RNH á aðild að Evrópuvettvangi minningar og samvisku, sem heldur á lofti minningunni um fórnarlömb kommúnismans og annarra alræðisstefna. Mánudaginn 26. mars átti Evrópuvettvangurinn þátt í því ásamt Ján Langoš stofnuninni í Bratislava í Slóvakíu að veita verðlaun Joachim Gauck, forseta Þýskalands 2012–2017 og áður yfirmanni stofnunar, sem geymir skjöl Stasi, leynilögreglu kommúnista á hernámssvæði Rússa í Þýskalandi (Austur-Þýskalandi). Gauck hlaut verðlaunin fyrir ódeiga baráttu sína gegn alræðisstefnu jafnt fyrir og eftir hrun Berlínarmúrsins. Ján Langoš, sem verðlaunineru kennd við, var andófsmaður í Slóvakíu undir stjórn kommúnista, innanríkisráðherra Tékkóslóvakíu 1990–1992 og forstöðumaður Minningarstofnunar Slóvakíu í Bratislava frá 2003. Hann lést í bílslysi 2006, þegar hann var á leið í réttarsal að bera vitni gegn fyrrverandi leynilögreglumönnum. Á meðal annarra verðlaunahafa eru Dalai Lama, leiðtogi frelsisbaráttu Tíbets, Václav Havel, fyrrverandi forseti Tékkóslóvakíu, og Sandra Kalniete, Evrópuþingmaður fyrir Lettland.