Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, gagnrýndi kenningar Johns Rawls og Tómasar Pikettys í erindi á Frjálsa sumarskólanum, sem Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema efndi til í Reykjavík 1. júní. Var erindið að mestu leyti sótt í skýrslu, sem Hannes hefur tekið saman fyrir hugveituna New Direction í Brüssel. Hannes kvað Rawls hafa rangt fyrir sér um það hvort tveggja, að menn ættu ekki tilkall til þeirra misjöfnu tekna, sem þeir öfluðu sér með misjöfnum hæfileikum sínum, og að til væri einhvers konar sjóður, sem biði dreifingar. Rawls spyrði, við hvaða kerfi hinir verst settu yrðu sem best settir: Hann vildi hámarka lágmarkið. En í því fælist, að kenning hans væri í rauninni ekki um réttlæti, heldur um hyggindi, sem í hag kæmu. Það væri hins vegar fróðleg spurning, við hvaða kerfi hinir verst settu yrðu sem best settir, og leiða mætti rök að því, að það væri við frjálst hagkerfi svipað því sem Adam Smith hefði hugsað sér.
Hannes sagði Piketty um það ólíkan Rawls, að hann virtist hafa miklu meiri áhyggjur af því, að sumir væru ríkir, en af hinu, að einhverjir væru fátækir. Það væri skrýtið, því að fátækt væri böl, en auðlegð blessun, þegar hún væri ekki á kostnað annarra. Fátækt hefði snarminnkað í heiminum síðustu áratugi. Piketty vildi alþjóðlega ofurskatta á hátekjufólk og stóreignamenn í því skyni að jafna tekjudreifinguna í heiminum. En hann horfði fram hjá því, að margvísleg ríkisafskipti, til dæmis úthlutun einkaleyfa og ríkisábyrgð á bönkum, stuðluðu að ójafnri tekjudreifingu. Hann tæki ekki heldur tillit til þess, að lífeyrissjóðir ættu mörg atvinnufyrirtæki. Þegar hann talaði um fjármagn, undanskildi hann enn fremur mannauð (human capital), sem dreifðist áreiðanlega jafnar á menn en annað fjármagn. Gögn sýndu að auki, sagði Hannes, að síðustu áratugi hefur þorri efnamanna skapað auð sinn sjálfur, en ekki þegið hann að erfðum. Hannes benti á, að Piketty vitnaði oft í skáldsögu Balzacs, Föður Goriot. En hún sýndi einmitt, hversu fallvaltur auðurinn væri: Helstu söguhetjurnar væru allar á valdi ástríðna og sólunduðu fé sínu. Hvað sem því liði, væri aðalatriðið ekki að reyna að stækka eina sneið og minnka aðra, heldur að tryggja, að bakaríið væri í fullum gangi.
Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema hélt sumarskólann í samstarfi við RNH, Institute of Economic Affairs í Lundúnum og Foundation of Economic Education í New York-ríki. Júlíus Viggó Ólafsson og Hermann Nökkvi Gunnarsson sáu um skipulagninguna. Aðrir fyrirlesarar voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Christopher Snowdon, Gunnlaugur Jónsson, Halldór Benjamín Þorbergsson, Jóhannes Stefánsson, Magnús Örn Gunnarsson og Piotr Markiełaŭ. Skólinn var fjölsóttur, og að loknum erindunum var margs spurt.