Með auknum frjálsum alþjóðaviðskiptum hefur orðið hagkvæmara en áður að reka smærri stjórnmálaeiningar, því að þær njóta eftir sem áður góðs af alþjóðlegri verkaskiptingu, sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, á Frelsisvettvangi ECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, í Kænugarði í Úkraínu 7.–10. nóvember 2019. Það hljómaði eins og þversögn, en væri deginum ljósara, að samrunaþróun í efnahagsmálum auðveldaði sundrun ríkja. Sérstakar þjóðir vildu líka stofna eigin ríki: Noregur hefði skilið við Svíþjóð, Ísland við Danmörku, Slóvakía við Tékkland og Úkraína við Rússland, af því að Norðmenn eru ekki Svíar, Íslendingar ekki Danir, Slóvakar ekki Tékkar og Úkraínumenn ekki Rússar. Þess vegna hefði sjálfstæð Úkraína í senn verið hagkvæm og eðlileg. Vandinn við smærri stjórnmálaeiningar væri hins vegar í öryggismálum. Hvernig gæti Úkraína tryggt öryggi sitt gagnvart voldugum og ásælnum granna í norðri? Það svar lægi beinast við, að Úkraína héldi uppi öflugum herafla og torveldaði þannig árásir og ásælni.
En líka væri til önnur leið, sagði Hannes: Hún væri að breyta Rússlandi innan frá með því að veita því gott fordæmi utan frá, svipað og Hong Kong hefði gert gagnvart Kína. Úkraína þyrfti að verða blómlegt ríki, og ráðin til þess væru gamalkunn: að efla atvinnulífið, selja ríkisfyrirtæki, lækka skatta, greiða upp ríkisskuldir, dreifa valdinu, veita skapandi einstaklingum svigrúm og opna hagkerfið. Þetta hefði verið gert á Íslandi árin 1991–2004, og þess vegna hefði hagkerfið verið nógu sterkt til að standast bankahrunið 2008 og rétta tiltölulega fljótt við. Menn hefðu áhyggjur af stjórnmálaspillingu í Úkraínu og eflaust ekki að ástæðulausu, bætti Hannes við. En spillingu mætti minnka með því að flytja ákvarðanir frá skriffinnum og stjórnmálamönnum til einkaaðila, sem rækju fyrirtæki sín á eigin ábyrgð. Ef Úkraínumenn mætu það svo, að ekki væri tímabært að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu, þá gætu þeir hugsanlega látið sér nægja að sinni að ganga í EES, Evrópska efnahagssvæðið, eins og Ísland hefði gert. Þótt Ísland og Úkraína væru ólík um margt, væru þau bæði lönd á útjaðri Evrópu.
Anna Fotyga, Evrópuþingmaður frá Póllandi og fyrrverandi utanríkisráðherra lands síns, setti ráðstefnuna í Kænugarði og kvaðst vera mjög áhugasöm um nánara samstarf Úkraínu og annarra Evrópulanda. Mústafa Dzhemílev, leiðtogi Krím-tatara, veitti viðtöku frelsisverðlaunum ECR, en á meðal annarra ræðumanna á ráðstefnunni voru Oleksíj Gontsjarenko, þingmaður á Úkraínuþingi, og James Wharton, fyrrverandi ráðherra í bresku ríkisstjórninni og kosningastjóri Borisar Johnsons í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins. Þátttaka Hannesar í ráðstefnu ECR var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „blágrænan kapítalisma“.