Prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, flytur fyrirlestur um „Bankahrunið í sögulegu ljósi“ á hádegisfundi Sagnfræðingafélagsins í Þjóðminjasafninu 17. október kl. 12–13. Þar beinir Hannes sjónum að þeim lærdómum, sem Íslendingar geta dregið af bankahruninu 2008 um stöðu sína í heiminum. Ísland var þá skilið eftir úti í kuldanum. Evrópskir seðlabankastjórar sammæltust um það í maíbyrjun 2008 að veita íslenska seðlabankanum ekki aðgang að lausafé. Bandarískir ráðamenn höfðu misst áhuga á Íslandi, enda töldu þeir hernaðargildi landsins allt að því horfið. Tveir skoskir stjórnmálamenn, Gordon Brown og Alistair Darling, þurftu óvin til að sýna, hversu harðir þeir væru í horn að taka, en jafnframt til að leiða athygli frá því, að þeir voru að bjarga tveimur illa stöddum skoskum stórbönkum, og ekki síður til að sýna Skotum, hversu illa færi, yrðu þeir sjálfstæðir.
Ísland virtist 2008 aftur vera komið á þann stað, sem það skipaði öldum saman: Danakóngur reyndi fjórum sinnum að selja landið, en enginn vildi kaupa, og danska stjórnin velti einu sinni fyrir sér að skipta á Íslandi og Norður-Slésvík; Svíakóngur hafði ekki fyrir því, þegar hann tók Noreg af Dönum 1814, að krefjast Íslands með, þótt það væri fornt norskt skattland; Bretastjórn hafnaði mörgum hugmyndum á 18. og 19. öld um að taka Ísland; hugmyndir um kaup á Íslandi voru hlegnar niður í Bandaríkjaþingi 1868. Í bankahruninu veittu Norðurlandaþjóðirnar Íslendingum ekki heldur neinn stuðning. Einu vinir Íslendinga í raun voru Færeyingar og Pólverjar.
Hannes H. Gissurarson lauk BA-prófum í sagnfræði og heimspeki og cand. mag. prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands og doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla. Hann hefur undanfarin ár fengist við rannsóknir á bankahruninu og er að ljúka skýrslu fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti þess. Hann hefur í því sambandi rætt við marga innlenda og erlenda áhrifamenn, þar á meðal Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, Davíð Oddsson, Ingimund Friðriksson og Eirík Guðnason, fyrrv. seðlabankastjóra, Alistair Darling, fyrrv. fjármálaráðherra Breta, Mervyn King, fyrrv. seðlabankastjóra Breta, og Stefan Ingves, seðlabankastjóra Svíþjóðar.
Fyrirlestur Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um „Evrópu, Ísland og framtíð kommúnismans“.