðru samstarfsverkefni sömu aðila um „Evrópu fórnarlambanna“.
Pétur Fjeldsted tók viðtal við Hannes um erindi hans í Óðinsvéum: