Óeirðir á Austurvelli í kjölfar bankahrunsins.
Vorhefti tímaritsins Þjóðmála 2017 er komið út. Þar er löng og rækileg grein á ensku eftir rannsóknastjóra RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, um bók enska blaðamannsins Rogers Boyes, Meltdown Iceland, Ísland bráðnað, en hún var fyrsta bókin, sem birtist á ensku um bankahrunið og hefur mótað skoðanir margra útlendinga á því. Helstu heimildarmenn Boyes á Íslandi voru að sjálfs hans sögn hagfræðingarnir Þorvaldur Gylfason, Gylfi Magnússon og Katrín Ólafsdóttir. Hannes bendir hins vegar á ýmsar villur, smávægilegar og stórvægilegar, í bók Boyes. Til dæmis segir Boyes, að faðir Björgólfs Guðmundssonar hafi verið forstjóri Skeljungs, en tengdafaðir hans gegndi þeirri stöðu. Hann kveður einnig Jón Steinar Gunnlaugsson hafa orðið forseta Hæstaréttar, en það varð hann aldrei.
Hannes lýsir því í grein sinni, hvernig Boyes taki bókstaflega ýmsar goðsagnir, sem íslenskir blaðamenn hafi smíðað, oft að erlendri fyrirmynd, til dæmis um kolkrabba, sem stjórnað hafi íslensku atvinnulífi fyrir 1990. Sannleikurinn sé sá, að hópurinn, sem þar er átt við, hafi aðeins stjórnað einu af tíu stærstu fyrirtækjum landsins um áratugar skeið, enda voru önnur stórfyrirtæki flest ríkisfyrirtæki, samvinnufyrirtæki eða sölusamtök. Boyes segi einnig sögu um, hvernig þeir Davíð Oddsson og Milton Friedman hafi hist, en þeir hafi aldrei hist. Einnig haldi Boyes því fram, að útgefendur bóka Davíðs (Ólafur Ragnarsson og Pétur Már Ólafsson) hafi þess vegna notið sérstakrar fyrirgreiðslu, sem enginn kannast við.
Boyes endurtekur að sögn Hannesar margvíslegan misskilning um íslenska kvótakerfið, til dæmis að ríkið hafi fært útgerðarmönnum fiskistofnana að gjöf. Eini rétturinn, sem aðrir landsmenn hafi verið sviptir, segir Hannes, þegar fiskveiðar voru bundnar við handhafa kvóta, var rétturinn til að gera út án nokkurs arðs, eins og fiskihagfræðingar hafi sýnt fram á. Frásögn Boyes af Icesave-deilunni sé einnig lituð af sjónarmiði bresku Verkamannaflokksstjórnarinnar, sem setti að nauðsynjalausu hryðjuverkalög á Íslendinga í miðju bankahruninu. Margt fleira kemur fram í grein Hannesar, sem vinnur að skýrslu fyrir fjármálaráðuneytið um íslenska bankahrunið.