Ein eftirminnilegasta heimildin um tuttugustu öld er sjálfsævisaga Jans Valtins, sem hét réttu nafni Richard Krebs, Out of the Night, á íslensku Úr álögum, sagði rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, í fyrirlestri á ráðstefnu um Valtin í Poitiers í Frakklandi 14.–15. nóvember 2019. Krebs var fæddur 1905 og gerðist ungur erindreki hinnar alþjóðlegu kommúnistahreyfingar og síðan gagnnjósnari hjá þýsku leynilögreglunni, Gestapo, en flýði til Bandaríkjanna 1938. Sjálfsævisaga hans var metsölubók í Bandaríkjunum, og urðu harðar deilur um hana á Íslandi sumarið og haustið 1941, áður en fyrri hluti hennar kom út á vegum MFA, Menningar- og fræðslusambands alþýðu, sem jafnaðarmenn stjórnuðu. Halldór K. Laxness rithöfundur birti harða árás á Valtin, en Benjamín H. J. Eiríksson hagfræðingur kvað bókina flytja sannleik. Benjamín hafði orðið afhuga stalínisma í dvöl sinni í Ráðstjórnarríkjunum árin 1935–1936. Íslenskum kommúnistum tókst með herferð sinni gegn Valtin að tefja útkomu seinni hlutans til ársins 1944, og treysti MFA sér ekki til að gefa hann út, heldur gerðu það „Nokkrir félagar“. Hafði fyrri hlutinn þó selst í rösklega fjögur þúsund eintökum.
Rannsóknir hafa leitt í ljós, að margar staðhæfingar Valtins voru réttar, til dæmis að skipverjar á skipum Eimskipafélagsins hafi flutt leyniskjöl Kominterns, Alþjóðasambands kommúnista, á milli landa og að danski verkalýðsleiðtoginn Richard Jensen hafi verið flugumaður Kominterns. Þrátt fyrir ýmsar ýkjur og einhverja ónákvæmni sé bók Valtins mikilvæg til skilningsauka á tuttugustu öld, sagði Hannes. Hann sá um endurprentun bókarinnar árið 2015 og skrifaði formála og skýringar.
Á ráðstefnunni sagði sænski blaðamaðurinn Dennis Renfors frá dvöl Valtins í Svíþjóð og viðtökum bókar hans þar og annars staðar á Norðurlöndum. Sænska og norska öryggislögreglan fylgdist með honum og skrifaði um hann skýrslur. Árið 1942 kom bókin út á sænsku, en vegna hlutleysis Svíþjóðar í stríðinu voru kaflar um fangabúðir nasista og pyndingar þeirra felldir þar út. Þýski sagnfræðingurinn Ernst von Waldenfels, sem skrifað hefur ævisögu Valtins á þýsku, flutti samantekt um rannsóknir sínar. Hélt hann því fram, að söguhetja bókarinnar, Jan Valtin, væri ekki einn og sami maður og höfundurinn, Richard Krebs, þótt hann vildi ekki ganga svo langt að segja, að bókin væri skáldsaga frekar en sjálfsævisaga. Dr. Roger Mattson, sem fæst nú við að skrifa ævisögu Valtins á ensku, lýsti fimm síðustu árunum í ævi Krebs, frá 1945 til 1950. Prófessor Guillaume Bourgeois fór yfir fróðleik um Krebs í skjalasöfnum bresku leynilögreglunnar og fransks málafærslumanns kommúnista, Joë Nordmann. Skýrslur bresku leynilögreglunnar sýndu, að Krebs hafði síður en svo ýkt hlutverk sitt sem erindreka hinnar alþjóðlegu kommúnistahreyfingar. Prófessor Gildas Le Voguer talaði um yfirheyrslur bandarískrar rannsóknarnefndar yfir Krebs.
Prófessor Bourgeois skipulagði ráðstefnuna, og voru umræður líflegar og skemmtilegar. Sonur Richards Krebs, Eric, var sérstakur gestur hennar ásamt konu sinni og las úr óbirtum bréfum föður síns fyrir ráðstefnugesti að kvöldi 14. nóvembers. Fyrirlestrarnir verða væntanlega gefnir út á bók. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni er liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.