Í viðtali við Morgunblaðið 17. júní benti Gordon Munro, prófessor emeritus í fiskihagfræði við Háskólann í Bresku Kólumbíu, á, að mikilvægt væri, að útgerðarmenn næðu samkomulagi sín í milli um skynsamlega nýtingu fiskistofna. Rakti hann þróunina í Bresku Kólumbíu, sem væri um sumt svipuð þróun kvótakerfisins á Íslandi. Nú litu útgerðarmenn á fiskistofnana sem verðmæti, sem yrði að gæta, og hefðu gott samstarf um nýtingu þeirra. Munro flutti fyrirlestur á ráðstefnu um fiskihagfræði, sem Félagsvísindasvið Háskóla Íslands hélt til heiðurs Ragnari Árnasyni prófessor sjötugum 14. júní 2019.