Hannes: Því studdu menntamenn alræði?

Tuttugasta öldin var best allra tíma, og hún var verst allra tíma, sagði dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, í erindi í Háskóla Íslands 26. apríl. Hún var öld hagsældar og framfara, en um leið fjöldamorða alræðissinna, nasista og kommúnista. Talið er, að um 120–125 milljónir manna hafi týnt lífi af völdum alræðisstefnunnar á nýliðinni öld, en hún réð líka miklu um örlög margra annarra. Erindi Hannesar var haldið í tilefni útkomu rits eftir hann, Totalitarianism in Europe: Three Cases Studies, Alræði í Evrópu: Þrjár rannsóknir, sem samið var að frumkvæði ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, sem liður í samstarfsverkefni við RNH, Europe of the Victims, Evrópu fórnarlambanna.

Hannes flytur erindi sitt. Ljósm. Ragnhildur Kolka.

Fyrst sagði Hannes frá Elinor Lipper, ungri og gáfaðri stúlku af gyðingaættum, sem gerðist kommúnisti og sendiboði Kominterns víða um Evrópu, jafnframt því sem hún átti í sambandi við ítalska skáldið Ignazio Silone. Hún fór til Rússlands 1937, en var svo óheppin, að þá voru hreinsanir Stalíns í kommúnistahreyfingunni að ná hámarki, og hírðist hún í þrælabúðum í ellefu ár. Hún var svissneskur ríkisborgari, og fyrir harðfylgi svissneskra yfirvalda var hún látin laus 1948 og skrifaði þá bók um reynslu sína, sem seldist vel og vakti mikla athygli. Voru útdrættir úr henni meðal annars birtir í Tímanum og Vísi, og hefur sá í Vísi nýlega verið endurútgefinn. Í rannsókn sinni komst Hannes að mörgu óvæntu um Lipper.

Þá sagði Hannes frá óvæntum endurfundum í sextugsafmæli Brynjólfs Bjarnasonar vorið 1958, þegar gyðingakona, Henny Goldstein-Ottósson, sem flúið hafði undan Hitler til Íslands 1934, sá skyndilega í veislunni þýskan nasista, sem hún hafði þekkt af illu einu á Íslandi fyrir stríð, dr. Bruno Kress. Lét hún í ljós óánægju sína, en málið var að sinni þaggað niður. Bróðir Hennyar, Siegbert Rosenthal, kona hans og sonur voru send í Auschwitz mánuði áður en Henny Goldstein og íslenskur maður hennar hefðu getað tekið á móti þeim. Voru konan og barnið myrt umsvifalaust, en Siegbert var valinn til þátttöku í svokölluðu „hauskúpusafni“ rannsóknarstofnunar SS-sveitanna, Ahnenerbe, og síðan myrtur. Svo einkennilega vildi til, að Bruno Kress var á Íslandi styrkþegi Ahnenerbe, en verkefni hans var að skrifa íslenska málfræði. Þá var hann æstur nasisti, en eftir stríð gerðist hann kommúnisti og forstöðumaður Norrænu stofnunarinnar í Greifswald-háskóla. Forstöðumaður Ahnenerbe var eftir stríð hengdur fyrir stríðsglæpi, en Kress varð heiðursdoktor frá Háskóla Íslands 1986.


Loks rifjaði Hannes upp þætti úr ævisögu Halldórs K. Laxness, sem var um árabil beittasti penni stalínismans á Íslandi. Hann skrifaði tvær lofgerðir um ferðir sínar til Ráðstjórnarríkjanna, Í austurvegi 1932 og Gerska æfintýrið 1938, en löngu seinna viðurkenndi hann, að hann hefði þar ekki sagt rétt frá. Hafði hann í seinni ferðinni meðal annars orðið í Moskvu vitni að réttarhöldunum yfir Búkharín og öðrum gömlum kommúnistum, sem Stalín neyddi til að játa á sig hinar furðulegustu sakir og lét síðan skjóta, og einnig að handtöku Veru Hertzsch heima hjá sér, þar sem Laxness var staddur, en hún var þýsk barnsmóðir íslensks námsmanns, sem búið hafði um skeið í Moskvu. Var Vera saklaus af öllu öðru en því að hafa um skeið verið gift manni, sem stalínistar töldu andstæðing sinn.

Hannes leitaði skýringa á því, hvers vegna margir menntamenn á tuttugustu öld aðhylltust alræðisstefnu og beittu sér gegn kapítalismanum, kerfi samkeppni og séreignar. Ein var skýring Schumpeters, að menntamenn væru firrtir og ábyrgðarlausir. Önnur var skýring Mises, að þeir byggjust við meiri frama í sósíalisma en kapítalisma. Hin þriðja er skýring Jouvenels, að menntamenn legðu fæð á markaðinn, því að þeir teldu sig ekki geta unnið eftir pöntun, heldur innri köllun. Hin fjórða er skýring Hayeks, að menntamenn ofmætu iðulega mátt skynseminnar til að umskapa skipulagið og vanmætu að sama skapi þá sjálfsprottnu þróun, sem ber ávöxt í kapítalismanum: Þeir skildu illa, að regla gæti komist á, án þess að nokkur hefði komið henni á. Taldi Hannes allar þessar skýringar eiga rétt á sér í dæmi Laxness, en aðallega þó skýring Hayeks.

Húsfyllir var á fyrirlestri Hannesar, sem Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands hélt. Bessí Jóhannsdóttir var fundarstjóri, en dr. Dalibor Rohac frá Slóvakíu, sérfræðingur American Enterprise Institute í Washington-borg í málefnum Mið- og Austur-Evrópu, veitti andsvar. Kvaðst hann hafa alist upp í alræðisríki og séð gaddavírinn og varðturnana úr stofuglugganum hjá sér í Bratislava. Örlagasögurnar, sem Hannes segði, væru átakanlegar og ættu að vera Vesturlandabúum umhugsunarefni. Á meðal þeirra, sem tóku til máls, voru Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntamálaráðherra, og Þór Whitehead, prófessor emeritus í sagnfræði.

Glærur Hannesar 26. apríl 2018