Í umhverfismálum ber að gera greinarmun á nýtingarstefnu (wise use environmentalism) og umhverfistrúarstefnu (ecofundamentalism). Nýtingarsinnar vilja hreint og óspillt umhverfi, en um leið skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda mannkyni til hagsbóta. Umhverfistrúarmenn halda því fram, að „náttúran“ sé manninum æðri, og krefjast friðunar (preservation) frekar en verndunar (conservation). Þetta sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, á umhverfisráðstefnu ACRE í Bibliotheque Solvay í Brüssel 24. maí 2018, en þar kynnti hann nýútkomið rit sitt, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Private Property Rights, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í árslok 2017. Ritið verður bráðlega aðgengilegt á Netinu.
Hannes kvað skýrt dæmi um muninn á nýtingarstefnu og umhverfistrúarstefnu varða „þokkafull risadýr“ (charismatic megafauna) eins og hval, fíl og nashyrning. Umhverfistrúarmenn virðast telja þessi dýr eins konar heilagar kýr og vilja alfriða þau. Nýtingarsinnar telja hins vegar skynsamlegast að úthluta nýtingarréttindum til þeirra aðila, sem helst hafa hagsmuna að gæta. Til dæmis ættu íbúar á fílaslóðum að eignast fílana og selja aðgang að þeim. Þá myndu veiðiþjófar breytast í veiðiverði með einu pennastriki.
Hannes benti á, að hvalastofnar, sem nýttir eru á Íslandsmiðum, langreyður og hrefna, eru síður en svo í útrýmingarhættu. Þeir éta um sex milljón lestir af sjávarmeti árlega, aðallega svifi og smáfiskum, en Íslendingar landa um einni milljón lesta af fiski. Þegar umhverfistrúarmenn krefjast alfriðunar, virðast þeir ætlast til, að Íslendingar beri kostnaðinn af slíkri friðun. Svipað er að segja um makríl. Evrópusambandið virðist ætlast til þess, að Íslendingar fóðri makrílinn, sem ratað hefur á Íslandsmið, en vill banna þeim að veiða hann.
Hannes lýsti líka íslenska kvótakerfinu, en fiskveiðar á Íslandsmiðum eru í senn sjálfbærar og arðbærar, á meðan víða annars staðar er stunduð rányrkja í hafi. Á meðal annarra ræðumanna á umhverfisráðstefnu ACRE var hinn kunni heimspekingur Sir Roger Scruton, sem samið hefur bókina Græna heimspeki og fjölda annarra verka. Í tengslum við ráðstefnuna birti Hannes greinar á Netinu um sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar og um verndun (en ekki friðun) þokkafullra risadýra.