Peterson og Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri AB.
Almenna bókafélagið, samstarfsaðili RNH á Íslandi, hefur gefið út bókina Tólf lífsreglur: Mótefni gegn glundroða eftir kanadíska sálfræðiprófessorinn Jordan Peterson, sem orðinn er heimskunnur fyrir framgöngu sína í sjónvarpsþáttum. Höfundurinn kom til Íslands í júníbyrjun og hélt tvo fyrirlestra fyrir fullum sal í Hörpu að kvöldi 4. og 5. júní, og voru gestir hinir ánægðustu. Hafði Gunnlaugur Jónsson fjárfestir veg og vanda af heimsókninni. Peterson telur, að öfgafullir vinstri menn hafa náð undirtökum í háskólum á Vesturlöndum og noti áhrif sín og völd til þess að þagga niður í öðrum. Þeir vilji gera alla að fórnarlömbum í stað þess að hvetja menn til að leggja á brattann, standa aftur á fætur, þótt þeir hrasi. Mikla athygli vakti, að Frosti Logason talaði við Peterson í Harmageddon og Þorbjörn Þórðarson í Ísland í dag.
Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, velti því fyrir sér í Fróðleiksmola í Morgunblaðinu 9. júní, hvers vegna Peterson fengi svo góðar undirtektir:
Ein ástæðan er, að hann nýtir sér út í hörgul nýja miðla, Youtube og Twitter. Hann er gagnorður og sléttmáll, og honum fipast hvergi, er harðskeyttir viðmælendur sækja að. Í öðru lagi deila miklu fleiri með honum skoðunum en mæla fyrir þeim opinberlega. Langflestir menntamenn eru vinstri sinnaðir: Gáfaðir hægri menn gerast verkfræðingar, læknar eða atvinnurekendur, gáfaðir vinstri menn kennarar eða blaðamenn. Þriðja ástæðan er, að vinstri sinnaðir menntamenn hafa nú miklu meiri völd í skólum og fjölmiðlum en áður, og þeir nota þau til að þagga niður í raunverulegri gagnrýni. Í huga þeirra eru vísindin ekki frjáls samkeppni hugmynda, heldur barátta, aðallega gegn kapítalismanum, en líka gegn „karlaveldinu“. Eins og Peterson bendir á, eru til dæmis eðlilegar skýringar til á því, að tekjumunur mælist milli kynjanna. Fólk hefur tilhneigingu til að raða sér í ólík störf eftir framtíðaráætlunum sínum, og það er niðurstaðan úr þessari röðun, þessu vali kynjanna, sem mælist í kjarakönnunum. En á Íslandi og annars staðar hefur risið upp jafnréttisiðnaður, sem kennir „karlaveldinu“ um þessa mælinganiðurstöðu. Jafnframt hefur skólakerfið verið lagað að áhugamálum róttækra kvenfrelsissinna, svo að tápmiklir piltar finna þar litla fótfestu. Nú er aðeins þriðjungur þeirra, sem brautskrást úr Háskóla Íslands, karlkyns.