Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson prófessor, birti árið 2017 tvær ritgerðir í bandaríska tímaritinu Econ Journal Watch í ritröð þess um frjálshyggju í ýmsum löndum. Fyrri ritgerðin var um sögu frjálshyggjunnar á Íslandi fram á ofanverða tuttugustu öld, og þar ræddi Hannes um hagfræðiskrif Jóns Sigurðssonar og Arnljóts Ólafssonar á 19. öld og Jóns Þorlákssonar, Benjamíns Eiríkssonar og fleiri á 20. öld. Arnljótur, Jón og Benjamín voru höfundar fyrstu hagfræðiritanna á íslensku. Þau voru Auðfræði (1880), Lággengið (1924) og Orsakir erfiðleikanna í atvinnu- og gjaldeyrismálunum (1938). Einnig tók tímaritið viðtal við Hannes (podcast). Seinni ritgerðinvar um efnahagsumbæturnar 1991–2004 og ólíkar skýringar á bankahruninu 2008. Þar eð Hannes vék þar að kenningum Stefáns Ólafssonar prófessors um fátækt og tekjudreifingu á Íslandi síðustu áratugi, veitti tímaritið Stefáni kost á að svara, og gerði hann það haustið 2017.
Nú er hausthefti Econ Journal Watch 2018 komið út með andsvari Hannesar við skrifi Stefáns, og rifjar höfundur þar upp, að Stefán hélt því fram fyrir þingkosningarnar 2003, að fátækt væri almennari á Íslandi en öðrum Norðurlöndum, og fyrir þingkosningarnar 2007, að tekjudreifing (eins og hún mældist 2004) væri ójafnari á Íslandi en öðrum Norðurlöndum. Hannes kveður gögn sýna, að hvort tveggja hafi verið rangt. Hann gagnrýnir einnig ýmsar fullyrðingar Stefáns Ólafssonar um bankahrunið, en Stefán vildi kenna Davíð Oddssyni um það að miklu leyti.