Prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson, umsjónarmaður rannsókna RNH, flutti fjóra fyrirlestra á ráðstefnum á Norðurlöndum í ágúst. Á árlegri ráðstefnu norrænu stjórnmálafræðingasamtakanna, Nordic Political Science Association, í Gautaborg í Svíþjóð 12.–15. ágúst ræddi hann um þrjú efni. Eitt var Icesave-deilan á málstofu um „International Courts and Domestic Politics“, sem Johan Karlsson Schaffer stýrði. Þar gerði Hannes að umtalsefni afstöðu Norðurlandaþjóða og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, tilraunir til samninga, úrskurð EFTA-dómstólsins og áhrif málsins á íslensk stjórnmál. Andmælandi var Matthew Saul, sem stundar rannsóknir í laga- og mannréttindastofnun Oslóarháskóla. Kvað hann koma sér á óvart, hversu fúsir sumir íslenskir stjórnmálamenn hefðu verið til að fara frekar samninga- en dómstólaleiðina.
Annað efnið var íslenska bankahrunið á málstofu um „International Political Theory“, sem Göran Duus-Otterström stýrði. Þar lýsti Hannes því, hvernig smáþjóðir hefðu jafnan orðið að sætta sig við forræði stærri þjóða. Ísland hefði á 20. öld aðallega hallað sér að Bretlandi og Bandaríkjunum. Landið hefði hins vegar reynst vera vinalaust haustið 2008. Bandaríski seðlabankinn hefði gert gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur, en neitað seðlabanka Íslands um slíkan samning. Bretar hefðu neitað íslenskum bönkum í Bretlandi um aðild að aðstoð við banka í lausafjárvanda, sem veitt var í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, og bætt gráu ofan á svart með því að beita hryðjuverkalögum á einn bankann og jafnvel um skeið á seðlabankann íslenska og fjármálaeftirlitið. Andmælandi var Aaron Maltais, sem stundar rannsóknir í stjórnmálafræðideild Stokkhólmsháskóla. Efaðist hann um, að íslensku bankarnir hefðu verið með öllu saklausir af bankahruninu. Einsdæmi væri, að bankar yxu svo hratt.
Þriðja efnið var íslenska velferðarríkið í bólu og bankahruni á málstofu, sem Anders Lindbom stýrði. Þar lýsti Hannes þróun áranna 1991–2004, þegar miklar breytingar urðu á íslenska hagkerfinu, sérstaklega áhrifin á tekjuskiptingu og lífskjör. Hann færði rök fyrir því, að þá hefðu Íslendingar ekki vikið af hinni norrænu leið á hina engilsaxnesku, eins og oft hafi verið haldið fram, heldur markað sér séríslenska leið. Fátækt og útskúfun hefði verið minni á Íslandi en víðast annars staðar. Andmælandi var Stephan Köppe, sem stundar rannsóknir á norrænum velferðarríkjum í Dundee-háskóla í Skotlandi. Saknaði hann rækilegrar greinargerðar um einstök atriði velferðaraðstoðar á Íslandi. Fyrirlestrar Hannesar voru þættir í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.
Á 28. norræna sagnfræðingamótinu í Joensuu í Finnlandi 14.–17. ágúst flutti Hannes fyrirlestur á sérstakri málstofu um meginstef mótsins, „Mörk og mæri á Norðurslóðum“ (Crossovers – Borders and Encounters in the Nordic Space). Fundarstjóri var finnski sagnfræðingurinn Jouko Nurmiainen. Fyrirlestur Hannesar var um einkennileg örlög tveggja Þjóðverja, sem dvöldust á Íslandi fyrir stríð. Annar var nasisti, dr. Bruno Kress, sem kenndi þýsku og stundaði rannsóknir á íslensku á vegum Ahnenerbe, rannsóknarstofnunar SS. Hinn var flóttamaður af gyðingaættum, Henný Goldstein, sem kom hingað með son sinn og móður. Öðrum bróður Hennýar tókst líka að komast til Íslands fyrir stríð, en hinn lét lífið í rannsókn, sem Ahnenerbe gerði á höfuðlagi og hauskúpum gyðinga í Natzweiler-fangabúðunum nálægt Strassborg. Þegar Bretar hernámu Ísland, handtóku þeir Kress og vistuðu á eynni Mön, uns hann var sendur til Þýskalands í fangaskiptum. Henný giftist hins vegar íslenskum manni og gerðist íslenskur ríkisborgari. Vorið 1958 bar fundum þeirra Kress og Hennýar aftur saman í sextugsafmæli Brynjólfs Bjarnasonar. Kress var þá orðinn kommúnisti og háskólakennari í Austur-Þýskalandi, en eiginmaður Hennýar var frammámaður í Sósíalistaflokknum. Varð uppnám við þessa óvæntu endurfundi, og hlutust af blaðaskrif og bréfaskipti milli Kress og Einars Olgeirssonar. Árið 1986 lést Henný, og sama ár veitti Háskóli Íslands Kress heiðursdoktorstitil. Hannes hefur skrifað ritgerð á íslensku um þessa einkennilegu endurfundi. Erindi hans er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.
Hannes segir, að fyrirlestrarnir hafi að vísu verið um ólík efni, en eitt meginstef þeirra hafi þó verið, að hið veika geti lifað hið sterka af, mýktin staðist hörkuna. Þrautseigja og þolinmæði hafi reynst Íslendingum best í Icesave-deilunni, og þrátt fyrir allt hafi alræðisstefnur tuttugustu aldar lotið í lægra haldi fyrir lýðræðisþjóðunum og múrar víða hrunið.
Glærur Hannesar í Gautaborg 13. ágúst 2014
Gærur Hannesar að morgni 14. ágúst 2014