Þegar leið fram á árið 2008, var ástandið á íslenska fjármálamarkaðnum viðkvæmt og stefndi í djúpa kreppu, eins og Íslendingar hafa stundum þurft að glíma við, en þrír erlendir áhrifaþættir felldu íslensku bankana og breyttu fyrirsjáanlegri kreppu í fullkomið hrun. Þessir áhrifaþættir voru, að bandaríski seðlabankinn skyldi neita íslenska seðlabankanum um lánalínur í dölum, á meðan hann veitti danska, sænska og norska seðlabankanum slíkar lánalínur; að Bretar skyldu neita breskum bönkum í íslenskri eigu um lausafjárfyrirgreiðslur, á meðan þeir veittu fjölda annarra banka slíka fyrirgreiðslu, til dæmis RBS og Lloyds; að Bretar skyldu að nauðsynjalausu setja hryðjuverkalög á íslenskt fyrirtæki með víðtækum afleiðingum fyrir önnur íslensk fyrirtæki. Þetta voru meginatriðin í fyrirlestri dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors á fjölmennri ráðstefnu Evrópskra frjálshyggjustúdenta, ESL, European Students for Liberty, sem haldin var í Humboldt-háskólanum í Berlín 14.–16. mars 2014.
Hannes vísaði einnig á bug algengum skýringum á bankahruninu íslensku.
1) Íslensku bankarnir voru ekki stærri hlutfallslega en hinir svissnesku, sem var bjargað, meðal annars með lánalínum í dölum frá bandaríska seðlabankanum. Höfðu svissnesku bankarnir þó gerst sekir um að farga skjölum um innstæður Gyðinga og stunda viðskipti við þjóðir á bannlista Breta og Bandaríkjamanna, meðal annars nokkur ríki á lista breska fjármálaráðuneytisins um hryðjuverkasamtak, þar sem Landsbankinn var um nokkurt skeið.
2) Íslensku bankamennirnir voru hvorki betri né verri en bankamenn erlendis, sem tóku stórkostlega áhættu, til dæmis með undirmálslánum í Bandaríkjunum, enda þurftu þeir síðan stórfé í ríkisaðstoð, jafnt lausafjárfyrirgreiðslu og aukið eigið fé. RBS og Lloyds, sem fengu aðstoð frá breska ríkinu, höfðu til dæmis ýmislegt misjafnt á samviskunni.
3) Íslenska bankahrunið var ekki vegna misheppnaðrar tilraunar til að framkvæma „nýfrjálshyggju“ á Íslandi, enda laut íslenski fjármálamarkaðurinn nákvæmlega sömu reglum og slíkir markaðir í öðrum aðildarríkjum EEA, Evrópska efnahagssvæðisins. Hannes viðurkenndi hins vegar, að tveir sérstakir áhættuþættir hefðu verið að verki á íslenska fjármálamarkaðnum, krosseignatengsl og óeðlileg skuldasöfnun einnar viðskiptasamsteypunnar, Baugsklíkunnar, eins og kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá 2010, og einnig sú staðreynd, að rekstrarsvæði bankanna var miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra, sem reyndist að lokum vera Ísland eitt — vegna þeirra erlendu úrslitaþátta, sem áður var um getið.
Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“, en á meðal styrktaraðila ráðstefnunnar var New Direction, sem er eins konar hugveita AECR. Lukas Schweiger stjórnaði fundinum með Hannesi. Á meðal annarra fyrirlesara á ráðstefnu ESL voru bandaríski heimspekingurinn dr. Tom Palmer og sænski sagnfræðingurinn og rithöfundurinn Johan Norberg, og var gerður góður rómur að máli þeirra. Aleksandar Kokotovic frá Belgrad-háskóla er formaður ESL, en Yaël Ossowski frá Vínarháskóla var aðalskipuleggjandi ráðstefnunnar. Þótti hún takast hið besta.