Hvað skýrir fjandskap Darlings?

Baugsbóla

Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu greindi réttilega tvær orsakir bankahrunsins: öran vöxt bankanna annars vegar og dulinn áhættuþátt inni í bankakerfinu hins vegar, en sá þáttur fólst aðallega í krosseignatengslum og uppblásnu eigið fé helstu skuldunauta bankanna, sem voru um leið helstu eigendur þeirra. Þó sást af tölum rannsóknarnefndarinnar, að Baugshópurinn var þar í sérflokki. Þetta sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor í fyrirlestri í Þjóðarspeglinum, ráðstefnu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, föstudaginn 31. október 2014. Hannes kvað rannsóknarnefndina þó ekki hafa gefið erlendum áhrifaþáttum hrunsins nægan gaum. Hún hefði lýst viðkvæmu ástandi, en kreppa þyrfti ekki alltaf að verða að hruni. Þrjár ákvarðanir, sem teknar hefðu verið erlendis, hefðu þar skipt miklu máli: sú ákvörðun bandaríska seðlabankans að neita hinum íslenska um gjaldeyrisskiptasamninga, á meðan gerðir voru slíkir samningar við seðlabanka allra annarra ríkja Vestur-Evrópu; sú ákvörðun ríkisstjórnar breska Verkamannaflokksins að neita breskum bönkum í eigu Íslendinga um lausafjárfyrirgreiðslu, á meðan allir aðrir breskir bankar fengu slíka fyrirgreiðslu; og sú ákvörðun Verkamannaflokksstjórnarinnar að setja hryðjuverkalög á íslensk fyrirtæki og stofnanir, en það gerði að engu allar vonir um endurreisn bankakerfisins í líkingu við það, sem varð í Svíþjóð eftir bankakreppuna 1991–1992.

Alistair Darling

Alistair Darling

Hannes kvað fróðlegt að lesa bók þá, sem Alistair Darling, þáverandi fjármálaráðherra Breta, hefði samið um hlut sinn í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu, Back from the Brink, sem kom út 2011. Þar minntist Darling nokkrum sinnum á Íslendinga, en mjög óvinsamlega. Hann héldi því til dæmis ranglega fram, að íslenskir ráðamenn hefðu ferðast um í risaþotum og að íslenskir fjármálamenn hefðu styrkt Íhaldsflokkinn breska. Enn fremur segði hann ónákvæmlega frá samtölum við íslenska ráðamenn, þar á meðal við Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, Geir H. Haarde forsætisráðherra og Árna Mathiesen fjármálaráðherra. Hann segði, að íslenskir ráðamenn hefðu annaðhvort leynt sig upplýsingum eða ekki vitað, hvað væri að gerast. Sjálfur hefði Darling hins vegar ekki vitað neitt um, hvað væri að gerast í skosku bönkunum, RBS, Royal Bank of Scotland, og HBOS, Halifax Bank of Scotland, sem orðið hefði að bjarga með stórum fúlgum af almannafé. Hannes benti á, að bresk þingnefnd hefði þegar árið 2009 komist að þeirri niðurstöðu, að Darling hefði skýrt rangt frá samtali sínu við Árna Mathiesen, skömmu áður en hryðjuverkalögin voru sett á Íslendinga, enda segði hann öðru vísi frá því í bókinni en hann hefði gert í fréttaviðtölum áður.

Logo-svislé

Hannes kvað þurfa að skýra augljósan fjandskap Darlings í garð Íslendinga. Ein skýring gæti verið, að íslensku bankarnir væru orðnir of stórir að hans mati. En hið sama ætti við um skoska banka, sem hefði vaxið ört og verið hlutfallslega mjög stórir miðað við Skotland. Önnur skýring gæti verið, að íslensku bankarnir hefðu í harðri samkeppni laðað að sér viðskiptavini og bakað sér óvild í breska bankaheiminum. Þriðja skýringin væri, að Darling hefði viljað sýna Skotum, að það borgaði sig ekki fyrir smáríki að standa eitt og óstutt í heiminum, en Darling var leiðtogi þeirra Skota, sem vildu halda fast í sambandið við England. Fyrirlestur Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur Hannesar 31. október 2014