Smáríki eru oftast skilvirkari og viðráðanlegri einingar en stórveldi, sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, í fyrirlestri 19. ágúst 2019 á málstofu um smáríki í Sumarháskólanum í stjórnmálahagfræði í Aix-en-Provence. Til dæmis eru smáríki oftast samleitari, svo að friður er þar meiri og löggæslu- og hernaðarkostnaður lægri. Hannes kvað það enga tilviljun, að ríkustu lönd heims teldust smáríki, Noregur, Sviss og Ísland í Evrópu og Singapúr og Hong Kong í Austurálfu. Hann benti á, að með frjálsum alþjóðaviðskiptum gætu smáríki hagnýtt sér kosti hinnar alþjóðlegu verkaskiptingar og þess vegna gætu stjórnmálaeiningar orðið að sama skapi minni. Samrunaþróun í efnahagsmálum hefði í för með sér sundrunarþróun í stjórnmálum, ef svo mætti segja, enda hefði ríkjum heims snarfjölgað á síðari helmingi tuttugustu aldar. Alvarlegasti ókostur smæðarinnar væri hins vegar vanmáttur í öryggis- og varnarmálum, eins og dæmi ríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu fyrir seinni heimsstyrjöld hefði sýnt. Smáríki yrðu því að reyna að tryggja öryggi sitt með bandalögum við öflugri ríki, eins og gert væri í Atlantshafsbandalaginu. Hannes gaf nýlega út skýrsluna In Defence of Small States.
Auk Hannesar talaði prófessor Carlo Lottieri á málstofunni og fór nokkrum orðum um Sviss, sem væri eitt auðugasta og skilvirkasta ríki Evrópu. Sérstöðu þess mætti rekja allt til miðalda, þegar Svisslendingar fóru aðra leið en flestar Evrópuþjóðir og dreifðu valdinu, ekki aðeins til kantóna, heldur líka til einstakra byggða, Gemeinde. Svissneskt atvinnulíf hefði þess vegna verið laust við afskipti og áþján kónga, keisara og páfa og getað vaxið í friði. Skattlagningu opinerra aðila væru þar settar þröngar skorður, og eignarréttur einstaklinga væri virtur. Þátttaka Hannesar í Sumarháskólanum var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Blágrænan kapítalisma“. Í samsæti, sem borgarstjórinn í Aix-en-Provence hélt kennurum og nemendum í Sumarháskólanum í ráðhúsi borgarinnar 20. ágúst, var Íslandsvinurinn dr. Tom Palmer frá Atlas Network sæmdur heiðursmerki borgarinnar, og flutti hann tölu við það tækifæri um hættuna af lýðskrumi (right-wing populism).