RNH á aðild að Evrópuvettvangi minningar og samvisku. Á ráðstefnu vettvangsins í París 8.–9. nóvember 2017 var eftirfarandi yfirlýsing samþykkt:
Fyrir hundrað árum gerðu bolsévíkar byltingu og stofnuðu blóðugt draumaríki sitt. Þeir rifu upp með rótum það skipulag samskipta og siðferðis, sem áður hafði staðið, og voru upphafsmenn alræðisstjórnar. Með ofbeldi og án miskunnar var hrundið af stað allsherjarskipulagningu, sem miðaði að því að ná fullkomnu taki á fólki. Menn voru sviptir réttindum sínum, og ógnarstjórn leysti af hólmi réttarríki og mannúðarstefnu.
Hundrað árum eftir byltingu bolsévíka er morðingjastjórnin, sem þá rændi völdum, enn talin á einhvern hátt réttlætanlegri og afsakanlegri en stjórn þjóðernissósíalista, nasista, þrátt fyrir að fórnarlömb kommúnista hafi reynst rúmlega tvöfalt fleiri, mörg ekki verið nafngreind og liggi sum enn í ómerktum gröfum. Við þetta verður ekki unað.
Nú, að öld liðinni, sjáum við, hvernig reynt er að gera glæpi kommúnista afstæða. Tilraunir til að afmarka þá við valdatíma Stalíns og kalla þá „stalínisma“ eru ótækar einfaldanir á hinu djúprætta alræðiseðli kommúnismans. Þetta veldur því, að enn eru kommúnistatákn ekki bönnuð í Evrópu og enn starfa þar kommúnistaflokkar. Margir liðsmenn alræðisstjórna sættu aldrei ákæru eða refsingu fyrir glæpi sína.
Evrópa okkar daga er reist á rótgrónum hugmyndum um einstaklingsfrelsi, réttarríki, lýðræði og mannréttindi. Tugmilljónir fórnarlamba kommúnismans verðskulda virðingu, minningu og réttlæti, svo að komið verði í veg fyrir viðleitni til að endurvekja kommúnisma eða aðrar alræðisstefnur.
Þess vegna skorar Evrópuvettvangur minningar og samvisku og þátttakendur á alþjóðlegri ráðstefnu um „Kommúnisma í hundrað ár: Sögu og minningu“, sem haldin var í París í Frakklandi 8.–9. nóvember 2017, á Evrópuþjóðir að hefjast handa:
- Í því skyni að sýna fórnarlömbum alræðisstjórna kommúnista virðingu knýjum við á um opinbert bann, sem nái til Evrópu allrar, við því að sýna kommúnistatákn opinberlega.
- Í því skyni að rækta minninguna biðjum við um minnisvarða í hjarta Evrópu um fórnarlömb alræðisstefnunnar.
- Í því skyni að ná fram réttlæti leggjum við til, að stofnaður verði Alþjóðlegur dómstóll um glæpi kommúnismans.
Við, hið frjálsa Evrópufólk okkar daga, deilum lífsgildum. Okkur er skylt að verja þau og boða. Lýðræði skiptir máli!