Árlega halda frjálslyndir menn og íhaldssamir í Bandaríkjunum, andstæðingar vinstri stefnu, eins konar uppskeruhátíð, bera saman bækur sínar og sýna kvikmyndir, í Las Vegas undir heitinu „Freedomfest“, frelsisveisla. Er hún mjög fjölmenn og fjölbreytni mikil í vali fyrirlesara og umræðuefna. Rithöfundurinn og fjárfestingarráðgjafinn prófessor Mark Skousen skipuleggur ráðstefnuna. Rannsóknastjóra RNH, prófessor Hannesi H. Gissurarsyni, var boðið að halda þar fyrirlestur 17. júlí 2019 um „grænan kapítalisma“, en um hann skrifaði Hannes bókarlanga skýrslu á ensku fyrir hugveituna New Direction í Brüssel 2017.
Í fyrirlestrinum gerði Hannes greinarmun á hófsamri umhverfisverndarstefnu (wise use environmentalism), þar sem stefnt er að sjálfbærri og arðbærri nýtingu náttúruauðlinda, og öfgaumhverfisstefnu (ecofundamentalism), þar sem náttúran er gerð að sjálfstæðum rétthafa æðri venjulegu fólki og stefnt að friðun frekar en verndun. Benti hann á, að öfgaumhverfisstefna bæri svip af ofsatrú og ætti sínar heilögu kýr eins og hindúasiður.
Ef markmiðið er hins vegar verndun, þá krefst hún raunverulegra verndara, sagði Hannes. Til dæmis er unnt að breyta veiðiþjófum í Afríku í veiðiverði með einu pennastriki: með því að gera þá að eigendum dýrastofna í útrýmingarhættu, svo sem fíla og nashyrninga, en bein fílanna og horn nashyrninganna eru eftirsótt. Raunhæfasta ráðið til að tryggja skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda er að skilgreina eigna- eða afnotaréttindi á þeim, koma þeim í umsjá. Í því sambandi lýsti Hannes stuttlega kvótakerfinu í íslenskum sjávarútvegi, en Íslendingar búa ólíkt flestum öðrum þjóðum við sjálfbært og arðbært kerfi í fiskveiðum.
Enn fremur gerði Hannes hvalveiðar að umtalsefni, en Bandaríkjamenn hafa lengi krafist þess, að Íslendingar hætti hvalveiðum. Virðast hvalir vera umhverfisöfgamönnum sem heilagar kýr. Hannes minnti á, að á Íslandsmiðum veiða Íslendingar árlega um og yfir einni milljón lesta (tonna) af fiski, en hvalir éta á sama tíma um sex milljónir lesta af sjávarfangi og fiski. Krafa öfgaumhverfissinna er með öðrum orðum, að Íslendingar fóðri hvalina á eigin kostnað, en fái ekki að veiða þá. Þeir verða þá eins og freki bóndinn, sem rekur sauði sína í bithaga annarra, en harðneitar grönnum sínum um nytjar af þeim. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni við ACRE, Samtök íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu, um kapítalisma 21. aldar.