Margt kunnra ræðumanna verður á ráðstefnu Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta og Samtaka frjálslyndra framhaldsskólanema á Íslandi laugardaginn 30. september. Þar á meðal er prófessor David D. Friedman. Hann er sonur hins áhrifamikla hagfræðings Miltons Friedmans, en sjálfur kunnur fyrir róttæka markaðshyggju. Kallar David Friedman sig anarkó-kapítalista, því að hann telur einstaklinga geta með frjálsum viðskiptum leyst úr flestum eða öllum sínum málum. Friedman hefur mikinn áhuga á miðaldasögu og hefur meðal annars skrifað grein um íslenska þjóðveldið. Hann hefur gefið út bækurum lög og hagfræði og tvær skáldsögur. Á ráðstefnunni ræðir dr. Daniel Mitchell rökin fyrir skattalækkunum og prófessor Edward Stringham lýsir hlutverki frumkvöðla í frjálsu atvinnulífi.
David Friedman var fyrsti fyrirlesarinn hjá Félagi frjálshyggjumanna haustið 1979, en þá talaði hann um réttarvörslu í höndum einstaklinga, eins og tíðkaðist í íslenska þjóðveldinu. Daniel Mitchell hefur nokkrum sinnum komið til Íslands og haldið erindi um skattamál. Edward Stringham var einn af þeim, sem fengu sérstakan stúdentastyrk til að sækja ráðstefnu Mont Pelerin samtakanna í Reykjavík í ágúst 2005. Nokkrir aðrir ræðumenn kynna hreyfingu frjálslyndra stúdenta og helstu sjónarmið. Ráðstefnan er haldin í stofu V101 í Háskólanum í Reykjavík frá kl. 11 til 16. Allir eru velkomnir, á meðan húsrúm leyfir. Skráningargjald er 1.000 kr., og er í því innifalið kaffi, hádegisverður, kvöldfagnaður og bækur. RNH styður ráðstefnuna sem þátt í samstarfsverkefni með ACRE, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.