Á ársfundi Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta í Berlín 10.–12. apríl 2015 var Hannes H. Gissurarson prófessor, forstöðumaður rannsókna RNH, einn fyrirlesara. Bar fyrirlestur hans titilinn „Minningabrot um þrjá meistara okkar daga: Hayek, Popper og Hayek“. Hannes rifjaði upp, að hann hitti fyrst ensk-austurríska hagfræðinginn Friedrich von Hayek í apríl 1980, þegar hinn aldni Nóbelsverðlaunhafi heimsótti Ísland. Næstu árin hitti hann Hayek oft, jaft á fundum Mont Pelerin samtakanna og í Oxford, þar sem Hannes vann að doktorsritgerð um stjórnmálakenningar Hayeks. Hayek var austurrískur aðalsmaður og fræðimaður í eðli sínu, sem aldrei sakaði andstæðinga sína um annarlegar hvatir, heldur reyndi ætíð að svara rökum þeirra efnislega. Hann sagði Hannesi, að hann væri auðvitað mjög ánægður með, að ungt fólk hefði áhuga á hugmyndum sínum, en það skyldi ekki gerast hayeksinnar, heldur varðveita gagnrýna hugsun sína.
Á árum sínum í Oxford heimsótti Hannes líka ensk-austurríska heimspekinginn Karl F. Popper á heimili hans í Penn í Buckingham-skíri og ræddi við hann um heimspeki og stjórnmál. Þeir ræddu meðal um, hvort Popper hefði verið sanngjarn í dómum sínum um Hegel og Marx í hinu mikla riti, The Open Society and Its Enemies. Hannes hitti fyrst Milton Friedman haustið 1980 og margsinnis eftir það, jafnt á fundum Mont Pelerin samtakanna og í Stanford-háskóla, þar sem Friedman var rannsóknarfélagi í Hoover-stofnun háskólans og Hannes var gistifræðimaður. Friedman heimsótti einnig Ísland haustið 1984 og tók þátt í sögulegum sjónvarpsþætti með þremur íslenskum jafnaðarmönnum. Hér er brot úr þeim þætti:
Hannes bar saman þessa þrjá öndvegishugsuði. Hann sagði, að Hayek hefði verið djúpsæjastur. Hugmynd hans um, að dreifing þekkingarinnar krefðist dreifingar valds og að menn gætu aðeins sigrast á óumflýjanlegri vanþekkingu sinni með því að nýta sér þekkingarmiðlun hins frjálsa markaðar og siða og venju, væri mjög mikilvæg. Popper hefði ef til vill verið raunsæjastur eða hófsamastur. Hann hefði viljað bæta úr áþreifanlegu böli, sem allir væru sammála um, hvert væri, til dæmis fátækt og sjúkdómar,, frekar en reyna að skapa hamingju, sem ágreiningur væri um, hvernig ætti að skilgreina. Friedman hefði verið skarpastur, eldfljótur að hugsa og eftir því mælskur, en um leið alvörugefinn og vandvirkur fræðimaður.
Á meðal annarra fyrirlesara á ráðstefnunni voru Sam Bowman frá Adam Smith stofnuninni í Lundúnum, sem lýsti kostum opinna landamæra, prófessor Pierre Garello frá Frakklandi, sem ræddi um hnattvæðingu og gagnrýna á hana, danski blaðamaðurinn Flemming Rose, sem varði prentfrelsi, dr. Tom G. Palmer, sem reifaði ýmis rök í væntanlegri bók sinni um frelsi, og enski Evrópusambandsþingmaðurinn Daniel Hannan, ritari AECR, Evópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, sem hélt því fram, að frjálslyndir menn ættu að ala með sér efasemdir um Evrópusambandið. Fimm íslenskir æskumenn sóttu ráðstefnuna, Ásgeir Ingvarsson blaðamaður, Þorsteinn Friðrik Halldórsson, hagfræðistúdent og formaður Frjálshyggjufélagsins, Ingvar Smári Birgisson, laganemi og formaður Heimdallar, Markús Árni Vernharðsson laganemi og Jón Axel Ólafsson viðskiptafræðinemi. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Hér er upptaka af fyrirlestri hans, en smella þarf í vinstra hornið á myndspilaranum og velja fyrirlestur númer átta, og afrit af glærum hans: