Fjörugur fundur um valdatíð Davíðs

Hannes hefur orðið.

Hannes hefur orðið.

Þeir Hannes H. Gissurarson prófessor, Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra Vinstri-grænna, og Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skiptust á skoðunum um valdatíð Davíðs Oddssonar á fundi Politica, félags stjórnmálafræðinema í Háskóla Íslands, fimmtudagskvöldið 12. nóvember. Troðfullt var í stórum fundarsal, og komust færri að en vildu. Hannes benti á, að Davíð hefði verið óvenju sigursæll stjórnmálamaður: Hann hefði aukið fylgi sitt sem borgarstjóri upp í rösk 60% árið 1990 og síðan verið lengst allra manna samtals og samfleytt forsætisráðherra. Tímamót hefðu orðið, þegar hann varð forsætisráðherra 1991. Sjóðasukki hefði verið hætt, stöðugleika komið á í peningamálum og ríkisfjármálum, lífeyrissjóðir efldir, réttindi fólks tryggð með stjórnsýslulögum og upplýsingalögum og landið verið opnað með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Þegar Davíð hefði vikið sem forsætisráðherra 2004, hefði skuldasöfnun bankanna ekki verið hafin. Ísland árið 2004 hefði verið gott land.

Logo-svislé

Hannes kvað Davíð Oddsson hafa verið gagnrýndan fyrir stuðning Íslands við Íraksstríðið, en þar hefði verið um að ræða stuðningsyfirlýsingu við ákvörðun, sem aðrir hefðu tekið og Ísland ekki getað breytt neinu um. Hins vegar hefði Ísland getað stöðvað loftárásir Atlantshafsbandalagsins á Líbíu 2011, því að öll aðildarríki bandalagsins hefðu neitunarvald um slíkar aðgerðir, en það hefði vinstri stjórn þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar ekki gert. Hannes benti einnig á, að sala banka hefði hafist í tíð vinstri stjórnarinnar 1988–1991, þegar Íslandsbanki var stofnaður. Erindi Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna.

Ogmundur.12.11.2015

Ögmundur talar.

Ögmundur Jónasson sagðist vera af sömu kynslóð í stjórnmálum og Davíð, enda væru aðeins nokkrir mánuðir á milli þeirra í aldri. Þegar þeir hefðu hafið afskipti af stjórnmálum um og eftir 1970, hefði verið gróska á vinstri vængnum, en ládeyða hægra megin. Þetta hefði snúist við, þegar Davíð og félagar hans í Eimreiðarhópnum hefðu komið til sögu. Þeir hefðu flutt inn nýjar hugmyndir, skírskotað til Reagans og Thatchers, vitnað í Hayek, Friedman og Buchanan, á meðan vinstri menn hefðu staðnað. Davíð og félagar hans hefðu rofið þá samstöðu um frumgildi eins og velferð og samkennd, sem hefði verið almenn á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldar. Þeir hefðu stuðlað að ójafnari tekjudreifingu og tekið efnisleg gæði fram yfir andleg. Vilhjálmur Egilsson rifjaði upp, hvernig ástandið var, á meðan verðbólga geisaði á Íslandi fram undir lok níunda áratugarins og atvinnulífið var reyrt í viðjar. Ein ástæðan til þess, að nauðsynlegt hefði verið að selja ríkisbankana tvo upp úr aldamótum 2000 hefði einmitt verið, að hallað hefði á þá í samkeppni við hinn spræka ríkisbanka, sem myndaður hefði verið 1990. Enginn vafi væri á því, að rekstur margra fyrirtækja væri miklu betur kominn í höndum einkaaðila en embættismanna ríkisins. Vilhjálmur kvað hafa verið þægilegt að vinna með Davíð Oddssyni á þingi. Hann hefði verið afskiptalítill um störf þingmanna, en fljótur til ákvarðana og menn treyst orðum hans.

Eftir framsöguerindin voru umræður, og tóku ýmsir til máls. Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og ráðherra, kvaddi sér hljóðs og sagðist geta borið um það, að lítilmagninn hefði ætíð átt málsvara og stuðningsmann í Davíð Oddssyni. Guðni kvað þá Davíð hafa verið prýðilega samstarfsmenn í ríkisstjórn og þeir hefðu með tímanum orðið góðir vinir, en hann skildi ekki, hvers vegna Davíð hefði horfið frá stefnu Sjálfstæðisflokksins um tvíhliða viðræður við Evrópusambandið í stað aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu og frá hugmyndum sínum um dreifða eignaraðild bankanna að sölu þeirra til „kjölfestufjárfesta“. Hann teldi hins vegar, að Davíð hefði með forgöngu sinni í Seðlabankanum bjargað því, sem bjargað varð í bankahruninu. Hann hefði beitt sér fyrir þeirri lausn, sem varð ofan á og reyndist farsæl, að skilja á milli hins innlenda hluta bankakerfisins og hins erlenda. Af þessu tilefni lét Vilhjálmur Egilsson í ljós mikla undrun á því, að Davíð hefði verið flæmdur úr Seðlabankanum. Þótt hann hefði ekki alltaf verið sammála Davíð um vaxtastefnu bankans, hefði hann reynst vel sem seðlabankastjóri.

Fundurinn var tekinn upp, og hefur eitthvað á annað þúsund manns horft á hann á Youtube, en hann verður líka sýndur á sjónvarpsstöðinni ÍNN: